Hús Hjálpræðishersins Húsið Kirkjustræti 2 var byggt 1916. Það er skráð sem gistiheimili í þjóðskrá. Leyfi er fyrir 133 gesti í húsinu.
Hús Hjálpræðishersins Húsið Kirkjustræti 2 var byggt 1916. Það er skráð sem gistiheimili í þjóðskrá. Leyfi er fyrir 133 gesti í húsinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Herkastalinn er aftur til sölu eftir að hafa verið keyptur af Hjálpræðishernum fyrir nokkrum árum. Húseignin, Kirkjustræti 2, er nú í eigu sjóðs sem er í rekstri hjá Gamma.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Herkastalinn er aftur til sölu eftir að hafa verið keyptur af Hjálpræðishernum fyrir nokkrum árum. Húseignin, Kirkjustræti 2, er nú í eigu sjóðs sem er í rekstri hjá Gamma.

Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, segir eignina bjóða upp á margvíslega möguleika. Herkastalinn sé án efa eitt helsta kennileiti borgarinnar og sé mjög vel staðsettur m.t.t. samgangna og auðvelt að sjá fyrir sér að hann geti hýst ýmiss konar starfsemi.

„Þetta er fallegt hús á frábærum stað sem hentar undir margvíslega starfsemi. Í húsinu hefur verið rekin gisting í yfir 100 ár og því liggur beinast við að húsið hýsi einhvers konar gistirekstur. Jafnframt væri mögulegt að nota húsið undir skrifstofur og til dæmis setja upp skrifstofuhótel,“ segir Valdimar.

Valdimar kveðst aðspurður fremur sjá fyrir sér atvinnurekstur í húsinu en að því verði breytt í íbúðarhúsnæði. Húsið sé við hlið fyrirhugaðrar skrifstofubyggingar Alþingis og geti hentað undir opinberar stofnanir.

Kaflaskil skapa tækifæri

Spurður um tímasetningu sölunnar bendir Valdimar á fjárfestingarmarkmið sjóðsins. Málið snúist fremur um þau en ytri aðstæður í hagkerfinu.

„Hins vegar eru tækifæri að skapast fyrir kaupendur. Hægt hefur á ferðaþjónustu. Við erum í vissum kaflaskilum varðandi framhaldið í greininni. Ég hygg að flestir séu sammála um að áfram sé bjart yfir ferðaþjónustunni. Slakinn sem er að myndast gefur mönnum tækifæri til að horfa til framtíðar, taka stöðuna og endurmeta hvernig sumir hlutir eru gerðir,“ segir Valdimar.

Nú sé tækifæri til að vinna hlutina vel og vandlega og undirbúa til langrar framtíðar. „Þá út frá hógværum væntingum um fjölgun ferðamanna,“ segir Valdimar.

Fram kom í Morgunblaðinu í febrúar 2016 að Pálmar Harðarson, fjárfestir hjá Þingvangi, hefði keypt húsið í félagi við ísraelska fjárfestinn Orit Feldman-Dahlgren, sem seldi lúxusferðir til Norðurlanda. Kaupverðið væri 630 milljónir.

Pálmar kvaðst aðspurður hafa selt sig út úr verkefninu. Margt hefði breyst á hótelmarkaði síðan verkefnið var í undirbúningi. Húsið var byggt 1916 og er 1.405 fermetrar.