Írska lággjaldaflugfélagið skilaði 20 milljóna evra tapi á síðustu þremur mánuðum ársins 2018. Það jafngildir ríflega 2,7 milljarða króna tapi. Er það viðsnúningur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 106 milljónum evra.

Írska lággjaldaflugfélagið skilaði 20 milljóna evra tapi á síðustu þremur mánuðum ársins 2018. Það jafngildir ríflega 2,7 milljarða króna tapi. Er það viðsnúningur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 106 milljónum evra. Tekjur félagsins jukust hins vegar um 9% milli ára og farþegafjöldinn jókst um 8%. Sætanýting félagsins var 96% og breyttist ekki milli ára.

Samhliða afkomutilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær var tilkynnt um talsverðar skipulagsbreytingar á vettvangi félagsins. Þannig mun Michael O'leary, forstjóri félagsins setjast í stól forstjóra samstæðunnar, sem fjögur flugfélög heyra undir, Ryanair DAC, Laudamotin, Ryanair Sun og Ryanair UK. Þá hefur hann gert samning um að starfa hjá félaginu til næstu fimm ára eða til ársins 2024. Þá tilkynnti stjórnarformaður félagsins til síðustu tveggja áratuga, David Bonderman, að hann hygðist hverfa úr stjórn á næsta ári. Hann hefur verið undir miklum þrýstingi frá því í fyrra um að segja af sér.