Eyjar Valskonan Heiðrún Berg Sverrisdóttir fer framhjá Eyjakonunni Gretu Kavaliuskaite í leiknum í Vestmannaeyjum þar sem Valur vann stórsigur.
Eyjar Valskonan Heiðrún Berg Sverrisdóttir fer framhjá Eyjakonunni Gretu Kavaliuskaite í leiknum í Vestmannaeyjum þar sem Valur vann stórsigur. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Eyjum Guðmundur T. Sigfússon sport@mbl.is Valskonur kafsigldu lið ÍBV í gærkvöldi er liðin áttust við í fyrsta leik 15. umferðar Olís-deildar kvenna.

Í Eyjum

Guðmundur T. Sigfússon

sport@mbl.is

Valskonur kafsigldu lið ÍBV í gærkvöldi er liðin áttust við í fyrsta leik 15. umferðar Olís-deildar kvenna. Slíkur var munurinn á liðunum að leiknum lauk með 13 marka sigri gestanna, 29:16, en leikið var í Vestmannaeyjum. Valur jók þar með forskot sitt á toppi deildarinnar í fjögur stig en Fram getur minnkað muninn aftur í kvöld þegar Safamýrarliðið tekur á móti HK.

Ungt lið Vals, í bland við reynslumikla leikmenn, átti frábæran leik en strax frá fyrstu mínútu var það ljóst að Valsliðið væri betur gírað fyrir leikinn. Munurinn jókst og jókst eftir því sem á leið og var öll von úti fyrir Eyjakonur þegar gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri.

Lið ÍBV er gríðarlega vel mannað og spilaði virkilega vel fyrir áramót, eftir áramót hefur liðið þó engan veginn náð því flugi sem Eyjamenn vonuðust eftir. Sterkir leikmenn voru fengnir til Eyja fyrir leiktíðina, Arna Sif Pálsdóttir og Sunna Jónsdóttir nánar tiltekið. Þær hafa leikið með landsliðinu í áraraðir.

Ræður einhver við Valsliðið?

Eina leiðin fyrir Eyjakonur er upp á við og eru allar líkur á því að liðið muni rífa sig upp á komandi vikum.

Valskonur áttu þó frábæran leik og gáfu ekkert eftir þrátt fyrir að munurinn væri kominn í tveggja stafa tölu. Díana Dögg Magnúsdóttir átti frábæran leik og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir stýrði vörninni af stakri snilld. Íris Björk Símonardóttir átti síðan magnaðan leik fyrir aftan sterka vörn Vals.

Ég á bágt með að sjá eitthvert lið standa Valskonum snúning á lokastigum tímabilsins, því liðið verður einungis betra með hverri umferðinni.

ÍBV – Valur 16:29

Vestmannaeyjar, Olísdeild kvenna, mánudag 4. febrúar 2019.

Gangur leiksins : 1:3, 1:5, 3:7, 4:9, 7:12, 7:15, 9:18, 10:21, 12:25, 15:27, 15:28, 16:29.

Mörk ÍBV : Ester Óskarsdóttir 5, Arna Sif Pálsdóttir 4/2, Ásta Björt Júlíusdóttir 3, Greta Kavaliauskaite 2, Sandra Dís Sigurðardóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1.

Varin skot : Guðný Jenný Ásmundsdóttir 5, Andrea Gunnlaugsdóttir 4.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Vals : Díana Dögg Magnúsdóttir 10, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 6, Lovísa Thompson 5, Sandra Erlingsdóttir 4/4, Heiðrún Berg Sverrisdóttir 1, Alina Molkova 1, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 15, Chantal Pagel 2.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Bjarni Viggósson og Jón Karl Björnsson.

Áhorfendur : 150.