Það kom mörgum á óvart þegar Geir Þorsteinsson tilkynnti að hann byði sig fram til formanns KSÍ að nýju.
Það kom mörgum á óvart þegar Geir Þorsteinsson tilkynnti að hann byði sig fram til formanns KSÍ að nýju. Á laugardaginn ræðst það hvort Guðni Bergsson heldur áfram sem formaður eða hvort Geir snýr aftur á skrifstofuna í Laugardalnum eftir tveggja ára fjarveru.

Án þess að vilja taka afstöðu varðandi það hvorum sé betur treystandi til að leiða KSÍ þá tel ég það mjög gott fyrir sambandið, sem hefur svo mikið samfélagslegt mikilvægi, að staldra reglulega við og skoða hvort það telji sig vera á réttri braut, hversu gott starf hafi verið unnið síðustu misseri og hvað megi helst til betri vegar færa. Framboð Geirs ýtir undir þess háttar sjálfsgagnrýni íslenskrar knattspyrnu.

Mennirnir sem skoruðu í fyrsta leik Íslands á HM í fótbolta skoruðu báðir þrennu í fyrradag. Þvílíkir markahrókar sem þeir Agüero og Alfreð eru. Það eina sem hægt er að setja út á þá er líklega hvað þeim hættir til að meiðast. Það er fúlt að jafnvel hjá félagsliðum eins og Manchester City, þar sem sjálfsagt ekkert er til sparað við að útvega bestu hugsanlegu aðstöðu og sjúkrateymi, skuli ekki vera hægt að forða mönnum betur frá meiðslum. En þegar þessir leikmenn fá að spila þá skora þeir.

Það er ágætt fyrir ungt knattspyrnufólk að hafa í huga að þegar Alfreð varð tvítugur hafði hann aðeins leikið fjóra leiki í efstu deild. Núna, nýorðinn þrítugur, hefur hann skorað 104 mörk í erlendri deildarkeppni og aðeins þeir Heiðar Helguson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa gert betur. Að hafa skorað fjórar þrennur á aðeins 17 mánuðum, og það í þýsku 1. deildinni, er líka magnað. Ef fram heldur sem horfir og líkaminn leyfir þá fer Alfreð fram úr Eiði áður en tímabilið er á enda.