Þorkell Á. Jóhannsson
Þorkell Á. Jóhannsson
Eftir Þorkel Á. Jóhannsson: "Fordæmið liggur fyrir nú þegar í sjálfri kyrrsetningunni, því ekkert annað íslenskt flugfélag hefur þurft að sæta aðför eins og þessari."

Aðförin að flugfélaginu Erni undanfarnar vikur getur ekki flokkast sem neitt annað en ofbeldisverk. Loksins, meira en hálfu ári eftir að ný og stærri flugvél félagsins hefði átt að hefja störf og stórauka afköst litla flugfélagsins, náðist sá langþráði áfangi eftir óvenju langdregið skráningarferli, og þessi glæsilegi farkostur hóf sig til flugs nú um hátíðarnar. Eftir að hafa þurft að þjálfa áhafnir hennar í tvígang, þar sem fyrsta þjálfun rann út, og eftir að hafa burðast með fjármagnskostnað allan þann tíma án þess að vélin ynni fyrir sér, sást nú ljós fyrir enda ganganna.

En hvað gerðist þá? Þessi nýja flugvél, dýrasta og afkastamesta vinnutæki litla flugfélagsins, var kyrrsett aðeins örfáum dögum eftir að hún hóf sig til flugs! Isavia þótti á þessum tímapunkti tilvalið að herða innheimtuaðgerðir gegn þessu litla flugfélagi og valdi sem sagt ekki að kyrrsetja neina aðra vél þeirra en einmitt þessa. Koma við kaunin á þeim! Engu virðist skipta Isavia að með þessu er verið að hamla gegn einmitt fljótvirkustu lausninni á skuldavanda litla félagsins, ef þessi vél fengi að skapa félaginu tekjur.

Ernir fjárfesti nýverið einnig í stórbættri aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli og nemur sá virðisauki u.þ.b. sömu upphæð og skuld félagsins við Isavia. En ótrúlega langsóttur fyrirsláttur um eignarhald þessa húsakosts kemur í veg fyrir að Ernir geti boðið hann sem veð fyrir þessari skuld. Hér virðist allt reynt til að knésetja þetta litla félag, enda mun það líklega takast innan skamms ef þessari óbilgirni linnir ekki.

Burtséð frá hörkunni sem Isavia beitir í þessu máli þá er alveg orðið ljóst, nú þegar kyrrsetning flugvélarinnar hefur varað nærri mánuð, að átakanlegur skortur er á pólitískum vilja til að koma til móts við Erni. Isavia er jú ekkert annað í reynd en ríkisstofnun, en með ohf-fyrirkomulaginu tekst á ótrúlegan hátt að láta líta svo út sem þarna sé um að ræða eitthvert stjórnlaust ríki í ríkinu í stað þess að ráðherrar samgöngu- og fjármála rísi undir sinni ábyrgð og grípi í taumana og leysi málið eins og þeim ber. Ábyrgðin á þessu óhæfuverki er á endanum þeirra því Isavia heyrir undir þeirra ráðuneyti. Ég tel rétt að það sé haft í huga, fari svo að þessi knésetning nái fram að ganga.

Ég hef hlerað það innan úr pólitískum herbúðum ráðherranna að þar ríki einhver hræðsla við fordæmið, ef þessum innheimtuaðgerðum verði aflétt án fullrar lausnar á vanda Ernis. En fordæmið liggur fyrir nú þegar í sjálfri kyrrsetningunni, því ekkert annað íslenskt flugfélag hefur þurft að sæta aðför eins og þessari. Að undanförnu hefur þó annað flugfélag átt í vök að verjast (en virðist blessunarlega vera að komast fyrir vind) og nemur skuld þess við Isavia u.þ.b. tuttugufaldri upphæðinni sem litla flugfélagið skuldar. Þar á bæ hefur engin flugvél verið kyrrsett. Þessi ohf-stofnun, sem er að fullu og öllu í eigu ríkisins, er með þessu framferði að gefa nýtt fordæmi um grófa mismunun milli skuldara sinna og brot á jafnræðisreglu. Siðferði stjórnenda Isavia, sem og áðurnefndra ráðherra grípi þeir ekki í taumana í tæka tíð, rís ekki hærra en þetta. Ekkert réttlætir að þessu ofbeldi sé ekki aflétt nú þegar.

Höfundur er flugmaður en er ekki hagsmunatengdur við Erni.