Erfiður Haukur Þrastarson sækir að Böðvari Páli Ásgeirssyni, leikmanni Aftureldingar, í gærkvöldi. Haukur skoraði 10 mörk í leiknum, m.a. sigurmarkið.
Erfiður Haukur Þrastarson sækir að Böðvari Páli Ásgeirssyni, leikmanni Aftureldingar, í gærkvöldi. Haukur skoraði 10 mörk í leiknum, m.a. sigurmarkið. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Varmá/Eyjar Ívar Benediktsson Guðmundur Tómas Sigfússon Pólski markvörðurinn Pawel Kiepulski sá til þess að Selfoss-liðið fór með bæði stigin úr Mosfellsbæ í gærkvöldi.

Varmá/Eyjar

Ívar Benediktsson

Guðmundur Tómas Sigfússon

Pólski markvörðurinn Pawel Kiepulski sá til þess að Selfoss-liðið fór með bæði stigin úr Mosfellsbæ í gærkvöldi. Hann varði þrumuskot Birkis Benediktssonar, leikmanns Aftureldingar, á síðustu sekúndu leiksins eftir að hafa átt fremur litlausan leik, lokatölur, 29:28, í háspennuleik að Varmá. Hálfri mínútu áður en Kiepulski sá við Birki hafði Haukur Þrastarson komið Selfoss-liðinu yfir með tíunda marki sínu í leiknum eftir að hafa leikið sig í gegnum miðja vörn Aftureldingar sem var án eins leikmanns eftir að Einari Inga Hrafnssyni var vikið af leikvelli 45 sekúndum fyrir leikslok.

Með sigri Selfoss jókst munurinn á liðunum í þriðja og fjórða sæti annarsvegar, Selfoss og FH, og Aftureldingu hinsvegar upp í fimm stig en Aftureldingarliðið er í fimmta sæti. Eyjamenn sem náðu aðeins jafntefli á heimavelli, 24:24, gegn baráttuglöðum ÍR-ingum eru í sjötta sæti með 13 stig og eiga eins og Aftureldingarmenn nokkuð í land til að ná toppliðunum fjórum.

Selfoss-liðið byrjaði leikinn af nokkrum krafti í gær. Framliggjandi vörn liðsins olli Mosfellingum erfiðleikum. Elvar Ásgeirsson og Birkir Benediktsson fengu ekki það rými til athafna sem þeir þurftu. Eftir ríflega 20 mínútna leik var munurinn orðinn sex mörk, 13:7. Þegar flautað var til hálfleiks var forskot Selfoss-liðsins fjögur mörk, 16:12.

Munurinn varð mestur sex mörk á ný snemma í síðari hálfleik, 21:15, og flest benti til þess að lítil breyting yrði á. Einar Andi Einarsson, þjálfari Aftrueldingar, brá þá á það ráð að leika með sjö menn í sókn. Við það varð Selfoss-liðið að bakka með vörn sína. Eins gerðu Mosfellingar áherslubreytingar á varnarleik sínum. Hvorttveggja hreif. Selfoss-liðið var ekki búið undir sjö manna sóknarleik Aftureldingar og munurinn minnkaði jafnt og þétt.

Síðustu sjö til átta mínútur leiksins voru æsilega spennandi. Aftureldingarliðinu tókst að jafna metin hvað eftir annað en lánaðist ekki að komast yfir. Selfoss-liðið náði að halda frumkvæði sínu og vera á undan að skora þrátt fyrir talsverðan darraðardans undir lokin.

Haukur Þrastarson átti stórleik fyrir Selfoss-liðið. Hann var allt í öllu í sóknarleiknum ásamt Elvari Erni Jónssyni sem þó var ekki eins atkvæðamikill í síðari hálfleik og í þeim fyrri. Atli Ævar Ingólfsson var illviðráðanlegur á línunni þar sem hann lék lausum hala og var fyrir vikið fóðraður vel af sendingum. Einar Sverrisson átti einnig góða innkomu í síðari hálfleik.

Skarð var fyrir skildi hjá Selfoss-liðinu að Árni Steinn Steinþórsson, eina örvhenta skytta liðsins, er frá keppni vegna meiðsla í baki. Selfoss-liðið lék því eins og danska landsliðið með hægrihandarmann í hægri skyttustöðunni og leysti vel úr sínum málum.

Aftureldingarmenn mega vera vonsviknir yfir að hafa ekki krækt í annað stigið eftir þá vinnu sem þeir lögðu í síðari hálfleikinn, jafnt í vörn sem sókn.

Margir frá vegna meiðsla

Sveinn Andri Sveinsson tryggði ÍR-ingum annað stigið með lokaskoti leiksins þegar þrjár sekúndur voru eftir af viðureign ÍBV og ÍR, 24:24. ÍR-ingar fögnuðu vel og innilega enda með tapaðan leik í höndunum stuttu áður.

ÍR-ingar voru án þriggja leikmanna, Arnars Freys Guðmundssonar, Elíasar Bóassonar og Úlfs Kjartanssonar en þeir eru allir frá vegna meiðsla. Stigið er ekki síst dýrmætt fyrir ÍR-inga fyrir þær sakir að með tapi hefðu þeir misst Eyjamenn þremur stigum frá sér, það útskýrir gríðarlegan fögnuð gestanna í leikslok.

Hjá Eyjamönnum eru tveir bestu leikmenn liðsins, Sigurbergur Sveinsson og Theodór Sigurbjörnsson, frá vegna meiðsla og litlar líkur taldar á því að þeir spili meira á leiktíðinni. Fráfall Kolbeins Arons Arnarsonar var Eyjamönnum þung byrði í desember og janúar og var hans minnst fyrir leik með einnar mínútu klappi.

Ljóst er að róðurinn verður erfiður hjá Eyjamönnum það sem eftir lifir leiktíðar og ekki útlit fyrir það að liðið verji neinn af þeim fjórum bikurum sem þeir halda nú í Eyjum. ÍR-ingar misstu Bergvin Þór Gíslason af velli vegna meiðsla eftir fimmtán mínútna leik og riðlaði það sóknarleik liðsins verulega.

ÍBV – ÍR 24:24

Vestmannaeyjar, Olísdeild karla, mánudag 4. febrúar 2019.

Gangur leiksins : 2:0, 3:5, 5:6, 6:9, 9:13, 11:14 , 14:15, 16:16, 19:18, 21:20, 23:21, 24:22, 24:24.

Mörk ÍBV : Hákon Daði Styrmisson 8/2, Kári Kristján Kristjánsson 5/3, Dagur Arnarsson 5, Grétar Þór Eyþórsson 4, Kristján Örn Kristjánsson 2.

Varin skot : Haukur Jónsson 7, Björn Viðar Björnsson 3.

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk ÍR : Björgvin Þór Hólmgeirsson 6/1, Sturla Ásgeirsson 6/1, Pétur Árni Hauksson 4, Kristján Orri Jóhannsson 3, Sveinn Andri Sveinsson 2, Bergvin Þór Gíslason 1, Sveinn Jóhannsson 1, Þrándur Gíslason Roth 1.

Varin skot : Stephen Nielsen 10/2.

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Jónas Elíasson og Magnús Kári Jónsson.

Áhorfendur : 400.

Afturelding – Selfoss 28:29

Varmá, Olísdeild karla, mánudag 4. febrúar 2019.

Gangur leiksins : 2:2, 4:5, 7:8, 7:12, 9:14, 12:16 , 14:19, 15:21, 19:22, 23:24, 25:27, 27:27, 28:28, 28:29 .

Mörk Aftureldingar : Júlíus Þórir Stefánsson 6, Birkir Benediktsson 6, Elvar Ásgeirsson 5, Finnur Ingi Stefánsson 5, Tumi Steinn Rúnarsson 2/1, Sturla Magnússon 1, Böðvar Páll Ásgeirsson 1, Arnór Freyr Stefánsson 1, Árni Bragi Eyjólfsson 1/1.

Varin skot : Arnór Freyr Stefánsson 9/1, Pálmar Pétursson 2.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Selfoss : Haukur Þrastarson 10/3, Atli Ævar Ingólfsson 6, Elvar Örn Jónsson 5/1, Einar Sverrisson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Hergeir Grímsson 2, Guðni Ingvarsson 1.

Varin skot : Pawel Kiepulski 8/2, Sölvi Ólafsson 2.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Svavar Ólafur Pétursson.

Áhorfendur : 350.