Landsmenn hafa margir beðið eftir nauðsynlegum samgöngubótum eða hreinlega að halda við þeim vegum sem fyrir eru. Verkefnin eru næg en fjármunir sem settir eru í þau litlir.

Landsmenn hafa margir beðið eftir nauðsynlegum samgöngubótum eða hreinlega að halda við þeim vegum sem fyrir eru. Verkefnin eru næg en fjármunir sem settir eru í þau litlir. Um alltof langan tíma hafa skattar og gjöld sem innheimt eru vegna aksturs og ökutækja ekki ratað á þann stað sem þeim er ætlað, þ.e. til viðhalds og nýframkvæmda. Vegna þessa hafa mörg verkefni beðið og bíða enn þrátt fyrir stóraukna umferð, tjón og alvarleg slys sem ekki verða metin til fjár.

Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var innihaldslítil en líklega var fátt jafn rýrt og það sem sneri að samgöngumálum. Síðastliðið haust var svartnættið slíkt hjá samgönguráðherra að hann varaði fólk við óraunhæfum væntingum um samgöngubætur. Það er skiljanlegt þar sem hann var nýbúinn að samþykkja áður nefnda ríkisfjármálaáætlun. Áætlun ráðherra gekk síðan meira og minna út á það að framkvæma eftir kjörtímabilið þótt bætt væri lítillega í á nokkrum stöðum.

Það er eðlilegt að við lítum okkur næst þegar við veltum samgöngum fyrir okkur og hvað við teljum brýnast. Sveitarfélögin í suðvesturkjördæmi hafa barist fyrir auknu umferðaröryggi. Nægir þar að nefna Reykjanesbraut, Reykjavíkurveg og Sundabraut svo nokkur verkefni séu nefnd. Þolinmæði þessara aðila er eðlilega á þrotum og nú er svo komið að margir sveitarstjórnarmenn á suðvesturhorninu eru hlynntir veggjöldum verði það til þess að flýta framkvæmdum og auka öryggi. Í útvarpsviðtali kom fram hjá bæjarstjóra Hafnarfjarðar að hún teldi veggjöld eingöngu koma til greina ef fjármunirnir rötuðu beint í verkefnin á svæðinu. Þetta er skiljanleg afstaða og fyrirmyndirnar til en eins og flestir muna þá fóru gjöld sem greidd voru fyrir notkun á Hvalfjarðargöngum í að greiða niður kostnað við þau. Kostnaður bifreiðaeigenda eykst að sjálfsögðu við notkun á gjaldskyldum vegum. Það verður því að vera markmið okkar, verði einhvers konar veggjöld að veruleika, að annar kostnaður þeirra lækki á móti, t.d. kolefnisskatturinn, sem núverandi ríkisstjórn hefur gert að sérstöku áhugamáli sínu, eða bensíngjöld.

Það er vel þess virði að reyna að finna leiðir til að fjármagna framkvæmdir með nýjum hætti. Það breytir því þó ekki að skattar sem innheimtir eru í dag vegna aksturs og ökutækja fara langt með að fjármagna núverandi þörf. Því er eðlilegt, eins og áður hefur verið nefnt, að þeir lækki til móts við gjaldheimtu. Í umræðu um veggjöld má ekki gleyma að víða um land eru vegir sem algerlega eru óboðlegir, sama á hvaða tíma sólarhrings ekið er um þá, og verða ekki lagaðir með gjaldheimtu á notkun. Sum okkar búa varla við samgöngur og annars staðar þurfa íbúar að leggja sig í hættu við að ferðast milli byggðarlaga, þeim má ekki gleyma.

gunnarbragi@althingi.is

Höfundur er alþingismaður suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins.