Magnús Svavar Magnússon fæddist 6. janúar 1954. Hann lést 2. janúar 2019.

Útför Magnúsar var gerð 11. janúar 2019.

Þótt líkami minn hrörni,

hann veslist upp

og á honum slokkni.

Þá lifir sál mín,

hún þakkar og fagnar,

fær frelsi, fagra hvíld.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Við félagarnir í Kiwanisklúbbnum Eldey, Kópavogi, söknum góðs vinar. Magnús S. Magnússon var góður félagi og vinur. Hann var alltaf boðinn og búinn að vinna einhver verk fyrir klúbbinn. Það var alveg sama hversu mikið gekk á alltaf var Magnús rólegur. Hann róaði menn niður bara með því að vera viðstaddur. Hann barðist lengi við illvígan sjúkdóm, en varð að lokum að játa sig sigraðan. Það voru forréttindi að fá að kynnast Magnúsi. Hann var það sem kallað var í gamla daga „drengur góður“. Við félagarnir minnumst Magnúsar með virðingu og söknuði og þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast honum. Við vottum Hafdísi og börnunum innilega samúð.

Páll Svavarsson, forseti Kiwanisklúbbsins Eldeyjar.