Eldey Súlan er að setjast upp á klettadranginn þessa dagana.
Eldey Súlan er að setjast upp á klettadranginn þessa dagana. — Ljósmynd/Eldey.is
Súlan er byrjuð að hreiðra um sig í Eldey en á klettadranginum undan Reykjanesi er stórt súluvarp. Myndavélar eru í eyjunni og er hægt að fylgjast með á eldey.is.

Súlan er byrjuð að hreiðra um sig í Eldey en á klettadranginum undan Reykjanesi er stórt súluvarp. Myndavélar eru í eyjunni og er hægt að fylgjast með á eldey.is.

Sigurður Harðarson sem sér um búnaðinn segir að atburðarásin hafi verið hröð í fyrradag, á sunnudag. Um klukkan tíu um morguninn hafi verið farinn að sjást fjöldi fugla á flugi umhverfis eyjuna. Hann var með stöðuga upptöku fram yfir miðjan dag. Um klukkan 11 var kominn fjöldi fugla fremst á brúnina. Í hádeginu fjölgaði fuglinum hratt innar á eyjunni, fyrir framan myndavélina. Fljótlega hafi nokkrar súlur farið að slást um yfirráð yfir þúfum fyrir hreiður og þannig hafi það einnig verið í gærmorgun.

Hreiðrin standa þétt og súluparið ver hreiður sitt af hörku svo nágrannarnir nái ekki að ræna hreiðurefni. Súlubyggðin er langt frá því að vera kyrrlátur staður og allan daginn hljómar urr og krunk.

Sigurður segir að lifandi mynd sé á heimasíðunni á milli kl. 14.40 og 15.40 þessa dagana og svo sé upptakan spiluð fram að næstu upptöku, á sama tíma daginn eftir. Á varptímanum er enn meira um að vera og þá verður beina útsendingin lengd um miðjan daginn. helgi@mbl.is