Þóroddur Bjarnason
Þóroddur Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríksins, eru á meðal þeirra stofnanafjárfesta sem lagt hafa fé í sjö milljarða fjárfestingarsjóð Alfa framtak ehf., sem sagt var frá fyrir helgi að myndi ásamt Siglu ehf. fjármagna valfrjálst tilboð í hlutabréf leigufélagsins Heimavalla hf. á tilboðsgenginu 1,3 á hlut. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríksins, eru á meðal þeirra stofnanafjárfesta sem lagt hafa fé í sjö milljarða fjárfestingarsjóð Alfa framtak ehf., sem sagt var frá fyrir helgi að myndi ásamt Siglu ehf. fjármagna valfrjálst tilboð í hlutabréf leigufélagsins Heimavalla hf. á tilboðsgenginu 1,3 á hlut. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Umrætt tilboð var lagt fram samhliða ósk þriggja hluthafa félagsins, Snæbóls ehf. (7,54%), Gana ehf. (7,54%) og Klasa ehf. (3,85%), þar sem farið er fram á að stjórn Heimavalla boði til hluthafafundar þar sem tillaga um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum hjá NASDAQ Iceland hf. verði sett á dagskrá, eða slík tillaga sett á dagskrá aðalfundar. Samtals eiga þessir þrír hluthafar 18,93% í Heimavöllum.

Ástæða þess að félögin þrjú vilja afskrá Heimavelli er sú samkvæmt tilkynningu að skráning félagsins á markað hafi ekki skilað væntum ávinningi fyrir hluthafa og félagið.

Áberandi annars staðar

Það sem vekur athygli við þátttöku lífeyrissjóðanna í fjárfestingarsjóðnum er að hvorki þessir sjóðir né aðrir af fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins hafa hingað til fjárfest að neinu ráði í Heimavöllum, hvorki í hlutabréfum félagsins né í skuldabréfum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Sjóðirnir eru þrátt fyrir það áberandi á hluthafalistum flestra annarra félaga í Kauphöllinni.

Verðþróun Heimavalla hefur að mati þeirra aðila sem Morgunblaðið ræddi við í gær valdið vonbrigðum frá því félagið var tekið til viðskipta í Kauphöllinni 24. maí sl. á útboðsgenginu 1,39 krónur á hlut. Á útboðsdegi lækkaði gengið strax og hefur aldrei aftur náð útboðsgengi sínu. Í gær hækkaði félagið um 4,62% og endaði gengið í 1,25 sem er hæsta gengi bréfanna síðan í júní á síðasta ári.

Aðilar sem Morgunblaðið ræddi við sögðu að ákveðin óvissa hefði ríkt með bréf Heimavalla á markaði í gær vegna skorts á upplýsingum í fyrrnefndu tilboði hluthafanna. Ekki væri þar greint frá hverjar hugmyndir fjárfestanna væru fyrir félagið til framtíðar.

Stærsta félagið

Heimavellir eru stærsta almenna leigufélag landsins og skilgreinir sig sem íbúðaleigufélag að norrænni fyrirmynd. Félaginu var komið á fót árið 2014 og hefur fyrst og fremst vaxið með kaupum á eignasöfnum og sameiningum við leigufélög eins og Leiguliða ehf., Álftaver ehf. og V Laugaveg ehf., en sum hver höfðu þessi félög starfað allt frá árinu 2001. Með sameiningunni var eignasafnið með 191 íbúð í rekstri. Jafnt og þétt hefur bæst við eignasafnið síðan þá, sem einnig hefur verið endurskipulagt, og óhentungar einingar seldar og hagkvæmari íbúðir keyptar í staðinn. Í lok 2018 var eignasafn félagsins 1.900 íbúðir, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Heimavalla.

Einstaklingar fá lægri vexti

Magnús Árni Skúlason hjá ráðgjafarfyrirtækinu Reykjavik Economics segir að erfitt sé að segja nákvæmlega hvað valdi því að Heimavellir hafi ekki náð að fóta sig betur á hlutabréfamarkaðnum. Hann bendir á að það sé ákveðin skekkja fólgin í því að einstaklingar fái ódýrari lán til húsnæðiskaupa en fyrirtæki hér á landi. „Einstaklingar geta fengið verðtryggt lán með 2,5% vöxtum, en til samanburðar fengu Heimavellir 3,6% vexti í skuldabréfaútboði sínu í desember. Með þessu er verið að ýta einstaklingum út í að kaupa íbúðir.“

Spurður almennt um þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun félaga eins og Heimavalla bendir Magnús á að í Bandaríkjunum og í Bretlandi sé algengt að lífeyrissjóðir fjárfesti í slíkum félögum. „Til langs tíma hefði maður haldið að það væri góð fjárfesting fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta í svona félögum. En íslensku sjóðirnir hafa hingað til líklega litið svo á að það væri betri kostur að lána beint til sjóðfélaga.“

Fjárfestingar
» Fjárfestar í fjárfestingarsjóði Alfa framtak ehf. eru lífeyrissjóðir að einum þriðja hluta, tæp 44% af því sem eftir stendur eru stofnanafjárfestar, tryggingafélög og eignastýringar, og 56% einkafjármagn sem dreifist á hátt í 30 einstaklinga.
» Sigla ehf. er fjárfestingafélag í eigu Snæbóls ehf. og Gana ehf. sem aftur eru í eigu Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar. Klasi ehf. er í eigu Siglu ehf.