Flugsýn Öræfajökull í allri sinni dýrð blasti við farþegum sem komu með Icelandair frá Stokkhólmi á dögunum. Á sléttum fleti á hábungu jökulsins sést móta fyrir sigkötlunum.
Flugsýn Öræfajökull í allri sinni dýrð blasti við farþegum sem komu með Icelandair frá Stokkhólmi á dögunum. Á sléttum fleti á hábungu jökulsins sést móta fyrir sigkötlunum. — Ljósmynd/Ingimar Eydal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Áfram eru merki um innstreymi kviku og þenslu á nokkurra kílómetra dýpi undir Öræfajökli. Fjallið heldur áfram að tútna út um nokkra sentímetra ári.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Áfram eru merki um innstreymi kviku og þenslu á nokkurra kílómetra dýpi undir Öræfajökli. Fjallið heldur áfram að tútna út um nokkra sentímetra ári. Við fylgjumst því áfram grannt með fjallinu og teljum brýna ástæðu til. Almennt sagt er þó heldur rórra við jökulinn en verið hefur lengi, segir Kristín Jónsdóttir, jarðeðlisfræðingur og hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands.

Áfram mælist óróleiki í Öræfajökli og reglulega koma skjálftar sem ná allt að þremur stigum að styrk. Jarðskjálftavirknin er sambærileg núna og hún var áður en hún fór að aukast verulega árið 2017. Raunar hefur síðastliðna þrjá mánuði dregið verulega úr bæði fjölda og stærð skjálfta. Aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku kom þó skjálfti sem átti upptök sín rétt norðan við Hvannadalshnjúk og mældist hann 2,6 að styrk.

Síðasti skjálfti 2,6 að styrk

Veðurstofan er í rannsóknarsamvinnu við vísindamenn við háskólann í Uppsölum í Svíþjóð, varðandi innri gerð Öræfajökuls. Fyrstu niðurstöður í rannsóknum gefa til kynna að frávik í jarðskjálftabylgjuhraða sé í berginu á um 4 til 8 km dýpi undir miðju eldfjallinu. „Þetta frávik getur verið vísbending um kvikuhólf á þessum stað. Þá sýnir greining á vatnssýnum úr þremur jökulám umhverfis eldfjallið, það er Kvíá, Virkisá og Kotá, engar breytingar í efnasamsetningu síðastliðna mánuði, sem staðfestir að ekkert jarðhitavatn mælist í ánum. Þetta svo helst í hendur við að sigketillinn í miðri öskjunni hefur grynnkað síðan snemma í byrjun 2018 sem er til marks um að dregið hafi úr afli jarðhita undir honum,“ segir Kristín.

Áfram á óvissustigi

„Við höfum Öræfajökul áfram á óvissustigi og fylgjumst með framvindunni,“ segir Björn Ingi Jónsson, verkefnisstjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi. Fundað var á dögunum um stöðu mála með sveitarstjórnarmönnum á Hornafirði svo og vettvangsstjórn almannavarna en hana skipa fulltrúar þeirra sem bjargir veita til dæmis í náttúruhamförum.