Gróðureldar Aukin hætta er talin á því að miklir gróðureldar brjótist út hér á landi, sérstaklega í þétt grónum sumarhúsabyggðum. Slökkvilið hafa hér víða þurft að berjast við erfiða gróðurelda, meðal annars í Heiðmörk þar sem þessi mynd var tekin 2012 þegar á fimmta tug manna tók þátt í aðgerðum.
Gróðureldar Aukin hætta er talin á því að miklir gróðureldar brjótist út hér á landi, sérstaklega í þétt grónum sumarhúsabyggðum. Slökkvilið hafa hér víða þurft að berjast við erfiða gróðurelda, meðal annars í Heiðmörk þar sem þessi mynd var tekin 2012 þegar á fimmta tug manna tók þátt í aðgerðum. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Það er ekki spurning hvort þetta gerist, heldur hvenær,“ segir Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, um ummæli Trausta Jónssonar, sérfræðings í veðurfarsrannsóknum, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um liðna helgi. Trausti sagði þá aðeins tímaspursmál hvenær mjög slæmir gróðureldar myndu brjótast út í þétt grónum sumarhúsabyggðum hér á landi. Bjarni tekur undir það.

„Þetta eru orð í tíma töluð hjá Trausta. Ég held að slökkviliðin almennt séu illa búin að takast á við svona. Það þarf að verða hugarfarsbreyting varðandi búnað og annað fyrir slökkviliðið. Þetta flokkast ekki undir neitt annað en almannavarnaástand ef svona gerist. Til dæmis á mínu svæði, í Munaðarnesi og í Skorradalnum; þetta yrðu hamfarir. Heilu sumarhúsahverfin gætu hreinlega horfið,“ segir Bjarni.

Trausti sagði að hættan væri fyrst og fremst fólgin í ræktun sumarbústaðaeigenda í þéttri byggð og aukinni grósku vegna hlýnunar jarðar. Bjarni segir þetta hárrétt og er minnugur Mýraeldanna árið 2006, sem nefndir voru mestu sinueldar Íslandssögunnar.

„Ég kem aldrei til með að gleyma þeim. En það virðist ósköp lítið hafa gerst síðan þá í sambandi við þessi mál. Því miður finnst mér gæta sofandaháttar gagnvart þessu hjá stjórnvöldum. Mér finnst fólk hafa sofið mjög á verðinum. Það er ekki nóg að tala um hlutina heldur þarf að gera eitthvað róttækt.“

Ekki meðvitaðir um alvarleika

Bjarni segir að margir sumarhúsaeigendur séu heldur ekki meðvitaðir um alvarleika málsins. Tré séu gróðursett alveg heima við hús, sem auki enn frekar hættuna á því að eldur læsist í húsin ef hann breiðist út í gróðrinum. Þá sé oft mikill eldsmatur í geymslum undir veröndum. Fólk sé hreinlega að bjóða hættunni heim.

„Ef eitthvað gerist þá reynum við allt sem við getum til að hefta útbreiðsluna, en við getum lent í alveg hreint rosalegum hremmingum. Við höfum bara stóra, þunga bíla og þurfum að geta sent menn í þjálfun til þess að kynna sér hvernig aðrir haga þessu. Við höfum bara ekki peninga í það,“ segir Bjarni.

Geta breiðst út á gönguhraða

Sverrir Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að þar á bæ hafi menn einnig áhyggjur af stöðunni enda séu skógi vaxnar sumarhúsabyggðir víða í umdæmi þeirra.

„Skógareldar geta breiðst út á gönguhraða. Það var engin hugsun að búa til brunavarnarlínur þegar byrjað var að reisa sumarhúsabyggðir. Þær hafa þess vegna sprottið upp á samfelldu svæði,“ segir Haukur, en nefnir til að mynda að Brunavarnir Árnessýslu hafi kerrur með dælubúnaði til taks við sumarhúsabyggðir þar sem erfitt er að koma að stórum dælubílum.

Tíðarfarið er að breytast

„Við erum ekki á sama stað og erlendis þar sem hægt er að kalla til margar þyrlur og meiri búnaður er til umráða. Auðvitað höfum við áhyggjur af þessu. Við sjáum að tíðarfarið er að breytast. Við fengum miklar rigningar í fyrra en í ár geta alveg orðið miklir þurrkar. Við viljum ekki vera með hræðsluáróður, en þurfum að hafa hugann við þetta,“ segir Haukur.

Mikilvægt að fræða almenning

„Forvarnir eru númer eitt, tvö og þrjú sem slökkviliðið getur gert. Alveg eins og þegar við byrjuðum með bílbelti eða að flokka rusl. Það tekur tíma að fá fólk til að hugsa,“ segir Sverrir Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu. Hann sat í stýrihópi um þessi mál fyrir Mannvirkjastofnun og ríkisstjórnina síðasta vetur. Úr því starfi kom meðal annars heimasíðan grodureldar.is sem geymir mikið fræðsluefni um málið.

„Við getum sett alls konar reglugerðir og keypt fullt af búnaði, en fyrst og fremst þurfum við að fá almenning til þess að vita hvað þarf að varast. Það sem er aðalmálið í dag er fræðslan.“