Jón Baldvin Hannibalsson
Jón Baldvin Hannibalsson
Heimasíða var opnuð í gær þar sem sagðar eru 23 sögur af meintum kynferðisbrotum og áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra, í garð kvenna og barna. Elsta sagan er frá árinu 1962 og sú yngsta frá árinu 2018.

Heimasíða var opnuð í gær þar sem sagðar eru 23 sögur af meintum kynferðisbrotum og áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra, í garð kvenna og barna. Elsta sagan er frá árinu 1962 og sú yngsta frá árinu 2018. Sögunum var safnað saman á Facebook-síðu og er að finna á síðunni metoo-jonbaldvin.blog.is.

Sögurnar eru nafnlausar en í yfirlýsingu á heimasíðunni segir að nöfn þeirra sem sögurnar segja skipti ekki máli heldur Jón Baldvin sem gerandi.

„Umræðan á að snúast um hann, brot hans og afleiðingar þeirra. Það er kominn tími til að Jón Baldvin taki afleiðingum gerða sinna.“

Nokkrar af sögunum hafa verið sagðar í fjölmiðlum að undanförnu en Jón Baldvin hefur vísað þeim á bug. Fram kemur á heimasíðunni að þær sem segja frá eru meðal annars mágkona Jóns, elsta dóttir hans, tvær systurdætur eiginkonu hans sem segja frá atvikum þegar þær voru 10 ára, fyrrverandi nemendur Jóns í Hagaskóla og Menntaskólanum á Ísafirði, fyrrverandi samstarfskona hans í Alþýðuflokknum, starfskonur á börum og hótelum og dóttir fyrrverandi sendiherra Íslands í London, sem var 14 ára árið 1991 þegar þeir atburðir gerðust sem hún segir frá. Mbl.is ræddi í gær við konuna um frásögn hennar sem hún staðfesti að væri hennar.

Í yfirlýsingu á heimasíðunni segjast konurnar, sem þar segja sögur sínar, vera stoltar af því að stíga þetta skref sem þær vissu að yrði hvorki auðvelt né sársaukalaust en það sé styrkur að gera það sem hópur.

„Við viljum gera þær opinberar í anda þeirrar bylgju sem farið hefur yfir heiminn og sameinar konur þegar þær segja: Ég líka – Me too! Við viljum að það samfélag sem hefur litið undan þrátt fyrir að kynferðisbrot hans hafi verið gerð opinber geti nú lesið þær reynslusögur sem eru okkar sannleikur. Þannig viljum við frelsa okkur frá þeirri þjáningu sem samskipti við hann hafa valdið okkur í áratugi. Við erum frelsinu fegnar.“

Ingibjörg fundaði með Jóni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, greindi frá því í áðurnefndum Facebookhóp í gær að hún hafi árið 2007 heyrt af bréfaskriftum Jóns Baldvins við systurdóttur eiginkonu hans. Hún kveðst hafa boðað Jón Baldvin á sinn fund þegar hún hafði spurnir af því að honum hafi verið boðið sæti á lista Samfylkingarinnar síðar sama ár. Hafi Ingibjörg greint Jóni Baldvin frá vitneskju sinni og óskað eftir því að hann drægi sig af framboðslistanum. Samkvæmt frásögninni brást Jón Baldvin ókvæða við en lét taka sig af lista Samfylkingarinnar.