Hellisheiðarvirkjun Varmastöðin verður stækkuð og gerðar ákveðnar breytingar á vinnsluferlum þar næsta haust.
Hellisheiðarvirkjun Varmastöðin verður stækkuð og gerðar ákveðnar breytingar á vinnsluferlum þar næsta haust. — Morgunblaðið/Hari
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Stefnt er að því að auka varmaframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar úr rúmlega 130 megavöttum (MW) af varmaorku í 200 MW næsta haust. Varmastöðin verður stækkuð og gerðar ákveðnar breytingar á vinnsluferlum þar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Stefnt er að því að auka varmaframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar úr rúmlega 130 megavöttum (MW) af varmaorku í 200 MW næsta haust. Varmastöðin verður stækkuð og gerðar ákveðnar breytingar á vinnsluferlum þar. Ekki er útlit fyrir, að svo stöddu, að grípa þurfi til takmarkana á notkun heits vatns á höfuðborgarsvæðinu næstu daga, að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna.

Til eru holur á Hellisheiði sem eru vökvamiklar og henta því síður til raforkuframleiðslu þar sem sóst er eftir gufuafli. Hægt er að tengja þessar holur inn á varmaskiptana sem framleiða hitaveituvatnið. Vatnið sem sent er upphitað til neytenda frá Hellisheiðarvirkjun er sótt í Engidal vestan undir Henglinum. Varmaframleiðsla Hellisheiðarvirkjunar hófst árið 2010. Samkvæmt upphaflegum ráðagerðum var gert ráð fyrir því að varmaframleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar gæti orðið allt að 400 MW.

Ekki stækkað á Nesjavöllum

Nesjavallavirkjun var tekin í notkun 1990. Þar er raforkuframleiðsla auk þess sem ferskt vatn úr Þingvallavatni er hitað upp og sent til höfuðborgarsvæðisins. Framleiðslugeta Nesjavallavirkjunar á heitu vatni jafngildir 300 MW í varmaorku. Ekki eru áform um stækkun hennar. Framleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar er samanlagt ríflega helmingur af framleiðslugetu hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá Veitum.

Heita vatnið frá Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun er upphitað grunnvatn og inniheldur ekki jafn mikið af efnum og hitaveituvatnið sem kemur frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og í Reykjavík. Mest er af kísli í heita vatninu sem kemur úr borholum Veitna á Laugarnesi sem er heitasta lághitasvæðið.