Öflugur Elvar Már Friðriksson skoraði 25 stig fyrir Njarðvík í gærkvöld og hér sækja KR-ingarnir Emil Barja og Michele Di Nunno að honum.
Öflugur Elvar Már Friðriksson skoraði 25 stig fyrir Njarðvík í gærkvöld og hér sækja KR-ingarnir Emil Barja og Michele Di Nunno að honum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Kristján Jónsson kris@mbl.is Njarðvíkingar sitja í toppsæti Dominos-deildar karla í körfuknattleik eftir sigur á KR, 71:55, í Frostaskjólinu þegar 17. umferðinni lauk í gærkvöldi.

Í Vesturbænum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Njarðvíkingar sitja í toppsæti Dominos-deildar karla í körfuknattleik eftir sigur á KR, 71:55, í Frostaskjólinu þegar 17. umferðinni lauk í gærkvöldi. Hefur Njarðvík þá unnið báða leikina gegn Íslandsmeisturum KR í deildinni í vetur. Framundan er þriðja viðureign liðanna þegar þau mætast í undanúrslitum bikarkeppninnar í næstu viku.

Njarðvíkingar áttu skilið að vinna leikinn í gær. Þeir voru beittari og ákafari í sínum leik. KR-ingar voru ískaldir að þessu sinni og það setti svip sinn á leikinn. Hittu þeir aðeins úr fjórum af tuttugu og átta þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Ekki skal gert lítið úr fínni vörn hjá Njarðvík en ekki skyldi heldur lesa of mikið í þennan leik í ljósi þess hversu illa KR-ingar fóru með skotfærin.

KR-ingar spiluðu einnig ágæta vörn og stöðvuðu hávaxnari menn Njarðvíkinga nánast að öllu leyti en áttu erfiðara með að halda aftur af bakvörðum og skyttum Njarðvíkinga eins og mörg önnur lið hafa lent í.

Mér fannst mjög athyglisvert að fylgjast með Jeb Ivey í gær. Það var nánast eins og hann væri að spila körfuboltaleik í Play Station. Mér fannst hann geta skorað þegar honum sýndist og hann gerði nánast engin mistök í sókn né vörn. Hann setti niður fjóra þrista í sex tilraunum og hitti úr tveimur af þremur skotum innan teigs. Mér þætti ótrúlegt ef viðskiptadeild Moggans heiðrar ekki stjórn Njarðvíkur fyrir kaup ársins. Stórsniðugt að sækja 38 ára gamlan Kana sem þekkir Ísland út og inn frekar en að veðja á ungan mann sem kemur beint úr háskóla. Tala nú ekki um þegar hann hugsar jafn vel um sig og Ivey gerir.

Julian Boyd sýndi í gær að hann er alvöru leikmaður. Þegar félagar hans voru allir kaldir þá nýtti hann færi sín vel og tókst að skila 29 stigum eða meira en helmingi stiga liðsins. Þótt KR hafi átt slakan leik þá sér maður að kempum eins og Jóni Arnóri og Helga Má er ekki sama. Sigurviljinn er ennþá til staðar hjá þeim þrátt fyrir alla velgengnina. Enginn skyldi halda að þeir muni láta ryðja sér auðveldlega úr vegi þegar komið verður í úrslitakeppnina.

Eins og staðan er akkúrat núna er hins vegar svolítið erfitt að átta sig á hversu sterkir Íslandsmeistararnir verða í úrslitakeppninni. Til dæmis er óljóst hversu miklu framlagi Pavel mun skila eftir að hafa tekið sér hálfs árs frí eða svo. Liðið hefur reynsluna, þekkingu, breidd í leikmannahópnum og sigursælan þjálfara en þarf að nýta næsta mánuð vel til að slípa.

Skallagrímur kom Haukum niður á jörðina

Haukar, sem höfðu unnið toppliðin Njarðvík og Tindastól í tveimur síðustu heimaleikjum, komu heldur betur niður á jörðina í gærkvöld þegar þeir töpuðu 80:79 fyrir Skallagrími í Borgarnesi. Annar sigur Borgnesinga í röð eftir að hafa tapað tíu leikjum þar á undan og hann gefur þeim meiri vonir um að halda sér í deildinni.

Skallagrímur var yfir lengst af en í fjórða leikhluta virtust Haukar vera búnir að snúa leiknum sér í hag þegar þeir komust í 72:66. Borgnesingar sneru leiknum aftur sér í hag á spennandi lokamínútum.

Domagoj Samac skoraði 21 stig fyrir Skallagrím og Aundre Jackson 14 og þeir tóku 10 fráköst hvor. Hinn ungi Hilmar Smári Henningsson stóð uppúr hjá Haukum og skoraði 21 stig.

*Keflavík vann auðveldan sigur á Breiðabliki í Smáranum, 108:86. Andri Þór Tryggvason skoraði 22 stig fyrir Keflavík, Hörður Axel Vilhjálmsson og Mindaugas Kacinas 17 hvor. Kofi Josephs skoraði 21 stig fyrir Blika og Snorri Vignisson 14.

KR – Njarðvík 55:71

DHL-höllin, Dominos-deild karla, mánudag 4. febrúar 2019.

Gangur leiksins : 0:3, 6:9, 6:11, 8:15 , 16:19, 22:25, 25:25, 30:31 , 33:37, 37:43, 40:49, 44:55 , 46:57, 50:62, 50:66, 55:71.

KR : Julian Boyd 29/11 fráköst, Kristófer Acox 7/11 fráköst, Michele Christopher Di Nunno 5, Helgi Már Magnússon 5, Jón Arnór Stefánsson 4/4 fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson 3, Emil Barja 2.

Fráköst: 23 í vörn, 9 í sókn.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 25, Jeb Ivey 17/9 fráköst/5 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 10, Mario Matasovic 7/7 fráköst, Garðar Gíslason 6/7 fráköst, Kristinn Pálsson 4, Logi Gunnarsson 2.

Fráköst: 30 í vörn, 2 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Leifur S. Garðarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur : 600.