Gunnlaugur Búi Sveinsson fæddist á Akureyri 24. febrúar 1932. Hann lést á heimili sínu Lögmannshlíð 23. janúar 2019.

Hann var sonur hjónanna Sveins Tómassonar, járnsmiðs og slökkviliðsstjóra á Akureyri, f. 30. júlí 1904, d. 7. nóvember 1998 og Helgu Gunnlaugsdóttur, húsmóður á Akureyri, f. 24. maí 1906, d. 8. september 2006. Sveinn var frá Bústöðum í Skagafirði og Helga frá Klaufabrekknakoti í Svarfaðardal.

Systkini Gunnlaugs Búa voru Þórey Sveinsdóttir, f. 1929, og Tómas Heiðar Sveinsson, f. 1941. Þau eru bæði látin.

Eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs Búa er Signa H. Hallsdóttir, f. 4. ágúst 1933. Þau gengu í hjónaband 14. nóvember 1953. Signa er fædd í Reykjavík en hefur búið á Akureyri stærstan hluta ævinnar og býr nú á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð.

Þau hjónin eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Ólafur Búi, f. 5.9. 1953, maki Agnes Jónsdóttir. Börn þeirra eru a) Gunnlaugur Búi, maki Eydís Unnur Jóhannsdóttir, börn þeirra eru Arna Sigríður, Karen Lilja og Elvar Búi b) og Ólafur Búi, maki Ingibjörg Zophoníasdóttir, sonur þeirra er Zophonías Búi. 2) Halla Sigurlín, f. 31.10. 1954, maki Haukur Harðarson. Börn þeirra eru a) Arndís Ösp, maki Hermann Árni Valdimarsson, börn þeirra eru Alexander Búi og Fannar Nói Þorvaldssynir, Laufey Lilja og Þórunn Halla og b) Víðir Orri, maki Katrín Björg Lilaa Sólrúnardóttir, synir þeirra eru Gunnlaugur Vilberg og Tómas Orri. og 3) Helga Hólmfríður f. 22.1. 1963, maki Stefán Birgisson. Börn þeirra eru a) Birgir, maki Guðný Þórfríður Magnúsdóttir sonur þeirra er Úlfur Hrói. b) Signa Hrönn, maki Reynir Svan Sveinbjörnsson, dætur þeirra eru Rakel Sara, Bríet Helga og Íris Eva, og c) Lína Björk, maki Helgi Haraldsson, börn þeirra eru Emma Karen Anna, Birgir Hrannar og Stefán Darri.

Gunnlaugur Búi bjó alla tíð á Akureyri. Hann var alinn upp á Eyrinni þar sem hann og Signa bjuggu einnig fyrstu hjúskaparár sín. Þau byggðu svo hús að Byggðavegi 142a og þangað flutti fjölskyldan 1958. Þar var heimili þeirra hjóna fram yfir aldamót.

Árið 1953 útskrifaðist hann sem vélvirki og vann ýmis störf tengd þeirri iðn, t.d. á Vélsmiðjunni Atla. Ungur að árum hóf hann störf hjá Slökkviliði Akureyrar, sem varð síðar aðalævistarf hans.

Sem ungur maður stundaði hann íþróttir, sérstaklega handbolta. Hann var virkur í skátastarfi og gekk í Oddfellowregluna 1962 og starfaði þar meira og minna til æviloka. Gunnlaugur Búi vann mikið með Starfsmannafélagi Akureyrar og var formaður þess um skeið. Hann hafði einnig mikinn áhuga á stangveiði og fór margar veiðiferðir með Signu og vinum.

Útför Gunnlaugs Búa fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 5. febrúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

„Jæja vinan mín, nú þurfum við að þreyja þorrann.“

Í dag finnst mér þessi orð töluð til mín. Vá hvað ég sakna pabba mikið. Ég vissi að hann yrði ekki eilífur og ég vissi líka að hann var orðinn veikur en hann hefur alltaf verið til staðar í mínu lífi og ég þekki ekkert annað. Því ýtti ég öðrum hugsunum til hliðar.

Allt mitt líf hef ég talað við pabba og leitað til pabba. Ef spurningar vöknuðu, eitthvað þurfti að gera, eitthvað bilaði, einhver þurfti aðstoð, meiddi sig, veiktist, þurfti að komast eitthvert eða bara hvað sem var. Alltaf kom fyrst upp í hugann „ég hringi bara í pabba“ og alltaf kom hann, gaf ráð, skutlaðist fyrir mig, náði í og passaði börnin mín, hjálpaði mér við flutninga, málaði, smíðaði, lagði hitaveitu í húsið mitt eða bara kom og kyssti á bágtið. Hann og mamma voru allra bestu foreldrar sem hægt er að hugsa sér.

Alltaf voru þau til staðar og hjálpuðu við allt. Fóru síðust heim eftir veislur því þau voru að hjálpa til við að ganga frá. Voru fyrst mætt ef eitthvað þurfti að gera. Ég get fullyrt að börnin mín áttu góða æsku einmitt vegna þeirra. Það var svo gott að geta alltaf skroppið til afa og ömmu þegar eitthvað vantaði heima.

Þegar ég var lítil tók ég aldrei þátt í „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“ metingi því ég „vissi“ að minn hafði alltaf vinninginn í öllum samanburði. Ég var óendanlega stolt af honum og fannst hann sá allra flottasti. Ég naut þess líka að vera yngst í systkinahópnum og var örugglega dekruð í drasl.

Pabbi var í vaktavinnu á slökkvistöðinni og ég naut því oft samvista með honum á daginn þegar aðrir voru í vinnu. Ég elskaði að fara með pabba í reddingar. Dytta að hinu og þessu heima, á slökkvistöðinni eða í Oddfellowhúsinu. Mér fannst líka fínt þegar pabbi var á næturvöktum, þá fékk ég að kúra upp í hjá mömmu og við áttum notaleg kvöld saman þar sem ég sat ein að athyglinni.

Ég var stolt af því að pabbi væri slökkviliðsmaður. Fannst hann flottastur allra þegar hann var í uniforminum á vakt í Gúttó. Þá stóð ég rígmontin við hlið hans fyrir og eftir leiksýningar. Sumt var samt erfitt hjá barni slökkviliðsmanns. Ég vandist því t.d. aldrei að vera róleg þegar útkallssíminn hringdi og mér leið ekki vel þegar pabbi var í útkalli og lyktin af honum eftir bruna var líka óbærileg. Hún sat í húðinni hans í marga daga.

Pabba fannst ekkert gaman að verða gamall. Allt í einu upplifði hann að hlutir gerðust í fjölskyldunni án þess að hann væri spurður álits. Honum fannst það pínu erfitt. Einnig var erfið sú ákvörðun hans að hætta að keyra, en það gerði hann samt. Hann vildi frekar láta minnast sín fyrir afrek sín í lífinu heldur en eitthvert óhapp sem hefði getað verið hægt að koma í veg fyrir. Pabbi átti erfitt með að sitja verkefnalaus og dundaði því öllum stundum við eitthvert handverk, sama hvers kyns var.

Elsku pabbi minn. Takk fyrir að hafa stutt mig allt mitt líf í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur og hjartans þakkir fyrir að hafa staðið við hlið mömmu í hennar veikindum. Þú varst kletturinn í mínu lífi.

Helga Hólmfríður

Gunnlaugsdóttir.

Aldrei hvarflaði það að mér þar sem ég sat í Ford Capri-bílnum hjá nýja kærastanum fyrir utan Byggðaveg 142a að í því húsi byggju tilvonandi tengdaforeldrar mínir. Þar sem ég sat taugaóstyrk og sveitt í lófunum og beið, var hurðinni kippt upp og þar stóð Gulli Búi og spurði hvort það mætti ekki bjóða mér inn. Ég reyndi að malda í móinn en það var ekki annað tekið í mál. Inn skyldi ég koma.

Upp frá þessum degi í janúar 1977 hef ég borið þann titil sem engin önnur getur státað af. Tengdadóttir Gulla Búa.

Gulli Búi var karl af gamla skólanum sem kippti sér ekki upp við það þó að álit hans og skoðanir á mönnum og málefnum hans féllu ekki alltaf í kramið hjá samferðafólki hans. Öfugt við fólk í dag sem skellir athugasemdum á „kommentakerfi“ dagblaða og netmiðla án þess að þurfa að vera ábyrgt orða sinna sagði tengdafaðir minn hlutina umbúðalaust og stóð við orð sín. Því er ekki úr vegi að við stöldrum við og lítum til okkur eldra fólks og tökum það okkur til fyrirmyndar í hreinskilni og heiðarleika gagnvart meðborgurum okkar.

Gulli Búi var svo sannarlega fjölskyldumaður. Svo lengi sem þau gátu, hann og hans yndislega kona Signa, blésu þau til fjölskyldumáltíða. Gamlárskvöldin voru fjölmörg sem við eyddum hjá þeim, svo ekki sé talað um páskamáltíðir þar sem við nutum veislumáltíða hjá þeim eftir góða og fallega daga í Fjallinu. Gulli Búi tók ekki þátt í eldamennskunni, en að smakka á matnum og koma með athugasemdir, þar var hann á heimavelli. Eftir öll herlegheitin skellti hann á sig svuntu og sá um uppvask og fágang.

Börn hans, tengdabörn og barnabörn hans voru nánast gallalaus í hans huga, þannig að betra var að vera honum sammála þegar að því kom að ræða um þau.

Árið 1979 ákváðum við hjónin að byggja okkur raðhúsaíbúð í Arnarsíðu. Það má segja að Gulli tengdapabbi hafi notað hverja frístund sem hann átti frá vinnu til að aðstoða okkur. Ekki var sá gamli ánægður þegar við notuðum tækifærið þegar hann og Signa voru utanbæjar til að flytja í nýju höllina okkar. Því auðvitað vildi hann taka þátt í flutningunum.

Svona liðu árin í leik og starfi og alltaf var Gulli Búi okkur innan handar ef hann átti lausa stund. Pípulögn, smíðar, málningarvinna, múrbrot, alltaf var hann mættur til að aðstoða okkur.

Síðustu árin bjuggu hann og Signa tengdamóðir mín á Lögmannshlíð, þar sem þau hafa notið einstakrar umönnunar barna sinna, tengdabarna, barnabarna og starfsfólks.

Að leiðarlokum vil ég þakka tengdaföður mínum þá einstöku elsku og virðingu sem hann hefur sýnt frá fyrsta degi.

Hvíldu í friði, gamli minn.

Agnes Jónsdóttir.

Miðvikudaginn 23. janúar kvaddi elsku Gulli afi.

Hann varð eitthvað slappur í hádeginu og ákvað að leggja sig, sofnaði og sefur enn.

Betri afa hefði ekki verið hægt að hugsa sér. Hann var hrjúfur, sterkur, stoltur, mjúkur, blíður, viðkvæmur allt í senn. Akkúrat passleg blanda. Alltaf þegar eitthvað kom upp á var fyrsta hugsunin að heyra í afa. Hvort sem einhver meiddi sig eða það þurfti að láta laga eitthvað, redda einhverju, engum var betur treyst en afa.

Afi kunni allt, a.m.k. í litlum barnshuga og líka eftir að ég fullorðnaðist þá var alltaf vissara að spyrja afa hvað honum fyndist, biðja hann um ráð og hjálparhönd. Og alltaf kom hann ef aðstoðar var óskað, hress og klár í slaginn. Við flutninga, viðgerðir, tognanir, skurði, marbletti, hvað sem var.

Ég gleymi heldur aldrei knúsinu sem ég fékk þegar hann frétti að fyrsta langafabarnið væri væntanlegt. Þéttingsfast og svo fullt af gleði og hamingju. Kreisti mig svo hressilega að ég kláraði allt loftið úr lungunum.

Svo þegar sonur minn fæddist löngu fyrir tímann þá voru afi og amma ómetanlegur stuðningur á erfiðum tíma, grétu með okkur, knúsuðu okkur og hughreystu þegar við vissum ekkert um það að kraftaverkabarnið myndi hafa það af og verða stolt langafa og okkar allra. Afi var svo ofur stoltur af langafabörnunum sínum öllum. Honum raunverulega fannst hann ríkasti maður í heimi. Hann var mikil barnagæla og fannst sonum mínum alltaf gaman að fara í pössun til langafa og langömmu þegar þeir voru litlir, því eins og þeir sögðu sjálfir var afi „svo mikill rugludallur“ og var hann alsáttur við þann titil. Hann nennti alltaf að sprella og fíflast með krökkunum.

Afi var þekktur á Akureyri og virtur, það hafði maður alltaf haft á tilfinningunni sem barn og það varð mér enn ljósara þegar ég vann á SAk og hitti þar margt eldra fólk sem flestallt ef ekki allt vissi hver hann var og allir höfðu falleg orð um hann að segja, fallegar sögur. Öll lífin sem hann bjargaði, allir sem hann rétti hjálparhönd, stuðning og styrk á erfiðum stundum. Þannig verður hans minnst, sem hjálpsama, virðingarverða, sterka og góðhjartaða mannsins sem hann var. Afi skilur eftir sig fullt af fallegum minningum sem við eigum eftir að hlýja okkur við um ókomna tíð.

Höndin er blá og bólgin,

bognir fingur og hnýttir,

kartnögl sprungin í kviku,

knúar marðir, í sárum.

Sótið situr í sprungum,

sigg eru hörð í lófa,

velkt er hún og í vosi,

veröld tók fast á henni.

Þó hefur engin önnur

innilegar né hlýrra

verið lögð yfir ljósa

lokka mína en þessi.

(Kristján frá Djúpalæk)

Elsku afi, hvíldu í friði, við pössum upp á ömmu þar til hún fær að koma til þín.

Ég elska þig og sakna þín, nú og alltaf.

Takk fyrir allt og allt.

Þín afastelpa,

Arndís Ösp.

Takk, afi, fyrir margar góðar stundir og minningar. Takk, afi, fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig, sama hvað. Alltaf varstu tilbúinn með opna arma. Hvort sem mig vantaði bara stórt knús, góð ráð eða skutl um allan bæ.

Ég á virkilega erfitt með að skrifa minningargrein um þig. Þó ég viti nákvæmlega hvernig hringrás lífsins virkar þá hugsaði ég aldrei um lífið án þín. Í mínum huga varstu eilífur og á vissan hátt ert þú það. Þú skilur eftir þig svo stórt spor í mínu lífi og þannig verður þú alltaf til.

Ég var svo heppin að fá að búa í næsta húsi við ykkur ömmu. Ég hljóp yfir til ykkar svo gott sem daglega. Alltaf þótti mér jafn gott að hoppa yfir í Klettastíginn. Fá eitthvað gott að borða og spjalla um daginn og veginn.

Meira að segja þegar ég var orðin unglingur var ég alltaf til í að hoppa yfir til ömmu og afa og þær voru ófáar helgarnar sem ég gisti á gólfinu inni í hjónaherbergi. Lá á brúnu dýnunni með hvítu doppunum, við hliðina á hljómborðinu og undir Jesúmyndinni.

Sofnaði út frá hrotunum í þér og raulinu í ömmu.

Þú varst alltaf til í að taka mig með. Sama hvað það var. Man eftir óteljandi skiptum þar sem ég kom með að sækja ömmu í vinnuna. Þú varst alltaf mættur fyrir utan sjúkrahúsið löngu áður en amma var búin með vaktina svo hún þyrfti ekki að bíða. Þá sátum við í bláa Súbarúinum og hlustuðum á dánartilkynningar í útvarpinu og með Halla hippa hangandi á baksýnisspeglinum.

Ég vissi alltaf að ég gæti spurt þig og ömmu ef það var eitthvað sem mamma og pabbi ekki samþykktu. Þegar ég nennti ekki að labba heim úr skólanum en mamma gat ekki náð í mig, þá hringdi ég bara í þig og þú varst mættur á mettíma hjá kartöflugeymslunni fyrir neðan gamla Barnaskólann.

Ef það var eitthvað sem ég óskaði mér, fínasta dúkkan í búðinni eða dýrasta dúkkuhúsið, þá vissi ég að ég fengi það í afmælis- eða jólagjöf frá ykkur. Ég fékk alltaf að heyra það að ég fengi svona mikið af því ég væri yngsta barnabarnið og Guð hvað ég var grobbin með það, þó ég viti það í dag að við fengum auðvitað öll sömu athyglina og ástina frá ykkur.

Takk, afi, fyrir dásamlegt líf. Þú varst og ert besti afi sem lítil stelpa gæti óskað sér. Ég á eftir að sakna þín en á sama tíma minnast þín með bros á vör það sem ég á eftir ólifað. Börnin mín munu alast upp við sögur af þér. Sögur af manninum sem bjargaði mannslífum, manninum sem var vinur vina sinna, elskaði konuna sína heitar en allt, var góður faðir og enn betri afi og langafi. Ég hlakka til að hitta þig aftur þegar minn tími kemur. Þá opnum við okkur harðfiskpoka, íslenskt smjör og spjöllum um allt mögulegt.

Elska þig svo innilega heitt, elsku afi Gulli. Sofðu rótt.

Lína Björk Stefánsdóttir.

Afi, þetta er svo skrítið, á afmælinu hennar mömmu komum við til þín, borðuðum kökur, bökuðum kleinur, þú lékst við og djókaðir í stelpunum mínum, allt eins og það á að vera, daginn eftir lagðirðu þig eftir hádegismat og sofnaðir þínum hinsta svefni. Draumur hvers manns að ljúka sínu jarðneska lífi á þann hátt. Ég á milljón minningar um okkur, mig, þig og ömmu. Við systkinin vorum svo heppin að alast upp í næsta húsi við ykkur ömmu, ef við fengum ekki eitthvað heima þá fengum við það hjá ykkur. Alltaf gat maður treyst á að fá allt hjá ykkur, þegar ég bar Moggann út sem lítil stelpa þá passaði ég mig að hafa smá hátt í Klettastíg 12 og labba hægt frá húsinu því þá kom amma hlaupandi og kallaði mig inn í hafragraut, þú svo skutlaðir mér út í „rassgat“ með síðasta blaðið.

Ég gisti held ég jafn oft hjá ykkur eins og ég gisti heima, í beddanum undir Jesúmyndinni með Snoopy-teppið, en fékk alltaf að vera uppí þegar þú stóðst næturvaktina, mesta sportið var að þykjast sofandi þegar þú komst heim og ég hrekkti þig þegar þú skreiðst uppí, alltaf hélt ég að ég hefði náð að hrekkja þig. Þegar ég sat með stóru töngina að klippa alla sykurmolana úr krúsinni í tvennt, því þú taldir mér trú um að þá borðaðir þú minni sykur með kaffinu, þegar við náðum í ömmu löngu fyrir kl. 12 í vinnuna, sátum úti í bíl með dánarfregnir í botni, við löbbuðum líka oft saman upp á sjúkrahús til að ná í bílinn, þú hélst í litlu höndina mína öðruvísi en nokkur annar, litli fingurinn utan um úlnliðinn, svona leiði ég mínar litlu stelpur. Ég elskaði að fá að þvo bílinn með þér, og eitt skiptið þegar þú keyptir nýjan bíl var ég með í för og ég hélt að ég hefði fengið að velja hann, þú lést manni alltaf líða eins og maður væri sá allra mikilvægasti í heiminum. Öll ferðalögin okkar saman, ferðirnar niður á slökkvistöð, við að vaska upp saman, vinna í garðinum, fægja silfrið, nudda grænsápu í kragann á ljósbláu slökkviliðsskyrtunum þínum, bóna húsgögnin og skreyta fyrir jólin. Vá, það er svo margt, elsku hjartans afi, leynifélagið okkar BB. Þú varst alltaf boðinn og búinn að gera allt fyrir alla, ef ég t.d. nennti ekki að labba heim úr skólanum eða til vinkvenna þá var hálft orð nóg, þú varst mættur og skutlaðir mér.

Áramótin eru mér svo sterk í minni, allir saman í Klettastíg 12, þvílík veisla, barnabörnin máttu gera allt í kjallaranum, svo var árið kvatt uppi á klöppum. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa ykkur ömmu tvenn jól í röð hjá okkur Reyni og dætrum, að hafa langafa og langömmu hjá sér á jólunum eru forréttindi og þær munu muna það allt sitt líf. Elsku afi, takk fyrir allt, minning þín mun lifa alla tíð, ég held áfram að segja stelpunum mínum frá stóra manninum sem var heimsfrægur á Akureyri, manninum sem bjargaði ófáum mannslífum og var með hjarta úr gulli, manninum sem gat grínast með allt, manninum sem elskaði konu sína heitar en allt annað í heiminum, manninum sem við köllum afa Gulla.

Elsku afi, hvíldu í friði og ég held áfram að passa ömmu þar til hún kemur til þín.

Signa Hrönn Stefánsdóttir.

Gunnlaugur Búi Sveinsson, föðurbróðir og uppáhaldsfrændi minn, er látinn, síðastur af systkinahópnum. Á þessari kveðjustund streyma fram minningar um þennan mikla og góða mann, og myndir þeirra bræðra, pabba og Gulla, eru mér afar ljósar.

Við frændi minn kynntumst ekki fyrir alvöru fyrr en ég var orðin fullorðin.

Fjarlægð hafði aðskilið mig og föðurætt mína lengi en 26 ára gömul flutti ég aftur heim til Íslands og þá tóku strax við tíðar heimsóknir norður, til Gulla og Signu og allra sem þau eiga. Það var sérstaklega gaman að upplifa samband þeirra bræðra, vinátta og væntumþykja þeirra á milli var augljós. Þeir virtust stundum geta lesið hugsanir hvor annars, og þeim þótti alltaf jafn skemmtilegt að stríða mér og plata mig til að trúa hinum ótrúlegustu hlutum. Stundum átti Signa það til að hvísla því að mér að þeir væru bara að plata mig, þegar sögurnar voru orðnar sérstaklega litríkar. Minningar mínar af þessum heimsóknum okkar pabba til fjölskyldunnar á Akureyri eru fullar af hlátri, hlýju og unaðslegum samverustundum. Að hlusta á þá bræður rifja upp gamlar stundir eða að syngja saman var eitt það besta sem ég hef upplifað. Þetta eru mér afskaplega dýrmætar minningar.

Pabbi var sérstaklega stoltur af bróður sínum, hann hafði gaman af að segja frægðarsögur af hetju sinni. Að fá að kynnast Gulla og Signu, vera gestur hjá þeim og njóta gestrisni þeirra hefur verið mér ómetanlegt veganesti.

Frændi minn kenndi mér svo margt, við töluðum oft um mannleg samskipti og tilfinningar, og á bak við þessa dimmu karlmannlegu rödd bjó sérstaklega ljúfur og hlýr, sanngjarn og góður maður. Fyrir stuttu dundi yfir mig mikið áfall. Gulli hughreysti mig og huggaði þegar sem mest reyndi á, og orð hans reyndust mér betur en nokkuð annað sem mér bauðst. Þegar mér fannst ég týnd í niðamyrkri benti hann mér á sannleika sem ég hafði ekki komið auga á og það lýsti upp veginn sem ég átti fram undan. Ég á honum mikið að þakka.

Mér þykir leitt að geta ekki fylgt honum síðasta spölinn. Ég er þakklát fyrir að hafa átt hann að frænda og vini. Signu, Ólafi Búa, Höllu, Helgu, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum votta ég mína dýpstu samúð, fyrir hönd fjölskyldu minnar.

María Tómasdóttir.

Fyrir um það bil sextíu árum fluttust þrjár ungar fjölskyldur í hús sem stóðu hlið við hlið á ytri Brekkunni á Akureyri. Þá varð til vinátta sem hefur haldist allt til þessa dags. Nú eru húsbændurnir allir farnir til Guðs. Gulli Búi, vinur okkar, fór síðastur þeirra. Hans er sárt saknað.

Þessar fjölskyldur urðu eins og ein fjölskylda og tóku þátt í gleði og sorgum hver annarrar. Gulli Búi og Signa voru einstaklega hjálpsöm og vildu allt fyrir alla gera. Þessi vinahjón og nágrannar við Byggðaveginn voru samtaka í mörgu. Þau eignuðust til dæmis þrjú börn, byrjuðu öll á einum dreng og bættu síðan við tveimur stúlkum hver.

Gulli Búi og Signa voru alltaf jafn ástfangin og hugsuðu vel hvort um annað. Eftir að Signa varð veik var alveg einstakt hvað Gulli Búi annaðist hana af mikilli kostgæfni.

Gulli Búi var mjög laghentur og hjálpsamur. Ef eitthvað bjátaði á var oft kallað á Gulla og það leysti vandann.

Margar eru minningarnar um ferðalög innan lands og utan, berjamó og veiðiferðir. Betri ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér.

Fátt er dýrmætara en góð vinátta. Nú kveðjum við síðasta húsbóndann úr okkar hópi og þökkum honum og hans fjölskyldu fyrir samfylgdina.

Margrét Magnúsdóttir

og Kristjana Ingibjörg

Svavarsdóttir og fjölskyldur þeirra.

Í sorginni ómar eitt sumarblítt lag,

þó er sólsetur, lífsdags þíns kveld.

Því er kveðjunnar stund, og við krjúpum í dag

í klökkva við minningareld.

Orð eru fátæk en innar þeim skín

það allt sem við fáum ei gleymt.

Allt sem við þáðum, öll samfylgd þín

á sér líf, er í hug okkar geymt.

Í góðvinahóp, þitt var gleðinnar mál

eins þó gustaði um hjarta þitt kalt.

Því hljómar nú voldugt og sorgblítt í sál

eitt sólskinsljóð – þökk fyrir allt.

(BB)

Félagi Gulli Búi eins og hann var alltaf kallaður gerðist félagsmaður í STAK árið 1964 og frá upphafi gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið sem nú heitir Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu. Hann var formaður á árunum 1982-1985 en áður hafði hann starfað í orlofsnefnd, skemmtinefnd og ferðanefnd. Hann átti sæti í afmælisnefnd þegar félagið varð 30 ára og var veislustjóri í 50 ára afmælisfagnaði þess. Þá eru ótaldar ýmsar nefndir og ráð sem hann sat í, bæði fyrir félagið og sem fulltrúi þess hjá BSRB og hjá Akureyrarbæ. Hann var einnig fulltrúi í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar, LSA, frá 1982 til 1994.

Gulli Búi bar mikla umhyggju fyrir félaginu og vildi hag þess sem mestan. Hann barðist í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984 og þreyttist ekki á að rifja upp í góðum hópi félaga sögur af aðgerðum og samskiptum frá þeim tíma. Einnig bar hann hag sinna manna í slökkviliðinu fyrir brjósti og stuðlaði að starfsmenntun þeirra. Öryggismál á vinnustöðum sem og í samfélaginu almennt voru hans baráttumál. Eitt sinn var hann staddur í orlofshúsi félagsins þar sem hann sá hættu stafa af lágu þakskyggni og var ekkert að tvínóna við það, sótti sög og sagaði hornið burt! Félagið býr enn að þeirri góðu ráðdeild sem Gulli Búi sýndi í verkum sínum.

Fyrir hönd Kjalar stéttarfélags vil ég þakka það mikla og góða starf sem Gunnlaugur Búi innti af hendi í þágu félagsins og félagsmanna.

Minning hans mun lifa í okkar hópi.

Signu eiginkonu hans, börnum þeirra og fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arna Jakobína Björnsdóttir.