Heilsulind Litlar breytingar verða á eignarhaldi Bláa lónsins.
Heilsulind Litlar breytingar verða á eignarhaldi Bláa lónsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Landsbankinn var í hópi þeirra hluthafa í fjárfestingarsjóðnum Horn II, sem gekk inn í kaup Kólfs ehf. á hlut sjóðsins í Hvatningu. Síðastnefnda félagið á tæplega 40% hlut í Bláa lóninu. Skv.

Landsbankinn var í hópi þeirra hluthafa í fjárfestingarsjóðnum Horn II, sem gekk inn í kaup Kólfs ehf. á hlut sjóðsins í Hvatningu. Síðastnefnda félagið á tæplega 40% hlut í Bláa lóninu. Skv. nýjasta ársreikningi Horns II er eignarhlutur Landsbankans í sjóðnum 7,66%. Því má gera ráð fyrir því að óbeinn hlutur bankans í Bláa lóninu sé 740 milljóna króna virði. Heimildir Morgunblaðsins herma að langflestir hluthafar Horns II hafi ákveðið að ganga inn í kaup Kólfs ehf. á hlut Horns II í Hvatningu.

Hins vegar upplýsti Morgunblaðið um það í liðinni viku að lífeyrissjóðurinn Gildi hefði ákveðið að hverfa úr hlutahafahópnum. Sjóðurinn var ásamt Lífeyrissjóði verslunarmanna langstærsti hluthafinn í Horni II með ríflega 18% hlut. Þeir hluthafar í Horni II sem ákváðu að halda í eignarhlut sinn, munu gera það í gegnum nýtt félag sem myndað verður um hlut þeirra og Kólfs ehf. í Hvatningu. Þá var þeim hluthöfum sem ekki vildu selja sig niður, boðið að skrá sig fyrir auknum hlut í Hvatningu.

Síðdegis í gær höfðu svör ekki borist við því hver hlutdeild hvers og eins yrði, en viðmælendur Morgunblaðsins gerðu ráð fyrir að hlut Gildis yrði skipt í hlutfalli milli þeirra hluthafa sem lýst höfðu áhuga á að stækka við sig. Meðal annarra fyrirtækja sem haldið hafa á óbeinum hlut í Bláa lóninu gegnum Horn II er tryggingafélagið VÍS. Skv. upplýsingum þaðan mun félagið áfram vera í hópi hluthafa fyrirtækisins.

ses@mbl.is