Hvatt til friðar Frans páfi heilsar Ahmed al-Tayeb, æðsta ímam al-Azhar, helsta menntaseturs súnní-múslíma í Egyptalandi, á ráðstefnu í Abú Dabí.
Hvatt til friðar Frans páfi heilsar Ahmed al-Tayeb, æðsta ímam al-Azhar, helsta menntaseturs súnní-múslíma í Egyptalandi, á ráðstefnu í Abú Dabí. — AFP
Abú Dabí. AFP. | Frans páfi tók í gær þátt í ráðstefnu forystumanna ólíkra trúarhópa í Abú Dabí, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, í sögulegri heimsókn sem miðar að því að stuðla að bættum samskiptum múslíma og kristinna manna.

Abú Dabí. AFP. | Frans páfi tók í gær þátt í ráðstefnu forystumanna ólíkra trúarhópa í Abú Dabí, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, í sögulegri heimsókn sem miðar að því að stuðla að bættum samskiptum múslíma og kristinna manna. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem páfi heimsækir land á Arabíuskaganum.

Heimsóknin til Sameinuðu arabísku furstadæmanna stendur í tvo daga. Páfi hyggst halda messu á íþróttaleikvangi í höfuðborginni í dag áður en hann heldur til Rómar. Gert er ráð fyrir að um 135.000 manns sæki messuna og að hún verði fjölmennasta opinbera samkoman í sögu Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Fyrr í gær fór páfi í forsetahöllina í Abú Dabí þar sem tekið var á móti honum með hersýningu. Hermenn skutu 21 byssuskoti upp í loftið á meðan herþotur flugu yfir og mynduðu flugslóða í fánalitum Sameinuðu arabísku furstadæmanna, hvítu og gulu. Páfi ræddi síðan við Mohammed bin Zayed, krónprins Sádi-Arabíu, og talið var að hann hefði meðal annars vakið máls á þátttöku Sameinuðu arabísku furstadæmanna í hernaðinum í Jemen undir forystu Sádi-Arabíu. Páfi hvatti til þess í gær að endi yrði bundinn á stríðið í Jemen og Sýrlandi til að hægt yrði að bjarga nauðstöddum íbúum landanna, þeirra á meðal sveltandi börnum. Talið er að hungursneyð vofi yfir allt að tíu milljónum manna í Jemen.

Ráðamenn Sameinuðu arabísku furstadæmanna hafa nefnt árið 2019 „ár umburðarlyndis“ en mannréttindahreyfingar hafa gagnrýnt þá fyrir mannréttindabrot gegn andófsmönnum, auk þátttöku landsins í hernaðinum í Jemen.

Nær fjórir af hverjum fimm íbúum Sameinuðu arabísku furstadæmanna eru íslamskrar trúar en þar býr einnig tæp milljón kaþólskra manna. Farandmenn frá Asíulöndum eru um 65% íbúanna.