Blóðtaka Skarð Elvars Arnar Jónsson hjá Selfossi verður vandfyllt.
Blóðtaka Skarð Elvars Arnar Jónsson hjá Selfossi verður vandfyllt. — Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Ég tel þetta vera mátulega stórt skref fyrir mig enda er Skjern flott félag sem gerir mikið fyrir leikmenn sína auk þess sem danska deildin er öflug,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Selfoss, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að upplýst var að hann gengi til liðs við Danmerkurmeistara Skjern í sumar.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég tel þetta vera mátulega stórt skref fyrir mig enda er Skjern flott félag sem gerir mikið fyrir leikmenn sína auk þess sem danska deildin er öflug,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Selfoss, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að upplýst var að hann gengi til liðs við Danmerkurmeistara Skjern í sumar.

Elvar Örn sem er 21 árs gamall og lék afar vel með íslenska landsliðinu á HM í Þýskalandi í síðasta mánuði skrifaði undir tveggja ára samning við Skjern sem er á Jótlandi.

Elvar Örn verður þar með samherji Björgvins Páls Gústavssonar landsliðsmarkvarðar.

„Það hafði líka eitthvað að segja að hjá Skjern get ég haldið áfram að vinna undir stjórn Patta en samstarf okkar hefur gengið vel síðustu tvö ár á Selfossi. Ég veit að hverju ég geng en vissulega skoðaði ég dæmið líka án þess að hafa Patta með í því en það breytti engu. Skjern er örugglega rétta liðið fyrir mig á þessum tíma á ferlinum,“ sagði Elvar Örn ennfremur en hann fylgir núverandi þjálfara sínum, Patreki Jóhannessyni, til Skern en Patrekur hættir þjálfun Selfoss-liðsins í vor.

„Ég hafði úr nokkrum tilboðum að velja en þegar öllu var á botninn hvolft þá fannst mér Skjern standa upp úr fyrir mig. Danska deildin er á mikilli uppleið um þessar mundir og mikil stemning í kringum handboltann þar í landi. Skjern er flott félag sem gerir mikið fyrir leikmenn sína. Ég er viss um að þetta verður gott skref fyrir mig,“ sagði Elvar Örn Jónsson sem hefur allan sinn feril leikið með Selfossi.

Elvar Örn á að baki 20 landsleiki sem hann hefur skorað í 63 mörk.