Garðabær Auglýst var eftir umsóknum í opnu útboðsferli 2017.
Garðabær Auglýst var eftir umsóknum í opnu útboðsferli 2017. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Kærunefnd útboðsmála hefur stöðvað um stundarsakir útboð Garðabæjar á uppbyggingu og rekstri, fjármögnun og byggingu aðstöðu til líkamsræktar í og við íþróttamiðstöðina í Ásgarði í Garðabæ. Sporthöllin ehf.

Kærunefnd útboðsmála hefur stöðvað um stundarsakir útboð Garðabæjar á uppbyggingu og rekstri, fjármögnun og byggingu aðstöðu til líkamsræktar í og við íþróttamiðstöðina í Ásgarði í Garðabæ. Sporthöllin ehf. kærði útboðið og krafðist þess að kæruefndin felldi úr gildi ákvörðun Garðabæjar um að meta tilboð Sporthallarinnar ógilt og ganga til samninga við Laugar ehf.

Að loknu forvali vegna verkefnisins voru þrír umsækjendur metnir hæfir til þess að taka þátt í hugmyndavinnu vegna þess, þ.á m. Sporthöllin og Laugar, sem var síðan að því loknu gefinn kostur á að taka þátt í næsta þrepi útboðsins og setja fram endanlegt tilboð. Í október tilkynnti Garðabær Sporthöllinni að tilboð hennar teldist ógilt og var ákveðið að leita samninga við Laugar.

Var ekki auglýst á EES

Sporthöllin taldi ákvörðunina að meta tilboð þess ógilt ólögmæta.

Í niðurstöðu kærunefndarinnar kemur fram að bæjarfélagið hafi stefnt að gerð sérleyfissamnings um rekstur og byggingu stöðvarinnar og um hann gildi ákvæði laga um opinber innkaup og reglur um viðmiðunarfjárhæðir Evrópska efnahagssvæðisins. Leggja verði til grundvallar að verðmæti þessa fyrirhugaða sérleyfis sé yfir tilgreindri viðmiðunarfjárhæð og því hafi borið skylda til að tilkynna um veitingu þess með opinberum hætti á EES.

Útboðið hafi ekki verið auglýst á EES og því séu komnar fram verulegar líkur á að reglur um opinber innkaup hafi verið brotin. Hefur útboðið því verið stöðvað um stundarsakir eins og áður segir.