Bókin Sitt sýnist hverjum um þá þróun sem efnahagslíf Kína hefur tekið á undanförnum áratugum. Hagsæld í landinu hefur aukist til muna og kínversk stórfyrirtæki farin að setja svip sinn á markaði um allan heim.

Bókin

Sitt sýnist hverjum um þá þróun sem efnahagslíf Kína hefur tekið á undanförnum áratugum. Hagsæld í landinu hefur aukist til muna og kínversk stórfyrirtæki farin að setja svip sinn á markaði um allan heim. Ráðamenn í Peking eru stórhuga og nota efnahagslegan meðbyr til að styrkja stöðu landsins á alþjóðavettvangi, bæði til að öðlast meiri pólitísk ítök en líka til að greiða leiðina fyrir viðskipti við umheiminn.

Jonathan Holslag, prófessor við Frjálsa háskólann í Brussel, hefur verulegar efasemdir um uppgang Kína og telur að Evrópu stafi hætta af. Hann hefur gefið út bókina The Silk Road Trap: How China‘s Trade Ambitions Challenge Europe.

Holslag bendir á ýmis hættumerki. Þannig er útlit fyrir að kínverskt fjármagn muni leika stærra hlutverk í evrópskum innviðaverkefnum og að það muni setja evrópska stjórnmálamenn í erfiða stöðu. Þá virðast dæmin sanna að Kína vill ekki alltaf spila eftir sömu leikreglum og allir hinir: atvinnulífið er samofið ríkisvaldinu og þannig búið um hnútana að kínverskum fyrirtækjum er gefið ósanngjarnt forskot á ýmsum mikilvægum sviðum.

Ekki eiga allir eftir að verða sammála greiningu Holslags, og hvað þá þeim ráðum sem hann telur að grípa þurfi til. Holslag kveðst ekki vera hlynntur því að ríki iðki verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum en telur samt að besta leiðin til að tryggja hagsæld í Evrópu sé að fyrirtækin þar hafi einhvers konar forgjöf í viðskiptum sínum við Kína. ai@mbl.is