Dæmi eru um að verulegur munur hafi verið á aflasamsetningu í róðrum grásleppubáta efir því hvort veiðieftirmaður var um borð eða ekki.

Dæmi eru um að verulegur munur hafi verið á aflasamsetningu í róðrum grásleppubáta efir því hvort veiðieftirmaður var um borð eða ekki. Fiskistofa hyggst birta reglulega upplýsingar um aflasamsetningu á hinum ýmsu tegundum veiða eftir því hvort eftirlitsmenn stofnunarinnar voru með í för eða ekki.

Ákveðið hefur verið að byrja með því að birta upplýsingar um aflasamsetningu í grásleppuveiði á síðasta ári. Stofnunin mun framvegis birta samantektir af grásleppuveiðum reglulega og má þá búast við að gefið verði upp hvaða báta er um að ræða í hverju tilfelli.

Talsvert ólík dæmi

Á heimasíðu Fiskistofu má sjá nafnlaus dæmi og í einu tilviki kom enginn þorskur á land úr grásleppuróðrum 21. og 22. mars í fyrra. Í næsta túr á eftir, 24. mars, komu rúmlega tvö tonn af þorski á land, en þá var veiðieftirlitsmaður um borð. Dagana á eftir var landaður þorskur 1,3 tonn og síðan 144 kíló. Þessa fimm daga var grásleppuaflinn frá 662 kílóum og upp í rúmlega tvö tonn.

Í öðru tilviki er tekið dæmi um fimm róðra grásleppubáts, sem landaði engum þorski nema þegar eftirlitsmaður var um borð. Á heimasíðunni er að finna dæmi um aflasamsetningu 13 grásleppubáta í lok mars í fyrra. Dæmin eru talsvert ólík og í nokkrum tilvikum er mun meiri samfella í aflasamsetningu heldur en í dæmunum hér að framan.

Eftirlit svo ekki komi til brottkasts

„Ástæður breytilegrar aflasamsetningar geta verið margvíslegar. Aðstæður í hafinu geta verið ólíkar hverju sinni og ætlun útgerðar og skipstjórnarmanna getur verið mismunandi frá einni veiðiferð til annarrar. Það er m.a. hlutverk Fiskistofu að hafa eftirlit með að ekki komi til brottkasts.

Til þess að rækja það hlutverk sem best beitir Fiskistofa margvíslegum aðferðum og má í því sambandi nefna samvinnu við útgerðir og skipstjórnarmenn, áhættugreiningu og aðgengi allra að upplýsingum um veiðar og afla. Þannig telur Fiskistofa að hún ræki hlutverk sitt að gæta hagsmuna þjóðarinnar við ábyrga nýtingu auðlinda hafs og vatna,“ segir á heimasíðu Fiskistofu. aij@mbl.is