Aðalleikararnir John Rhys-Davies á langan feril að baki sem leikari og sést hér við sjávarsíðuna í Reykjavík í kvikmyndinni Skuggahverfi. Brittany Bristow er öllu minna þekkt en hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta.
Aðalleikararnir John Rhys-Davies á langan feril að baki sem leikari og sést hér við sjávarsíðuna í Reykjavík í kvikmyndinni Skuggahverfi. Brittany Bristow er öllu minna þekkt en hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnae@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnae@mbl.is

Skuggahverfið , Shadowtown á ensku, heitir væntanleg kvikmynd hjónanna og kvikmyndagerðarmannanna Jóns Gústafssonar og Karolinu Lewicka sem stefnt er að því að frumsýna hér á landi í haust en kvikmyndin var meðal þeirra verka í vinnslu sem kynnt voru á Stockfish-kvikmyndahátíðinni 5. mars síðastliðinn.

Hinn heimskunni velski leikari John Rhys-Davies fer með eitt af aðalhlutverkum myndarinnar en hann hefur meðal annars leikið í kvikmyndunum um Hringadróttinssögu og myndunum um fornleifafræðinginn Indiana Jones en auk hans fara með aðalhlutverk vesturíslenska leikkonan Brittany Bristow, Kolbeinn Arnbjörnsson, Atli Óskar Fjalarsson og Inga María Eyjólfsdóttir.

Bristow leikur unga konu í Kanada sem erfir hús ömmu sinnar í Reykjavík, ömmu sem hún þekkti ekki og vissi ekki að væri til. „Í trássi við vilja móður sinnar leggur hún í ferðalag til að ná skilningi á sársauka fortíðarinnar, en með þeirri ákvörðun veldur hún uppnámi og róti sem hún kemst ekki lifandi frá nema með aðstoð látinna forfeðra og -mæðra,“ segir um söguþráðinn í kynningarefni frá Stockfish.

Óskýrar línur

Jón segir myndina komna á klippingarstigið og að verið sé að semja tónlist við hana. „Þetta er „low budget“ mynd,“ segir hann og að kvikmyndin sé dramatísk, dularfull og spennandi. „Við erum markvisst og meðvitað að búa til óskýrar línur milli hins raunverulega og hins yfirnáttúrulega,“ útskýrir Jón. Þau hjónin nálgist með sínum hætti íslensku drauga- og tröllasögurnar, sögur af hinu yfirnáttúrulega sem allir þekki.

„Þetta er á einhverju millibili sem erfitt er að útskýra. Við þekkjum fólk sem hefur sagt okkur sögur af upplifunum þeirra af draugum en get ég sem menntaður nútímamaður trúað því að það séu til draugar? Ég get ekki afneitað því heldur,“ segir Jón.

Hann segir að unga konan í myndinni, Maya, komi til Reykjavíkur og gisti í húsinu og strax fyrstu nóttina fari hún að fá skilaboð sem bendi til þess að einhver sé að fá hana ofan af því að selja húsið. Hún fer að tefja fyrir sölu á húsinu og sá sem gert hefur tilboð í það tekur að ókyrrast. „Það er einhver að reyna að benda henni á slys sem varð fimmtíu árum áður og hefur áhrif á hana ennþá í dag,“ segir Jón og að í grunninn fjalli sagan um það sem við erfum og þá ekki aðeins eignir og peninga heldur eitthvað miklu meira. „Við erfum líka genin okkar og sumir segja að við erfum hugsanir og aðrir að við erfum áföll fortíðarinnar,“ útskýrir Jón og nefnir að Íslendingar hafi á síðustu öld misst fjögur þúsund manns í sjóslysum. Og sú sorglega staðreynd tengist efni myndarinnar, að hans sögn. Best að skemma ekki frekar hið óvænta fyrir væntanlegum bíógestum.