Ekkert varð af afhendingu breiðþota sem nefndar voru TF-BIG og TF-MOG
Ekkert varð af afhendingu breiðþota sem nefndar voru TF-BIG og TF-MOG — Ljósmynd/Lars Hentschel
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Kröfuhafar sem nú hafa tekið yfir rekstur WOW horfa upp á rekstur sem er allt annars eðlis en sá sem þeir töldu sig koma með fjármagn að á liðnu hausti.

Skuldabréfaeigendur sem lögðu WOW air til 50 milljónir evra í september síðastliðnum gerðu það flestir á grundvelli rekstraráætlunar fyrir síðari hluta ársins 2018 sem kynnt var í útboðsferlinu. Þar var gert ráð fyrir því að rekstrarhagnaður félagsins myndi nema 72 milljónum dollara, jafnvirði 8,7 milljarða króna. Þegar árið var gert upp reyndist árshelmingurinn hafa skilað neikvæðri rekstrarniðurstöðu sem nam 11 milljónum dollara, jafnvirði 1,3 milljarða króna. Þetta sýna gögn sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum.

Munurinn milli áætlunarinnar og raunniðurstöðu rekstursins nemur 85 milljónum dollara, jafnvirði 10,3 milljarða króna. Líkt og Morgunblaðið greindi frá á mánudag nam tap af rekstri WOW air á síðasta ári 22 milljörðum króna.

Í gær tilkynnti fulltrúi þeirra fjárfesta sem keyptu skuldabréf á félagið síðastliðið haust að aukinn meirihluti fjárfestanna hefði ákveðið að draga á ákvæði í samningum við félagið er tengdust vanefndum. Í kjölfarið eignast hópurinn allt hlutafé WOW air en eignarhlutur Títans Fjárfestingafélags ehf., sem er að 100% hluta í eigu Skúla Mogensen, þurrkast út. Skúli á eftir sem áður um 11% í félaginu þar sem hann keypti í fyrrnefndu útboði fyrir 5,5 milljónir evra. Eignarhlutur Títans í WOW air var í árslok 2017 metinn á tæpa 4,2 milljarða króna. Auk þess á Títan víkjandi lán á hendur WOW air sem nemur í bókum þess 6,3 milljónum dollara, jafnvirði 756 milljóna króna.Í fyrrnefndri rekstraráætlun sem lögð var fyrir mögulega fjárfesta í skuldabréfaútboðinu í september var gert ráð fyrir því að rekstrargjöld félagsins myndu nema á seinni hluta ársins 318 milljónum dollara, jafnvirði 38,6 milljarða króna. Raunin varð sú að þau reyndust 365 milljónir dollara eða jafnvirði 44,3 milljarða króna. Gjöldin hækkuðu því um 5,7 milljarða frá áætluninni.

Gríðarlegar afskriftir og virðisrýrnun

Þegar upp var staðið reyndust afskriftir og virðisrýrnun í bókum félagsins 77 milljónir dollara frá júlí og fram til loka árs 2018. Það jafngildir 9,3 milljörðum króna. Gögnin sem lögð voru fyrir fjárfesta í september gerðu ráð fyrir því að afskriftir og virðisrýrnun myndi nema 11 milljónum dollara, jafnvirði 1,3 milljarða króna.