Jöklar RAX og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur fjölluðu um framtíð íslensku jöklanna í fyrirlestri sínum í Háskólabíói í gær, en hún þykir fremur dökk.
Jöklar RAX og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur fjölluðu um framtíð íslensku jöklanna í fyrirlestri sínum í Háskólabíói í gær, en hún þykir fremur dökk. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Það má segja að jöklarnir eru fyrst og fremst stórglæsilegt landslagsfyrirbrigði sem verður mikill sjónarsviptir að,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur og sérfræðingur í jöklum, en hann flutti erindi í gær í Háskólabíói ásamt Ragnari Axelssyni, RAX, ljósmyndara Morgunblaðsins, og Tómasi Guðbjartssyni lækni um framtíð jöklanna. Erindið var hluti af dagskrá 66°N sem bar heitið „Jökullinn gefur eftir“. Auk þremenninganna fluttu þau Rakel Garðarsdóttir og Andri Snær Magnason erindi á fundinum.

Sagan að fara forgörðum

Oddur segir jöklana vera áhugavert náttúrufyrirbrigði, sem geymi magnaða sögu. „Þeir varðveita alla Íslandssöguna, síðastliðin þúsund ár að minnsta kosti, og sú saga er að fara forgörðum og er að hverfa fyrir augunum á okkur. Sú saga mun ekki finnast aftur ef við náum ekki í hana áður en þeir bráðna,“ segir Oddur.

Hann er ómyrkur í máli um framtíð jöklanna. „Ég tel að það verði ekki komið í veg fyrir það að íslensku jöklarnir bráðni eða svo gott sem. Það er eiginlega sama til hvaða ráða verður gripið, það er ekki hægt að koma í veg fyrir það,“ segir Oddur, sem áætlar að jöklarnir verði horfnir á innan við næstu tvöhundruð árum.

Hann bætir við að bráðnun jöklanna sé einungis það sem sé sýnilegt af þeim vandamálum sem hrjái mannkynið. „Síðan bætast við alls konar vandamál samtímis sem mynda til samans hörmungar sem munu ganga yfir mannkynið. Sumt sjáum við fyrir, annað getum við ekki séð fyrir,“ segir Oddur. Hann bætir við að það muni kosta kynslóðir framtíðarinnar blóð, svita og tár að takast á við þann vanda sem hafi skapast. „Þetta verður brattur skafl fyrir mannkynið.“

Oddur segir að vandinn hafi verið fyrirséður, meðal annars í bókinni Heimur á heljarþröm , sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1950, en þar hafi verið sagt að þá þegar þyrfti að grípa til harkalegra ráðstafana ef ekki ætti illa að fara. „Og það var ekki gert og nú erum við að súpa seyðið af því.“