Stigasöfnun íslenska fótboltalandsliðsins eftir tvo fyrstu leikina í undankeppni EM er eftir bókinni. Svokallaður skyldusigur vannst gegn Andorra og fyrirséð tap gegn heimsmeisturum Frakka leit dagsins ljós í fyrrakvöld.
Stigasöfnun íslenska fótboltalandsliðsins eftir tvo fyrstu leikina í undankeppni EM er eftir bókinni. Svokallaður skyldusigur vannst gegn Andorra og fyrirséð tap gegn heimsmeisturum Frakka leit dagsins ljós í fyrrakvöld.

Strákarnir gerðu það sem þeir þurftu að gera á móti Andorra en spilamennskan á móti Frökkunum olli mér miklum vonbrigðum. Leikur liðsins var virkilega dapur frá a til ö. Vissulega var andstæðingurinn ógnarsterkur en liðið okkar var sundurspilað lungann úr leiknum og frammistaðan í líkingu við skellinn sem liðið fékk í fyrsta leiknum undir stjórn Erik Hamrén á móti Sviss.

Hamrén veðjaði á þriggja miðvarða kerfið í leiknum á móti Frökkunum og það verður að segjast eins og er að það gekk engan veginn upp. Kári, Ragnar og Sverrir náðu sjaldan að slá í takt og í þau fáu skipti sem íslenska liðið var með boltann var það fljótt að tapa honum.

Uppskera landsliðsins í tíu leikjum undir stjórn Hamrén hefur ekki verið góð. Liðið hefur aðeins unnið einn leik, skorað 9 mörk en fengið á sig 23. Áran yfir liðinu hefur ekkert verið sérlega góð eftir HM í Rússlandi.

Það er hins vegar nóg eftir af undankeppninni og nái liðið að stilla saman strengi sína er vel hægt að ná markmiðunum, það er að komast í lokakeppni EM.

Leikirnir í júní á Laugardalsvelli gegn Albönum og Tyrkjum eru gríðarlega mikilvægir og geta ráðið miklu um hvort Ísland getur tryggt sér sæti á þriðja stórmótinu í röð. Ákveðnar viðvörunarbjöllur hafa hringt og nú þurfa leikmenn og allir þeir sem að landsliðinu koma að róa í sömu átt og gefa hressilega í.