Ævar Halldór Kolbeinsson
Ævar Halldór Kolbeinsson
Eftir Ævar Halldór Kolbeinsson: "Deiluaðilar eru sammála um að varðveita sérstöðu Íslands m.t.t. þessa sýklalyfjaónæmis."

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógn við lýðheilsu í heiminum. Sú ógn hefur aukist um allan heim á undanförnum árum. Ísland hefur að mestu sloppið og líkja má nú landinu við vin í þessari eyðimörk.

Fjöldi fólks metur það svo að verði nýtt frumvarp landbúnaðarráðherra um innflutning á hráu kjöti o.fl. að lögum, tapist þessi sérstaða landsins. Þetta frumvarp er m.a. viðbrögð við dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar um að ákvæði í EES-samningnum hafi verið brotið hérlendis. Einn andstæðinga frumvarpsins; Guðni Ágústsson, vísar til þess, í góðri grein (Mbl. 26/2 sl.) að undanþáguákvæði sé að finna í þessum EES-samningi, tilgreinir það og mögulegar notkunarástæður þess.

Eitt virðast deiluaðilar vera sammála um, en það er að varðveita sérstöðu Íslands, með því að vinna að vernd þjóðar og búfjár fyrir þessum ofurbakteríum. Ágreiningur ríkir milli andstæðinga og fylgismanna frumvarpsins, um hvernig sérstaða landsins verði sem best varðveitt. Hann kemur m.a. fram í ólíku mati á líklegustu sýkingarleið.

Í ítarlegri grein sinni (Mbl. 28/2 sl.) fjallar Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félags atvinnurekenda (FA) m.a. um þetta. Hann tilgreinir mat ýmissa sérfræðinga sem staðhæfa eitthvað í þá veru að slíkar bakteríur, sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, eigi ekki að berast í fólk með neyslu búfjárafurða. Í þessari grein er vitnað í skýrslu/niðurstöður sérfræðinga, unnar fyrir FA. Þar kemur fram að ekki séu „haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum búvörum hafi neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og lýðheilsu dýra.“ Nokkru neðar kemur fram í sömu skýrsluniðurstöðum „að aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum“.

Rangt mat

Sérstaða á Íslandi í þessum málum er sú sama nú og áður. Lýðheilsa fólks er yfirleitt laus við þessar ofurbakteríur og lyfjaþol gagnvart sýklalyfjum. Hér á undan er staðhæft að ferðalög fólks til og frá landinu séu líklegasta sýkingarhættan. Ljóst er að mörg undanfarin ár hefur mikill fjöldi fólks ferðast til og frá landinu, bæði erlent og innlent. Það þýðir að ofangreint mat, sem nefnt er í grein Ólafs, er rangt. Helsta smitleiðin hlýtur að vera önnur og hingað til óþekkt hérlendis, nema íslenska þjóðin sé sú eina í heiminum sem er ónæm fyrir þessum bakteríum. Það er mjög ólíklegt og sennilegt að sýkingarhættan felist í innflutningi búfjárafurða frá ESB-löndum.

Fjallað er um það af sérfræðingunum og prófessorunum Lance Price og Karli G. Kristinssyni í Bændablaðinu hinn 28/2 sl. Þar kemur m.a. fram að Lance hafi skoðað ferðir fólks sem mögulega smitleið en metið það svo að það ætti lítið við. Hann segir „afnám frystiskyldu á innfluttu kjöti er mikið áhyggjuefni“ og mikilvæg sérstaða Íslands glatist verði frystiskyldan afnumin. En hér er ekki bara um sjúkdómahættu fyrir fólk að ræða, heldur einnig mögulega búfjársjúkdóma. Ef sérstaða Íslands í þessum efnum glatast verður erfitt að endurheimta hana.

Hjá Karli kemur fram að hér hafi bústofnar verið ræktaðir í einangrun í meira en þúsund ár og íslenskt búfé sé sérlega viðkvæmt ef hingað berist sjúkdómar frá útlöndum. Karl nefnir einnig þarna (bls. 28) „að lítil tíðni sjúkdóma í íslensku búfé skipti lýðheilsu Íslendinga líka miklu máli“.

Ekki er að finna álíka verksmiðjubú hérlendis og víða í Evrópu, sem þýða verri aðstæður í lífinu fyrir dýr eins og sauðfé. Hér skiptir hver skepna meira máli og íslenskum bændum er yfirleitt umhugað um velferð þeirra. Ég minnist leiðbeininga sem sem ég fékk við smalamennsku í æsku: „Allar kindurnar, lömbin líka, verða að skila sér niður fjallshlíðina og síðan í réttirnar.“ Eru til nærtækar ritaðar leiðbeiningar um þetta? Í Biblíunni kemur fram að Jesús sagði eitt sinn „Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann þá ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess sem villtur er?“ (Matteus; 18:12)

Ávinningur og áhætta

Aftur að upplýsingaþræðinum í Bændablaðinu; Karl nefnir jafnframt að aukin innflutningur sem hér til umræðu, gæti leitt til þess að nýir fjársjúkdómar berist til landsins. Nefna má í Þessu sambandi að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Margt fleira mætti nefna um þessi mál sem ekki er svigrúm fyrir hér, en samt hafa verið nefndir mikilvægir lykilþættir.

Ef áðurnefnt frumvarp landbúnaðarráðherra verður að lögum fylgir því bæði ávinningur og áhætta. Ávinningurinn myndi væntanlega vera lægra vöruverð og einnig meira úrval matar af þessu tagi. Áhættan kæmi að öllum líkindum fram í verri lýðheilsu landans og auknum heilbrigðiskostnaði. Einnig gæti hún komið fram í nýjum búfjársjúkdómum og minni matvælahollustu. Mikil áhætta, minni ávinningur? Álitamál í lýðræðisþjóðfélagi, því verðmætamat fólks er mismunandi. Væri ekki besti leikur í stöðunni að leita annarra lausna við lagfærslu á EES-samningnum?

Höfundur er (h)eldri öryrki og áhugasamur um íslenska velferð.

Höf.: Ævar Halldór Kolbeinsson