Herjólfur Ekki er ljóst hvenær eða hvort ný ferja verður tekin í notkun.
Herjólfur Ekki er ljóst hvenær eða hvort ný ferja verður tekin í notkun. — Ljósmynd/Vegagerðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Við eigum í viðræðum við stöðina um áframhaldið – við reiknum með að það séu yfirgnæfandi líkur á því að við fáum skipið afhent þótt það gæti tafist eitthvað,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Við eigum í viðræðum við stöðina um áframhaldið – við reiknum með að það séu yfirgnæfandi líkur á því að við fáum skipið afhent þótt það gæti tafist eitthvað,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Vegagerðin tilkynnti í gær að skipasmíðastöðin Crist S.A. í Póllandi, sem smíðar nýjan Herjólf, hefði skyndilega á lokametrum verksins krafist viðbótargreiðslu. Nemi greiðslan nærri þriðjungi af heildarverði skipsins. Telur Vegagerðin að engin stoð sé í samningi aðila fyrir þessari kröfu skipasmíðastöðvarinnar. Hefur Vegagerðin af þeim sökuð leitað til dönsku lögfræðistofunnar Gorrissen Federspiel til að annast málið.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar kemur fram að í upphafi hafi verið samið um að smíði Herjólfs myndi kosta 26.250.000 evrur. Síðar hafi bæst við aukaverk að upphæð 3.492.257 evrur, svo sem rafvæðing Herjólfs, en skriflegir samningar séu um öll þessi aukaverk. Því hafi það komið á óvart að skipasmíðastöðin geri nú kröfu upp á heildarverð sem nemur 38.430.000 evrum eða ríflega 5,2 milljörðum íslenskra króna. Krafan um viðbótargreiðslu hljóðar upp á um 8,9 milljónir evra eða ríflega 1,2 milljarða íslenskra króna.

„Teikningarnar voru ónýtar“

„Ég er nú búinn að vera í mörgum nýbyggingum, hef tekið þátt í að smíða 20-30 skip, en hef aldrei séð neitt þessu líkt. Þetta hlýtur að vera vankunnátta. Menn bara haga sér ekki svona,“ segir Björgvin Ólafsson, umboðsmaður Crist S.A. á Íslandi. Björgvin hefur haft milligöngu um smíði Þórs og Árna Friðrikssonar og hefur unnið áður með pólsku skipasmiðunum.

Björgvin vísar í máli sínu til þess hvernig Vegagerðin hafi haldið á málum varðandi afhendingu Herjólfs. Þegar menn hafi greint á um kostnað hafi ekki verið gerð nein tilraun til að ræða málin á yfirvegaðan hátt og finna lausn. „Menn komu bara með lögfræðingastóð frá Danmörku á fyrsta fund og það er auðvitað þeirra hagur að allt fari í háaloft. Það var enginn tæknimaður sem gat rætt málin.“

Björgvin segir að Herjólfur hafi verið boðinn út með teikningum frá Vegagerðinni. Umræddar teikningar voru að hans sögn gerðar í Noregi og kostuðu Vegagerðina hundruð milljóna króna. „Og maður spyr sig í dag, vissu þeir sem gerðu teikningarnar af þeim vandamálum sem hafa verið með Herjólf? Það var byrjað að vinna út frá þessum teikningum hjá Crist en síðar kemur í ljós að þær standast ekki. Teikningarnar voru bara ónýtar og útboðsgögnin þar af leiðandi ekki fullnægjandi. Stöðin ákvað að hanna þetta skip upp á nýtt en að það yrði samt sambærilegt. Það voru allir sammála um það og farið var af stað. Síðan vildi Vegagerðin lengja það og gerður var samningur um það. Síðan ákváðu þeir að fara með rafmagn í það. Þá er þetta í raun orðið skip númer þrjú, þó þeir hafi getað notað skrokkinn.“

Björgvin Ólafsson segir að yfirlýsingar sé að vænta frá skipasmíðastöðinni vegna málsins. „Þeir ætla annars ekki að ræða þetta í fjölmiðlum en hafa sent bréf á ráðherra þar sem þeir óska eftir fundi um málið.“

Er það rétt að Crist íhugi að seinka afhendingu skipsins eða hætta jafnvel við hana?

„Skipið er búið að vera tilbúið í tíu daga en forsvarsmenn Crist eru nýbúnir að framlengja allar ábyrgðir í þrjá mánuði. Þeir vilja ræða málin en þeir eru tilbúnir að fara í hart ef með þarf.“

Áhyggjur af stöðu mála

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að mál nýs Herjólfs og dýpkun Landeyjahafnar verði rædd á fundi hjá umhverfis- og samgöngunefnd.

Greint hefur verið frá því að beiðni um fundinn sé til komin vegna umræddra frétta af kröfu Crist S.A. um viðbótargreiðslur vegna smíði ferjunnar og vegna gagnrýni á dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn. Vilhjálmur hefur lýst því yfir að hann vilji fá svör um upphæð kröfu skipasmíðastöðvarinnar og af hverju hún komi svo seint til. Áhyggjur hans lúti þó ekki síður að dýpkun Landeyjahafnar, en framkvæmdum við dýpkun átti að ljúka í febrúar.