Leiklistarfræðingur Magnús Þór Þorbergsson rannsakar leiklist Vestur-Íslendinga.
Leiklistarfræðingur Magnús Þór Þorbergsson rannsakar leiklist Vestur-Íslendinga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Mikil gróska var í íslensku leiklistarlífi í Vesturheimi frá 1880 fram á sjötta áratug liðinnar aldar. Magnús Þór Þorbergsson leiklistarfræðingur vinnur að rannsókn á málinu og hefur meðal annars komist að því að vel á þriðja hundrað leikrit voru sett upp vestra á þessu tímabili.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Mikil gróska var í íslensku leiklistarlífi í Vesturheimi frá 1880 fram á sjötta áratug liðinnar aldar. Magnús Þór Þorbergsson leiklistarfræðingur vinnur að rannsókn á málinu og hefur meðal annars komist að því að vel á þriðja hundrað leikrit voru sett upp vestra á þessu tímabili.

Fyrir ári fékk Magnús nýdoktorsstyrk til þess að rannsaka sögu leiklistar Vestur-Íslendinga. „Þegar ég byrjaði að skoða málið kom mér á óvart hvað íslenskir innflytjendur í Vesturheimi byrjuðu snemma að setja upp leiksýningar, hvað starfsemin var útbreidd og hvað hún stóð lengi yfir,“ segir hann.

Jóhann Magnús afkastamestur

Á liðnu hausti var Magnús í um tvo mánuði við rannsóknir og öflun gagna vestra, einkum í Manitoba í Kanada. „Ég hef fundið dæmi um leiksýningar Íslendinga frá Chicago vestur til Vancouver,“ segir hann.

Jóhann Magnús Bjarnason var afkastamesta leikritaskáldið vestra, skrifaði 25 leikrit á árunum 1890 til 1905. Magnús bendir á að ekkert þeirra hafi verið flutt á Íslandi og ekkert þeirra hafi varðveist.

„Af einhverjum ástæðum leit hann ekki á leikritin sem hluta af bókmenntasköpun sinni og hélt ekki vel utan um leikhandrit sín.“ Enn fremur hafi lestrarfélög, kvenfélög, góðtemplarar og aðrir áhugahópar, sem hafi sett upp leikrit hans, haldið misjafnlega vel utan um starfsemina og því ýmislegt glatast. „Sum leikritanna voru sýnd víða um sveitir Manitoba, Norður-Dakóta og Saskatchewan. Til þessa hef ég rekist á vel á þriðja hundrað leikritatitla, sem settir voru upp vestra en fæstir þeirra hér á landi.“ Áréttar samt að ekki séu öll kurl komin til grafar. „Þarna er mikill fjársjóður sem erfitt er að finna,“ segir hann og bætir við að hugsanlega leynist margt djásnið í heimahúsum. „Vegna þess að tungumálið er ekki endilega til staðar áttar fólk sig kannski ekki á því hvað það er með í höndunum.“

Fyrstu dæmi, sem Magnús hefur fundið um leiksýningar Vestur-Íslendinga á íslensku, eru frá 1880, en þau síðustu frá sjötta áratug liðinnar aldar. Hann segir athyglisvert hvað starfsemin var umfangsmikil og samskiptin á milli hópa mikil. Leiklistin hafi verið vettvangur til þess að koma saman, efla sjálfsmyndina og tengslin og styrkja böndin. „Fljótlega eftir að Íslendingar fluttu vestur eru dæmi um leikferðir á milli byggða. Um 1930 eru dæmi um auglýsta samkeppni á milli leikhópa sem mættu með sýningar til Winnipeg þar sem þær voru metnar til verðlauna samkvæmt nákvæmu og ítarlegu stigakerfi.“

Leikritin voru bæði frumsamin og þýdd á íslensku. Magnús nefnir að Jóhannes Páll Pálsson, læknir og nemandi Jóhanns Magnúsar, hafi til dæmis skrifað nokkur leikrit og Guttormur J. Guttormsson hafi skrifað leikrit sem aldrei hafi verið leikin. „Þau voru mjög athyglisverð og nýstárlegri en leikrit sem komu upp á sama tíma á Íslandi, á þriðja áratugnum,“ segir Magnús, sem vinnur að því að draga efnið saman í bók.