[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Guðmundsson fæddist 27. mars 1959 á Húsafelli í Borgarfirði og ólst þar upp. Hann gekk í barnaskóla á Kleppjárnsreykjum og Hagaskóla í Reykjavík.

Páll Guðmundsson fæddist 27. mars 1959 á Húsafelli í Borgarfirði og ólst þar upp. Hann gekk í barnaskóla á Kleppjárnsreykjum og Hagaskóla í Reykjavík. Hann stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977-1981 og fór síðar í Listaháskólann í Köln í Vestur-Þýskalandi, þar sem hann lærði höggmyndalist hjá prófessor Burgeff. Hann kom aftur í Borgarfjörðinn eftir námið í Myndlista- og handíðaskólanum, og var kennari við Grunnskólann í Borgarnesi í þrjá vetur, þar sem hann kenndi teikningu og hafði vinnustofu í gamla Kaupfélagshúsinu. Eftir námsárið í Þýskalandi fór hann heim að Húsafelli og hefur verið þar við vinnu síðan.

Áhuginn á listinni hefur lengi verið til staðar. Þegar Páll var barn sá hann myndir í steinunum og um 12 ára aldur var hann farinn að mála olíuverk. Þá voru margir listamenn á Húsafelli, m.a. Pétur Friðrik og Veturliði Gunnarsson, og fékk hann að fara með þeim út í skóg að mála.

Páll segir að hann sjái myndir í steinunum og að hann þurfi oft ekki að gera mikið til að gera myndirnar sýnilegar öðrum. Þetta geta verið tröll, vættir, huldufólk, dýr og menn sem þannig leynast og hann laðar fram. Hann gerir bæði bergþrykk og svellþrykk auk þess að kljúfa steina í sundur til að finna leyndar myndir inni í þeim. Þá steina kallar hann samlokur en þær geta verið af öllum stærðum. Páll notar eingöngu handverkfæri við vinnu sína og náttúrulega liti, oftast liti úr steinunum sjálfum. Bergþrykkið er þannig að hann pússar steininn með sandpappír, bleytir pappírinn og leggur ofan á, síðan þurrkar með hárþurrku til að halda forminu, sólin þurrkar einnig vel en er ekki alltaf til staðar. Svellþrykkið er máluð grunnmynd á svell með olíumálningu þrykkt með pappír og útkoman er afar sérstakt mynstur. Páll þróaði þessa tækni sjálfur.

Páll hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga og má nefna sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1985 og sýningu í Reykjavík Art Gallery í tilefni af 50 ára afmæli hans. Hann hlaut Menningarverðlaun DV árið 1995 fyrir sýningu sem hann hélt í Surtshelli. „Ég býst við að ég haldi sýningu á verkum mínum á árinu, en ætla ekkert að gefa upp núna hvers konar sýning það verður.“ Verk Páls eru alltaf til sýnis á Húsafelli og minnisvarðar sem Páll hefur gert eru víða um landið eins og minnisvarði um Eggert Ólafsson á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi og minnisvarði um gamla kirkjugarðinn í Aðalstræti.

Páll hefur líka þróað hljóðfæri. Hann kom fram með steinhörpuna, sem er líparíthellur, og hefur spilað víða um heim á hana með sinfóníuhljómsveitum og Sigur Rós og Hilmari Erni Hilmarssyni og Steindóri Andersen, meðal annars í Hrafnagaldri Óðins. Páll og félagar hafa verið tilnefndir til Menningarverðlauna Norðurlanda tvisvar og fengu Menningarverðlaun DV 2003.

„Ég hef undanfarið verið að þróa steinhörpuna og einnig skrítnar flautur, panflautur sem ég hef gert úr blómum rabarbara. Það var leikið á þær þegar verðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í Hörpu árið 2015, en svo hef ég verið að þróa flauturnar frekar.“ Þá var flutt verk Páls, Norðurljós, við ljóð Einars Benediktssonar og söng Kammerkór Suðurlands.

Páll hlaut hina íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til myndlistar árið 2015. Páll býr á Húsafelli en dvelur í Reykjavík yfir afmælið.

Fjölskylda

Systkini Páls eru Guðrún Guðmundsdóttir, f. 26. október 1957, píanókennari í Tónlistarskólanum í Hafnarfirði; Þorsteinn Guðmundsson, f. 2. maí 1960, verktaki á Fróðastöðum í Hvítársíðu, og Rósa Guðmundsdóttir, f. 8. febrúar 1963, húsmóðir í Reykjavík.

Foreldrar Páls: Hjónin Guðmundur Pálsson, f. 14. mars 1924, d. 30. ágúst 1976, bóndi á Húsafelli, og Ástríður Þorsteinsdóttir, f. 7. ágúst 1927, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi bóndi á Húsafelli, bús. í Reykjavík.