Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Það var frekar óskemmtilegt að lesa ummæli sem höfð voru eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni verkalýðsfélagsins Eflingar, á Mbl.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Það var frekar óskemmtilegt að lesa ummæli sem höfð voru eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni verkalýðsfélagsins Eflingar, á Mbl.is á mánudagskvöldið um að verkalýðsbarátta snerist um að tryggja vinnuaflinu mannsæmandi afkomu „sama hvað kapítalísk fyrirtæki gerðu“, en fréttin var sögð þegar fundi verkalýðsfélaga við SA var slitið fyrr en áætlað var vegna óvissunnar varðandi WOW air.

Það að einstaklingur sem tengdur hefur verið við sósíalisma þurfi endilega að hnýta orðinu „kapítalísk“ fyrir framan orðið „fyrirtæki“, mátti skilja eins og viðkomandi óskaði sér að frekar verið væri að semja við opinber fyrirtæki, ef maður gefur sér að það séu þá öll hin fyrirtækin í landinu.

Orðin mátti skilja einnig á þann veg að tillit ætti ekki að taka til stöðu hinna einkareknu fyrirtækja, sem í lok dagsins þurfa að hafa burði til að borga launin, sem kröfugerð verkalýðsfélaganna snýst um. Mætti sem sagt telja að halda eigi ýtrustu kröfum til streitu, og það sama þó fyrirtækin megni ekki að greiða launin sem samið er um.

Almennt þá greiða fyrirtæki laun eins og þau treysta sér til, og stofnendur og eigendur þessara fyrirtækja hafa lagt blóð, svita og tár í uppbyggingu þeirra, vöxt og viðhald.

Suma dreymir um að fyrirtæki séu helst öll opinber, en sú hugmyndafræði er margreynd, og hefur ítrekað endað með ósköpum.