Menntun Kennarastarfið er áhugavert, segir Anna María.
Menntun Kennarastarfið er áhugavert, segir Anna María. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Komin yfir fimmtugt hefur safnast drjúgt í reynslubankann svo kona hefur tækifæri til að takast á við ýmsar áskoranir. Ég hef brennandi áhuga á menntamálum og finnst gaman að vinna þeim brautargengi.

Komin yfir fimmtugt hefur safnast drjúgt í reynslubankann svo kona hefur tækifæri til að takast á við ýmsar áskoranir. Ég hef brennandi áhuga á menntamálum og finnst gaman að vinna þeim brautargengi. Finnst reyndar sem betri hljómgrunnur sé nú en oft áður fyrir mikilvægi menntunar og það er vel,“ segir Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, sem er 52 ára í dag.

„Sagt er að þegar æviárin eru orðin jafn mörg og spilin í stokknum sé fólk komið á beinu brautina í lífinu. Það er talsverður sannleikur í því,“ segir Anna María sem ólst upp í Hafnarfirði og Laugarási í Biskupstungum og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Nam íslensku við Háskóla Íslands, sneri sér eftir það að kennslu og starfaði í meira en 20 ár við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

„Kennarastarfið er áhugavert, ekki síst samskipti við unglingana sem eru flestir hverjir hugmyndaríkir og skapandi. Ég sakna krakkanna oft, en á móti kemur að störf að félagsmálum eru líka mjög gefandi,“ segir Anna María, íslenskufræðingurinn sem fylgist vel með bókmenntunum og nýjum bókum. Hún nefnir þar að bókin Skiptidagar , þar sem Guðrún Nordal segir persónulega frá bókmenntum Íslendinga, hafi vakið sig til umhugsunar um margt í samfélagsgerðinni.

„Eftir vinnu fer ég oft út að ganga. Við Katrín Jóna Svavarsdóttir, ein af vinkonum mínum frá Laugarvatnsárunum, tökum oft hringinn umhverfis Hvaleyrarvatn. Ferðirnar í fyrra voru um 200 og verða sennilega ekki færri í ár. Eins stunda ég skíðaíþróttina með fólkinu mínu,“ segir Anna María sem er gift Bjarka Sverrissyni kerfisfræðingi. Synirnir eru tveir; Kvennaskólapilturinn Ari Gunnar sem er 17 ára og læknaneminn Jón Gunnar 22 ára. sbs@mbl.is