[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Þrír Íslendingar komust á verðlaunapall á Smáþjóðaleikunum í ólympískum lyftingum sem haldnir voru á Möltu síðasta laugardag. Aníta Líf Aradóttir fékk silfurverðlaun og þau Birna Aradóttir og Daníel Róbertsson kræktu í bronsverðlaun.

*Þrír Íslendingar komust á verðlaunapall á Smáþjóðaleikunum í ólympískum lyftingum sem haldnir voru á Möltu síðasta laugardag. Aníta Líf Aradóttir fékk silfurverðlaun og þau Birna Aradóttir og Daníel Róbertsson kræktu í bronsverðlaun. Ísland sendi fullskipað lið sem hafnaði í öðru sæti liðakeppninnar en þar voru einnig Bjarmi Hreinsson og Einar Ingi Jónsson sem urðu í fjórða og fimmta sæti í sínum flokkum.

* Elísabet Einarsdóttir og Theódór Óskar Þorvaldsson , bæði úr HK, voru valin bestu leikmenn Mizuno-deilda kvenna og karla í blaki en deildakeppninni er nú lokið. Sara Ósk Stefánsdóttir úr HK og Galdur Máni Davíðsson úr Þrótti í Neskaupstað voru valin efnilegustu leikmennirnir og bestu þjálfararnir voru útnefndir Matthew Gibson, þjálfari karlaliðs Álftaness, og Emil Gunnarsson , þjálfari kvennaliðs HK.

*Danski handknattleiksmaðurinn Hans Óttar Lindberg , sem á íslenska foreldra, hefur tekið sér frí frá danska landsliðinu, a.m.k. fram á haustið. Hans Óttar, sem verður 38 ára í sumar og leikur með Füchse Berlín, verður ekki með Dönum í undankeppni EM í næsta mánuði. Nikolaj Jacobsen þjálfari Dana sagði í gær að Hans hefði spilað mikið í vetur þrátt fyrir meiðsli og myndi leggja áherslu á að geta spilað mikilvæga leiki Füchse í vor. Staðan yrði síðan skoðuð í haust.

*UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hefur kært Svartfellinga fyrir fimm brot varðandi leik þeirra gegn Englandi í undankeppni EM í fyrrakvöld. M.a. fyrir kynþáttaníð gagnvart Danny Rose, bakverði enska landsliðsins.

*Norðmaðurinn Glenn Solberg verður næsti þjálfari sænska karlalandsliðsins í handknattleik. Hann tekur við af Kristjáni Andréssyni sem hættir eftir EM 2020 en Kristján tekur í sumar við þýska liðinu RN Löwen.

* Einar Sverrisson leikur ekki meira með Selfyssingum í handboltanum á þessu tímabili en þessi öfluga skytta meiddist illa á hné á æfingu í síðustu viku. Hann sagði við sunnlenska.is að krossband væri líklega rifið en ekki alveg slitið en hann þyrfti væntanlega að fara í krossbandsaðgerð.

*Útlit er fyrir að Agnar Smári Jónsson leikmaður Vals spili ekki meira á þessu Íslandsmóti í handknattleik. Hann gekkst undir aðgerð vegna brjóskloss í gærmorgun, samkvæmt frétt Vísis, og hafði lítið spilað undanfarnar vikur vegna meiðslanna. Agnar varð þrefaldur meistari með ÍBV síðasta vetur en gekk til liðs við Val fyrir þetta tímabil.