Meirihluti ráðgefandi nefndar um siðareglur Alþingis telur að hátterni þeirra sex þingmanna sem voru teknir upp á Klausturbar í lok síðasta árs falli undir gildissvið siðareglna Alþingis, en álit nefndarinnar var birt á heimasíðu þingsins í gær.

Meirihluti ráðgefandi nefndar um siðareglur Alþingis telur að hátterni þeirra sex þingmanna sem voru teknir upp á Klausturbar í lok síðasta árs falli undir gildissvið siðareglna Alþingis, en álit nefndarinnar var birt á heimasíðu þingsins í gær.

Forsætisnefnd hafði óskað eftir því við nefndina að hún legði annars vegar mat á hvort háttsemin félli undir gildissvið siðareglna eins og því er lýst í 2. grein þeirra, en þar er sviðið takmarkað við opinbera framgöngu alþingismanna og skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.

Þá átti siðanefndin að meta hvort ákvæði d-liðar 1. málsgreinar 5. greinar og 8. greinar gætu haft víðtækara gildissvið en þar er tekið til.

Segir í áliti meirihlutans að mat á því hvort tiltekin háttsemi falli undir siðareglurnar snúist um það hvort um framgöngu opinberra persóna á opinberum stað sé að ræða og hvort hún varði almenning.

Samtalið ekki talið einkasamtal

Telur meirihlutinn ljóst að þingmenn séu opinberar persónur, að háttsemin hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og að hún hafi tengst málum sem hafi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Það verði því ekki litið á samtal þingmannanna sem einkasamtal. Um leið áréttar meirihlutinn að ekki er veitt álit á því hvort um brot á siðareglunum hafi verið að ræða.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki, skilar inn minnihlutaáliti, en þar tekur hann undir með meirihluta nefndarinnar að ýmis rök hnígi að því að hátternið falli undir gildissvið siðareglnanna, og að vel sé hugsanlegt að því hafi verið ætlað að ná yfir hátterni af því tagi.

Hins vegar vakni fjölmargar efasemdir um gildissviðsákvæðið í þessu samhengi, þar sem orðalag ákvæðisins sé „hvorki skýrt né afgerandi og kallar á túlkun og bollaleggingar“.

Segir Róbert rétt að vekja athygli á þeim efasemdum, meðal annars vegna þess að þær kunni að gefa tilefni til endurskoðunar siðareglnanna og gildissviðsákvæðisins.