Þórður Már Sigfússon
Þórður Már Sigfússon
Eftir Þórð Má Sigfússon: "Það er kominn tími til að stjórnvöld vakni af værum blundi og sýni íþróttafólki þá virðingu að hefja undirbúning og byggingu nýs þjóðarleikvangs."

Það skýtur töluvert skökku við að á blómaskeiði íslenskra innanhússboltaíþrótta skuli aðstaða til alþjóðlegra keppnisleikja hérlendis vera óboðleg. A-landslið karla í handbolta hefur á þessu „gullna“ skeiði unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikum og bronsverðlauna á Evrópumóti og A-landslið karla í körfubolta hefur tvisvar unnið sér þátttökurétt á lokamóti Evrópumótsins, EuroBasket. Það hefur legið ljóst fyrir í meira en áratug að Laugardalshöllin er úrelt mannvirki sem stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til veigamikilla íþróttamannvirkja í dag. Hún er á undanþágum hjá alþjóðasamböndum í hand- og körfubolta, EHF og FIBA, en hversu lengi þær vara er óvíst. Þessar undanþágur breyta ekki þeirri staðreynd að Laugardalshöllin er ólögleg keppnishöll.

Staðreyndin er einnig sú að hún er ein elsta íþróttahöll Evrópu sem notuð er að staðaldri í alþjóðlegum keppnisleikjum í hand- og körfubolta. Ef við einskorðum okkur einungis við þjóðir sem eru skilgreindar sem vesturevrópskar, þá er hún elst.

Þegar Laugardalshöllin var tekin í notkun árið 1965 eignuðust Íslendingar í fyrsta skipti íþróttahöll sem gat hýst alþjóðlega keppnisviðburði. Forveri hennar var skáli sem bandaríski herinn reisti árið 1943 en sú bygging var lítil; bæði fyrir áhorfendur og íþróttafólk. Laugardalshöllin var því kærkomin viðbót í íslenskar íþróttir. En góðir og þarfir hlutir vara ekki að eilífu. Þeir eldast og verða að lokum úrelt fyrirbæri.

Þess má geta að Laugardalshöllin var minnkuð töluvert frá fyrsta samþykkta uppdrætti og varð því minni bygging að veruleika en ráð var gert fyrir í fyrstu. Gísli Halldórsson, arkitekt og hönnuður Laugardalshallarinnar, sagði að minnkunin hefði verið samþykkt af því að menn trúðu því að innan 20 ára frá vígslu Laugardalshallarinnar yrði enn stærri íþróttahöll risin í Reykjavík. Það gerðist ekki þrátt fyrir að til stæði að halda heimsmeistaramót í handbolta hérlendis árið 1995. Mótið fór fram en engin reis höllin. Á þeim tíma voru aðrar þjóðir í óða önn að reisa nýjar og nútímalegar íþróttahallir til að leysa af hólmi hallir sem reistar voru á árunum 1950-1970. Vegna framfara í byggingariðnaði og hærri öryggisstaðla í íþróttamannvirkjum þótti öðrum þjóðum það sjálfsagt mál. Hérlendis voru menn sáttir við lúna Laugardalshöllina.

Nýir þjóðarleikvangar rísa árlega

Á síðastliðnum 10 árum hafa nýir þjóðarleikvangar fyrir innanhúsíþróttir risið víðsvegar um Evrópu þar sem hallir sem voru reistar á árunum 1980-1995 þykja orðnar úreltar. Á sama tíma og þjóðir eru að skipta út 25-40 ára gömlum þjóðarhöllum er fátt sem bendir til þess að 54 ára gömul Laugardalshöll verði leyst af hólmi í nánustu framtíð. Ríki og borg sýna þessu málefni takmarkaðan áhuga.

Það er síðan algjörlega óviðunandi að á sama tíma og hand- og körfuboltalandsliðin hafa átt mikilli velgengni að fagna, skuli sætaframboð Laugardalshallarinnar minnka nánast ár frá ári. Í dag tekur höllin um 2.200 áhorfendur í sæti en sú tala var yfir 3.000 sæti fyrir rúmum áratug. Ástæða þessarar fækkunar sæta eru hertir öryggisstaðlar EHF og FIBA inni í keppnishöllum þar sem alþjóðlegir viðburðir fara fram.

Það er kominn tími til að stjórnvöld vakni af værum blundi og sýni íþróttafólki þá virðingu að hefja undirbúning og byggingu nýs þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir hér á landi.

Höfundur er skipulagsfræðingur.

Höf.: Þórð Má Sigfússon