Í neðri deildum körfuboltans kennir ýmissa grasa og má þar finna lið með torkennileg nöfn og ókunnugleg, jafnvel þeim, sem þokkalega fylgjast með íþróttum. Eitt þeirra nefnist Stálúlfur og leikur í annarri deild karla í körfunni.

Í neðri deildum körfuboltans kennir ýmissa grasa og má þar finna lið með torkennileg nöfn og ókunnugleg, jafnvel þeim, sem þokkalega fylgjast með íþróttum. Eitt þeirra nefnist Stálúlfur og leikur í annarri deild karla í körfunni. Víkverji fylgdist með viðureign Stálúlfs við Álftanes um helgina og fékk staðfest að í íslensku samfélagi eru margar vistarverur. Hann hefur farið á nokkra leiki í deildinni og yfirleitt eru aðeins nokkrar hræður á bekkjunum og þær láta lítið fara fyrir sér, en nú brá svo við að þarna voru nokkrir tugir manna, sem óhikað létu í sér heyra.

Leikmenn Stálúlfs eru frá Litháen og eru ansi sprækir. Þótt Stálúlfur lenti snemma undir og tapaði á endanum stórt vakti barátta liðsins aðdáun Víkverja. Ekki var hann síður hrifinn af stemningunni á pöllunum. Áhorfendur hvöttu sína menn og púuðu lengi vel á andstæðingana í hvert skipti, sem þeir skutu á körfuna. Nokkuð var um hróp og köll og einn áhorfandinn þrumaði nokkrum sinnum athugasemdum inn á völlinn, sem vöktu mikla kátínu viðstaddra. Það er þeirra sem skildu litháísku.

Litháskir íþróttamenn stofnuðu Stálúlf 2010. Í samtali við Kópavogsblaðið segir þjálfari þess, Algirdas Slapikas, að tilgangur félagsins sé „meðal annars að búa til vettvang fyrir íþróttaáhugamenn af erlendum uppruna; hvetja til heilbrigðra lífshátta, efla sjálfsmynd og aðstoða innflytjendur að aðlagast íslensku samfélagi. Þetta gerum við með því að stuðla að virkum og skemmtilegum samskiptum milli Íslendinga og innflytjenda í gegnum íþróttir.“ Í viðtalinu kemur fram að þeim hafi verið meinað að kalla félagið Lituanica og því valið Stálúlfur, sem væri vísun í sögu Litháens og stofnun höfuðborgarinnar Vilníus. Erkihertogann Gediminius dreymdi járnúlf á hæð á veiðiför og var draumurinn túlkaður þannig að þar skyldi rísa borg. Járnúlfurinn er nú tákn borgarinnar. Stofnendur Stálúlfs ákváðu hins vegar að velja sterkari málm en járn.