Það myndi brjóta gróflega gegn rétti manna til þess að standa utan félaga ef vinnulöggjöfin væri túlkuð með þeim hætti að einstaklingum væri skylt að leggja niður vinnu vegna verkfallsboðunar félags sem þeir eiga ekki aðild að.

Lengi hefur verið ákvæði í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þess efnis að menn skuli eiga rétt til þess að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Er þar átt við svokallað félagafrelsi en það nýtur einnig verndar samkvæmt 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Áður tóku íslenskir dómstólar þó skýra afstöðu gegn því að félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verndaði neikvætt félagafrelsi, þ.e. rétt manna til þess að standa utan félaga. Þetta kom til að mynda fram í Framadóminum svonefnda (Hrd. 1988, bls. 1532) þar sem fram kom að ákvæðinu væri aðeins ætlað að tryggja félagsstofnunina sem slíka en ekki rétt manna til að standa utan félaga.

Framadómur Hæstaréttar var þó ekki það síðasta sem heyrðist af málinu þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu átti eftir að taka fyrir meint brot íslenska ríkisins á félagafrelsisákvæði mannréttindasáttmálans. Varð niðurstaðan sú að ákvæðið fæli ekki einungis í sér rétt mann til þess að stofna félög heldur einnig rétt þeirra til þess að standa utan félaga. Árið 1995 voru svo gerðar breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og er nú mælt fyrir um það með skýrum hætti í 2. mgr. 74. gr. að engan megi skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Þannig er t.d. lögmönnum skylt að vera í lögmannafélagi, enda félaginu ætlað að hafa ákveðið eftirlit með þeim.

Þetta er áhugavert í ljósi þeirrar umræðu sem hefur komið upp um það hverjir megi vinna í verkföllum. Nokkuð ágreiningslaust er að stjórnendur fyrirtækja, stjórnarmenn ásamt eigendum og nánustu fjölskyldumeðlimum þeirra hafa heimild til þess að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Þá ber félagsmönnum í öðrum stéttarfélögum að sinna störfum sínum eins og áður. Því hefur hins vegar verið haldið fram af verkalýðshreyfingunni að heimildir annarra en stjórnenda til þess að vinna í verkföllum séu mjög takmarkaðar og að verkföll nái jafnvel til þeirra sem standa utan stéttarfélaga og þeirra sem skráðir eru í „röng“ stéttarfélög. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að enginn einstaklingur verður neyddur til þess að vera meðlimur í tilteknu stéttarfélagi enda væri slíkt andstætt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Allir launþegar eiga því rétt á því að standa utan stéttarfélaga ef þeir svo kjósa eða ganga í það félag sem þeir vilja, svo fremi að það félag vilji taka við þeim.

Það myndi brjóta gróflega gegn rétti manna til þess að standa utan félaga ef vinnulöggjöfin væri túlkuð með þeim hætti að einstaklingum væri skylt að leggja niður vinnu vegna verkfallsboðunar félags sem þeir eiga ekki aðild að. Slík túlkun myndi gera það að verkum að þeirri réttarvernd sem 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja væri kippt úr sambandi. Réttindin til þess að standa utan félaga eru til lítils ef félög, sem menn kjósa að standa utan, geta bundið einstaklinga með þessum hætti gegn vilja þeirra. Þetta væri jafnframt andstætt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem kemur skýrt fram að boðvald stéttarfélaga nái einungis til félagsmanna sinna en ekki annarra. Aukinheldur hefur það verið staðfest af Félagsdómi að verkfall nái einungis til félagsmanna þess stéttarfélags sem boðar verkfall en ekki annarra, sbr. t.d. dómur réttarins í máli nr. 11/1997.

Það er ljóst að verkföll geta valdið miklu tjóni og það tjón getur margfaldast ef komið er í veg fyrir að þeir sem réttilega mega vinna í verkfalli sinni störfum sínum. Skaðabótaábyrgð þeirra aðila sem koma í veg fyrir að menn sinni störfum með löglegum hætti í verkfalli gæti því orðið mikil. Eðlilegast væru þó að stéttarfélög sem og aðrir myndu bera virðingu fyrir þeirri réttarvernd sem felst í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo ekki þurfi að koma til frekari deilna um rétt utanfélagsmanna til þess að sinna störfum þegar vinnustöðvun varir.