Fjölnir steig í gærkvöld skref í áttina að því að eiga tvö úrvalsdeildarlið í körfuknattleik á næsta tímabili þegar bæði karlalið og kvennalið félagsins náðu 2:0 forystu í sínum einvígjum í 1. deildunum.

Fjölnir steig í gærkvöld skref í áttina að því að eiga tvö úrvalsdeildarlið í körfuknattleik á næsta tímabili þegar bæði karlalið og kvennalið félagsins náðu 2:0 forystu í sínum einvígjum í 1. deildunum. Bæði eiga nú möguleika á að gera út um sitt einvígi á heimavelli í Grafarvogi í næsta leik.

Kvennalið Fjölnis lagði Njarðvík á útivelli, 87:81, og flest bendir til þess að Fjölniskonur mæti Grindavík í einvíginu um úrvalsdeildarsæti. Grindavík er 2:0 yfir gegn Þór frá Akureyri.

Karlalið Fjölnis fór til Ísafjarðar og sigraði Vestra, 82:72. Vinni Fjölnir þetta einvígi bíður úrslitarimma gegn annaðhvort Hamri eða Hetti sem eru jöfn, 1:1, og þurfa því minnst tvo leiki til viðbótar.

Fjölnisliðin leika bæði á heimavelli annað kvöld, karlaliðið gegn Vestra klukkan 18 og kvennaliðið gegn Njarðvík klukkan 20.15.