Kristjana Sæunn Ólafsdóttir fæddist á Grettisgötu í Reykjavík hinn 12. febrúar 1944. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 11E 16. mars 2019.

Foreldrar hennar voru Ólafur Jón Guðbjörnsson, vélvirki, f. 27. mars. 1921, d. 31. mars 1977, og Ragna Klara Björnsdóttir húsmóðir, f. 31. maí 1924, d. 19. júní 2009. Systkini Sæunnar eru Ólöf Birna Ólafsdóttir, f. 9. október 1949, d. 14. nóvember 2004. Guðbjörn Karl Ólafsson, f. 17. júní 1953, og Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 2. október 1960. Kristjana gifttist 29. júní 1963 Kristjáni Jónssyni húsasmiðameistara, f. 10. janúar 1943. Foreldrar hans voru Jón Pálsson, f. 2. ágúst 1924, d. 23. júlí 2006, og Guðbjörg Kristjana Guðmundsdóttir, f. 23. desember 1921, d. 13. október 2011.

Sæunn og Kristján eignuðust fjögur börn. Ólafur Jón Kristjánsson, f. 2. október 1962, maki Kristín Davíðsdóttir, f. 24. desember 1963, búsett í Kópavogi. Börn þeirra eru Kristjana Sæunn, f. 29. júní 1991, og Davíð Kristján, f. 15. maí 1995. Hafdís Kristjánsdóttir, 12. desember 1963, maki Jón Jónsson, f. 22. maí 1964, búsett í Varmadal. Börn þeirra eru Kristján, f. 30. mars 1985, og Jóhanna, f. 16. júlí 1989, og eiga þau tvö barnabörn. Guðbjörg Ruth Kristjánsdóttir, f. 23. nóvember 1970, maki Birgir Rafn Ásgeirsson, f. 8. mars 1970, búsett í Kópavogi. Börn þeirra eru Kristín Thelma, f. 27. apríl 1993, Aníta Ósk, f. 22. júlí 1998, og Emilía Mist, f. 1. júní 2006. Kristín Sif Kristjánsdóttir, f. 22. febrúar 1982, búsett á Seltjarnarnesi. Börn hennar eru Viktor Orri, f. 22. mars 2007, og Aþena Mist, f. 6. febrúar 2009.

Sæunn og Kristján hófu búskap sinn í Kópavogi árið 1961, þaðan lá leiðin á Meistaravelli, svo á Ásvallagötu síðan í Sævargarða, Seltjarnarnesi, árið 1974 þar sem þau hafa búið alla tíð síðan.

Kristjana Sæunn starfaði í kjötbúð á Ásvallagötu, elliheimilinu Grund og í Melaskóla.

Útför Sæunnar fer fram frá Fríkirkjunni í dag, 27. mars 2019, klukkan 15.

Elsku fallega mamma mín var tekin frá okkur á stuttum tíma. Hún veiktist í desember sl. og hófst þá mikil barátta við erfiðan sjúkdóm, sem í fyrstu var talið að hún gæti sigrast á, en eftir erfið áföll sem sjúkdómnum fylgdu var baráttan töpuð. Baráttan var vissulega erfið, en aldrei kvartaði mamma, það var ekki hennar stíll.

Ég á eftir að sakna mömmu mikið, enda vorum við mjög nánar. Klukkan átta hvern einasta morgun töluðum við saman í síma og síðan marg oft yfir daginn.

Á þessari stundu streyma margar minningar fram í hugann tengdar mömmu og fjölskyldunni. Sérstaklega sterkar minningar tengjast jólunum, sem ég hef alla ævi átt með mömmu og pabba.

Eftir að ég eignaðist mína eigin fjölskyldu höfum við ætíð eytt jólunum saman ásamt systur minni, Kristínu Sif og hennar börnum, sem alla tíð hafa búið hjá mömmu minni og pabba. Ef til vill var það eigingirni hjá mömmu, en hún gat ekki hugsað sér lífið öðruvísi, en að þau byggju öll á sama stað.

Síðustu jólin okkar saman verða sérlega minnisstæð. Mamma þá enn hjá okkur, glæsileg að vanda, góður matur, falleg tónlist og notalegt umhverfi.

Undir lok veikinda mömmu komu þau góðu tíðindi að dóttir mín, ömmubarnið hennar, hefði eignast dóttur. Hún fæddist 25. febrúar sl. í næstu byggingu við þann stað þar sem mamma lá í veikindum sínum. Í tvígang var reynt að koma með litlu stúlkuna í heimsókn til langömmu, en okkur var á endanum ráðlagt af starfsfólki sjúkrahússins að sleppa því. Og þannig er lífið að einn kemur þá annar fer.

Mamma var dugleg og flott kona með létta lund, blítt bros og smitandi hlátur. Hún og pabbi nutu þess að ferðast með hjólhýsið og fara til Kanaríeyja. Þá hafði hún mjög gaman af því að umgangast vini og vinkonur og fara í gönguferðir með þeim.

Mamma var manninum mínum og börnunum mínum dásamleg tengdamamma og amma og þau minnast hennar öll með söknuði, þakklæti og mikilli virðingu.

Elsku mamma, ég þakka þér öll árin 55, sem við áttum saman. Ég sakna þín mikið, en ég veit að þú verður ávallt með okkur og að einn daginn hittumst við aftur.

Hafdís.

Elsku mamma.

Það er skrítið að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur og að við getum ekki hlaupið upp og fengið knús eða bara spjallað um daginn og veginn.

Mamma mín, þú varst stoð mín og stytta í öllu. Hjálpaðir mér að ala börnin mín upp og gafst mér góð ráð þegar þörf var á. Ég hefði ekki getað þetta án þín. Þú varst svo stolt af þessum gullmolum mínum og ég man að þegar þau sýndu þér einkunnablaðið sitt þá runnu tár niður kinnarnar á þér, þér fannst þau svo dugleg bæði í skólanum og íþróttunum og munu þau alltaf búa að því að hafa alist upp hjá þér, bestu ömmu í heimi.

Ég og börnin mín eigum eftir að sakna þín mjög mikið og ætla ég að reyna mitt besta að halda áfram að ala þau upp eins og þú kenndir mér. Og mun ég passa að þau komi alltaf á réttum tíma því þú þoldir sjálf ekki að koma of seint frekar beiðstu í 30 mínútur. Þetta er einn af mörgum góðu eiginleikum sem þú kenndir okkur og munu fylgja okkur allt okkar líf.

Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir og þú varðst alltaf veikari og veikari en þegar ég, Viktor Orri og Aþena Mist komum í heimsókn til þín á spítalann sýndir þú okkur það ekki. Þegar ég spurði þig: hvernig hefurðu það, mamma? þá var svarið alltaf: „bara ágætt, en þú“ – með þeim orðum held ég að þú hafir viljað hlífa okkur því alltaf varst þú að passa upp á fólkið þitt og umhugað um okkur öll.

Takk, elsku mamma, fyrir alla hjálpina og stundirnar okkar saman, var ég heppin að fá að búa hjá þér allan þennan tíma.

Takk, amma, fyrir alla ástina sem þú gafst okkur og erum við svo þakklát fyrir hvað þú varst góð að sækja okkur og skutla á æfingarnar þegar við nenntum ekki að labba heim, og ekki var það leiðinlegt þegar við komum stundum við í bakaríinu á heimleiðinni.

Amma, þú hefur alltaf verið til staðar fyrir okkur og við gátum alltaf leitað til þín með allt, það var alveg ómetanlegt að eiga svona yndislega og góða ömmu eins og við áttum.

Við munum sakna þín alveg ólýsanlega mikið en við vitum að þú ert komin á góðan stað og þér líður betur.

Elskum þig.

Þín yngsta dóttir og barnabörn,

Kristín Sif, Viktor Orri

og Aþena Mist.

Elsku mamma.

Orð fá því ekki lýst hvað ég sakna þín mikið. Ég sakna að heyra þig hlæja og kjánalegu danssporanna sem þú tókst gjarnan þegar lá vel á þér. Umfram allt sakna ég samræðnanna sem við áttum nánast daglega. Þessi samtöl gerðu svo mikið fyrir mig og þá sérstaklega núna þegar ég lít til baka. Þá töluðum við um allt milli himins og jarðar, eitthvað sem bara ég og þú vitum. Ég hefði ekki getað beðið um betri og tryggari mömmu og það að hafa svona gott samband við móður sína er ekki sjálfsagt. Mér hlýnar um hjartarætur að hugsa um dýrmæta sambandið okkar og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Þegar á reyndi á umburðarlyndi þitt gagnvart þínum nánustu voru engin takmörk sett. Fordómaleysi og réttlætiskennd þín gerðu það að verkum að til þín leituðu gjarnan þeir sem áttu erfitt og fundu hjá þér skjól og skilning. Ég leitaði oft ráða hjá þér, mamma mín, og þú hjálpaðir mér oftar en ekki að rata út og breyta rétt.

Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig ég á að sætta mig við að þú sért farin. Það að ég fái aldrei aftur að sjá þig, né heyra þig hlæja og knúsa þig fyllir mig sorg.

Ég veit satt að segja ekki hvernig ég á að geta ratað á nýjan leik í þessu myrkri. Allt sem mér þótti létt áður þykir mér óyfirstíganlegt nú. Ég er eins og sprungin blaðra. Ég finn fyrir miklum tómleika innra með mér og geng um með kökk í hálsinum og kvíðahnút í maganum.

Ég get ekki annað en vonað að þessi nístandi sársauki og sorg muni breytast með tímanum í þakklæti. Þakklæti fyrir allt sem þú varst og allt sem þú gerðir fyrir mig.

Það róar mig að vita af þér á betri stað. Minning þín lifir í hjarta mínu að eilífu.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Takk, elsku mamma.

Ég elska þig af öllu hjarta, þín dóttir,

Ruth.

Það er með djúpri virðingu og þakklæti fyrir allt sem ég kveð tengdamóður mína, Kristjönu Sæunni Ólafsdóttur. Það var fyrir margt löngu að ég kynntist Sæju, brosmildri, hlæjandi og alltaf léttri í lund. Þannig tók hún á móti mér þegar ég steig fæti fyrst inn á fallega heimilið hennar í Sævargörðum og reyndist hún mér alltaf vel.

Það er skrítið til þess að hugsa að Sæja sé farin, að allir þeir tímar og samtöl sem við áttum saman séu orðin að ótímabærum minningum.

Það var alltaf gott að leita til Sæju ef eitthvað bjátaði á eða mig vantaði móðurlegar ráðleggingar, þar sem ég missti móður mína ungur maður. Fyrir þau samtöl og ráðleggingar verð ég ævinlega þakklátur. Sæja leit raunsætt á málin, var staðföst en umfram allt sanngjörn.

En lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Vágestur barði að dyrum og með þvílíkum ofsa og krafti lagðist hann á Sæju, að ekki varð við neitt ráðið. Ég skil þetta ekki, sagði Sæja oft í veikindum sínum og ekki skiljum við þetta heldur sem eftir sitjum, syrgjum og söknum.

Það er þungt og dimmt yfir öllu þó að vorið sé í nánd, við munum halda minningu þinni á lofti og heiðra alla tíð. Þegar söknuður sækir að verður seilst í minningabankann og teknar út ómetanlegar og fallegar minningar um yndislega tengdamóður.

Takk fyrir allt, elsku Sæja mín, hvíl í friði.

Þinn tengdasonur,

Birgir Rafn Ásgeirsson.

Ó, elsku amma mín.

Sorgin sem fylgir því að missa þig er ólýsanleg, og mun ég sennilega aldrei jafna mig að fullu. Það að þú sért farin frá mér er óraunverulegt og tómarúmið er gífurlegt. Ég er í milljón molum að reyna að átta mig á hlutunum. Við áttum eftir að fagna svo stórum hlutum saman, við hlökkuðum svo til.

Það eina sem heldur mér gangandi núna í skólanum og öðru er að halda áfram að gera þig stolta. Þú hafðir svo mikinn áhuga á öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Velgengni mín var þér mikilvæg. Símhringingarnar og skilaboðin frá þér voru mér svo dýrmæt.

Ég sakna þess, ég sakna þín.

Það að ég hafi getað kysst þig og sagt þér að ég elska þig daginn sem þú kvaddir er mér bæði ógleymanlegt og ómetanlegt. Reyndar sagði ég það oft við þig og þú við mig, og ég veit að þú veist að ég elska þig að eilífu, elsku amma mín.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þitt barnabarn,

Kristín Thelma Birgisdóttir.

Elsku amma mín. Sorgin er yfirþyrmandi. Ég hugsa mikið um þig. Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég sakna þín.

Þegar ég hugsa um þig kemst ekkert að nema góðar minningar sem við áttum saman. Þú varst svo merkileg og falleg kona, að innan sem utan. Brosið þitt sagði meira en þúsund orð, ég sakna þess.

Ég sakna þess að knúsa þig og geta komið þér til að hlæja. Þú varst með svo einstakan hlátur sem smitaði út frá sér.

Ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér. Ég er ánægð að ég sagði þér hvað ég elskaði þig mikið og hvað ég væri stolt af þér. Síðustu kossarnir sem ég kyssti þig kvöldið sem þú fórst eru mér mjög kærir.

Ég er endalaust þakklát fyrir þig, amma.

Ég mun alltaf geyma þig í hjartanu mínu, hvert sem ég fer.

Ég er og verð alltaf mjög stolt af að vera ömmugullið þitt.

Þín,

Aníta Ósk Birgisdóttir.

Elsku Sæja systir.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég mína elstu systur, þó að það sé fjarri mér að hún sé farin. Eftir stutta en snarpa baráttu varð hún að lúta í lægra haldi fyrir veikindum sínum.

Ég minnist hennar með virðingu og þakklæti fyrir liðin ár. Hún var mín stoð og stytta frá upphafi, mannkostir hennar voru ótvíræðir, ég gat alltaf leitað til hennar og fengið góðar ráðleggingar.

Það er margt sem kemur upp í hugann á þessari þungbæru stundu.

Mér er enn í fersku minni þegar þú strunsaðir inn í herbergi til mín í Vallarbarðinu þar sem ég lá í andnauð, þú sagðir við mig „drullaðu þér á lappir, ég ætla að fara með þig upp á spítala“. Ég fór með þér enda ekkert annað í boði.

Þú lagðir bílnum nokkra metra frá innganginum og ég man að ég komst að næsta ljósastaur faðmaði hann og náði ekki lengra, þá komst þú með hjólastól og trillaðir mér inn á gjörgæslu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þarna bjargaðir þú lífi mínu.

Ég man eftir því þegar þið Stjáni bjugguð á Meistaravöllum og ég kom að passa fyrir ykkur, vá hvað mér fannst ég orðinn stór að getað passað Óla og Haddý. Líka þegar þið Stjáni fenguð nýja hjólhýsið, rosalega hvað okkur fannst það flott. tala nú ekki um alla litlu smáhlutina eins og fiðrildin og púðana, allt útpælt. Seinna keyptum við það af ykkur og eigum það enn.

Við fórum oft saman í frábærar útilegur og líka til útlanda, bæði til Spánar og í borgarferðir, alltaf var gleði og yfirvegun í fyrirrúmi og stutt í húmorinn hjá henni.

Ég minnist þess, Sæja mín, hvað heimili þitt var alltaf flott og fallegt, tala nú ekki um jólin enda varstu mikið jólabarn, alltaf var vel tekið á móti okkur enda höfðingjar heim að sækja.

Elsku Stjáni, Óli, Hafdís, Ruth, Kristín, makar, barnabörn og barnabarnabörn, megi drottinn almáttugur veita ykkur styrk á þessari erfiðu stundu og hjálpa ykkur í gegnum þessa miklu sorg.

Þinn bróðir,

Guðbjörn Karl (Kalli).

Elsku systir, það þyngra en tárum taki að setjast niður og skrifa minningargrein um þig. Þó það hafi verið 16 ár á milli okkar þá vorum við bestu vinkonur, ég man þegar ég átti mitt fyrsta barn þá varst það þú sem sagðir mér hvernig ég átti að gera hlutina.

Við töluðum saman á hverjum degi þegar morgunverkin voru búin og samtalið varði í tvo tíma alla daga. Þú varst minn trúnaðarvinur ég bara veit ekki hvernig ég á að geta verið án þín sem eftir er, elsku Sæja mín.

Enn nú ertu komin til pabba, mömmu og Birnu systur, þau hafa tekið á móti þér, elskan mín, minning þín mun lifa hjá öllum sem þig þekktu svo yndisleg varstu. Elsku Stjáni og fjölskylda, guð veri með ykkur á þessari sorgarstundu. Kveðja.

Björg systir.

Þegar við kveðjum kæra grannkonu er þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir tæplega 24 ára farsæla samfylgd í götunni góðu.

Það var yndislegt að flytja í Sævargarðana, þar sem ríkir blómlegt og ánægjulegt mannlíf. Sæunn og Kristján voru frumbyggjar og tóku vel á móti ungu fjölskyldunni.

Sæunn helgaði sig heimilinu og fjölskyldunni alla tíð. Þar var allt í toppstandi, smekklegt og fallegt, enda húsmóðirin reglusöm og myndarleg svo um munaði.

Kristján fagmaðurinn sá um viðhald hússins og endurbætur, saman voru þau í garðverkunum, en Sæunn var alltaf dugleg við bílaþvott og bónun.

Sæunn fylgdist vel með tískustraumum og var alltaf mikil skvísa. Hún var kvik í hreyfingum og snaggaraleg, hrein og bein, glaðlynd og hláturmild. Þá var hún tímanlega í öllu, m.a. var jólaskrautið sett upp snemma, ekki mikið seinna en um miðjan nóvember, en síðan var því líka pakkað snemma niður.

Sæunn átti alltaf hund eða hunda og fylgdu þeir henni hvert fótmál og voru iðulega í fanginu á henni.

Þau hjónin áttu hjólhýsi um langt árabil og nutu þess að fara í helgarferðir yfir sumartímann, í Borgarfjörðinn og austur fyrir fjall.

Barnabörnin áttu ríkan sess hjá ömmu og afa og voru þar tíðir gestir ásamt foreldrum sínum. Fylgdist okkar kona stolt með afrekum þeirra m.a. í íþróttum hérlendis og erlendis. Viktor Orri og Aþena Mist búa ásamt móður sinni Kristínu í Sævargörðunum. Sæunn og Kristján sáu ekki sólina fyrir þeim, hafa aðstoðað við uppeldi þeirra af kostgæfni og uppskorið ríkulega. Sæunn var einkabílstjórinn og skutlaði m.a. og sótti á æfingar, enda voru mörkin þeirra systkina í handbolta- og fótboltaleikjum tileinkuð ömmu.

Við, fjölskyldan Sævargörðum 8, þökkum yndislegar samverustundir í götunni góðu. Skemmtilegu götugrillin, sem síðustu árin voru hjá Sæunni og Kristjáni, kvennakvöldin og hversdagurinn með vinki, brosi og smá spjalli skilja eftir ánægjulegar minningar.

Það er mikill sjónarsviptir og söknuður sem fylgir því að kveðja þá mætu konu hana Sæunni. Hún sem alltaf var svo kraftmikil þar til krabbinn tók yfir á aðeins örfáum mánuðum. Sæunn var umvafin elsku eiginmanns og fjölskyldunnar til hinstu stundar, þeirra er missirinn mestur.

Elsku Kristján, þér og fjölskyldunni allri sendum við hugheilar samúðarkveðjur. Við Katrín eigum þess því miður ekki kost að fylgja elsku Sæunni síðasta spölinn, en hugur okkar er hjá ykkur kæra fjölskylda. Minningar um yndislega konu lifa.

Halla Bachmann Ólafsdóttir.

Mín kæra vinkona, komið er að kveðjustund.

Okkur er ekki ætlað að vita hvað lífið færir okkur eins og við höfum svo oft talað um. Og ekki áttum við von á að þú færir svona snögglega, elsku Sæja mín. Söknuðurinn er mikill.

Við höfum búið í nábýli hvor við aðra í bráðum 25 ár í Sævargörðunum okkar. Þú settir mikinn svip á umhverfið með gleði þinni og kærleika til allra hvort sem það voru börnin eða fullorðnir.

Alltaf hlæjandi og létt á fæti, oftast með sólgleraugun á enninu, alltaf smart. Við höfum sést næstum daglega í allan þennan tíma, ef ekki spjall þá bank á glugga með kveðjunni: „Er ekki örugglega allt gott elskan?“ og þú brostir þínu fallega brosi og oftar en ekki fylgdi hláturinn með.

Við töluðum oft um fjölskyldur okkar og hvað við værum heppnar með börnin okkar og barnabörnin. Það er lífið og uppskeran sögðum við með þakklæti í huga.

Þú fylgdist vel með erfiðleikum okkar þegar Gunni minn var veikur og þið áttuð ykkar vináttu sem þú sagðir mér svo oft frá. Þegar ég svo síðar kynntist honum Árna mínum þótti mér mjög vænt um hvað þú tókst honum vel og sýndir strax sambandi okkar og honum mikla virðingu.

Ég man dömuboðin í Sævargörðunum, grillpartíin og stuðið sem þú varst alltaf í. Alltaf tilbúin að hjálpa eða ræða málin ef eitthvað bjátaði á. Þú hringdir yfir ef þú sást að bíllinn minn hafði staðið of lengi fyrir utan óhreyfður, „er ekki örugglega allt gott elskan?“

Sæja mín, þú varst alvörumanneskja.

Þú reyndist mér og mínum ótrúlega vel, fyrir það vil ég þakka þér.

Ég veit líka hversu vel þú hefur reynst þínu fólki og hvað þú varst mikil fjölskyldumanneska. Missirinn er mikill.

Elsku Kristján minn, Kristín, Viktor Orri, Aþena Mist og fjölskyldan öll, við fjölskyldan í Sævargörðum 18 sendum ykkur innilegustu samúðarkveðju.

Helga Guðmundsdóttir.