Helgi H. Sigurðsson fæddist 5. febrúar 1934. Hann lést 16. mars 2019.

Útför Helga fór fram 22. mars 2019.

Elsku afi, ótrúlega erum við barnabörnin rík að hafa átt þig svona lengi. Það er ekki hægt að óska sér betri afa, þú ert ljúfasti og hlýlegasti maður sem við höfum kynnst.

Við munum alltaf búa að yndislegum minningum af Skólavörðustígnum að fylgjast með þér vinna, spjalla um fólkið sem gekk framhjá, heilsa upp á nágrannana, skjótast fyrir þig að kaupa rækjusamloku í Bónus og mandarínur í Vísi og fá að eiga afganginn. Takk fyrir allar heimsóknirnar til Hollands, allt spjallið í búðinni, skíðaferðirnar til Austurríkis og sumrin á Stokkseyri. Takk fyrir að segja okkur sögur. Takk fyrir að gefa okkur kakó á Mokka.

Takk fyrir að gefa bestu faðmlög í heimi. Það reynir á að kveðja þig, en það er gott að vita að þú sért nú kominn til ömmu.

Ásta Karen, Lilja Dögg og

Haukur Steinn.

Elsku tengdapabbi. Með þakklæti í hjarta sit ég nú og færi þér þessa kveðju.

Ég þakka þér fyrir hversu góður tengdafaðir þú reyndist mér alltaf, alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá þér, hvort sem þú tókst að þér barnapössun, málningarvinnu, hjálpa mér í garðinum, heimilisstörfin.

Frá öllum þessum verkefnum og samveru eru endalaust margar góðar minningar. Þú varst duglegur að samgleðjast okkur og veita mér ungri móður, með þá þrjú lítil börn, hvatningu og hrós sem komu sér svo sannarlega vel og veittu manni orku og gleði í hjarta.

Þegar við fluttum til Íslands með unglingana okkar eftir 10 ára búsetu erlendis, áttu börnin okkar mjög mikla stoð í afa Dassa. Þau þá í menntaskólum og vinnu í miðbænum. Þau gátu alltaf gengið að afa sínum vísum í búðinni.

Fengið faðmlag, bros og hvatningu, hvort sem dagar voru auðveldir eða erfiðir. Þetta var þeim og okkur fjölskyldunni mjög mikils virði og mikill stuðningur við börnin okkar sem voru að fóta sig í íslensku samfélagi. Alltaf hef ég minnt þig á, elsku tengdapabbi, hversu dýrmætur þú hefur verið okkur.

Með þakklæti í hjarta kveð ég þig nú, megir þú hvíla í friði.

Fjóla Grétarsdóttir.

Þegar veturinn með skammdegismyrkri sínu, hretum og kulda, sem hefur lamandi áhrif á allt sem andar, lífið, er á förum, kveðjum við Helga Sigurðsson.

Hann lærði ungur úrsmíði, starfaði lengst við Skólavörðustíginn og setti svip sinn á borgina. Kynni okkar byrjuðu þegar ég fór að æfa sund með Sundfélaginu Ægi. Þar myndaðist stór og samhentur hópur drengja. Helgi var frábær sundmaður og varð t.d. tvisvar í þriðja sæti á Norðurlandameistaramóti í sundi. Helgi var farsæll í lífinu, átti góða foreldra, eiginkonu og börn.

Tíminn líður og við eldumst, kunningjar og vinir deyja. Áður var talað um að þreyja þorrann og góuna. Í dag hefur þorrinn mildari ásýnd. Tímarnir breytast.

Ég kveð góðan dreng og sendi fjölskyldu Helga mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðjón Sigurbjörnsson.

Faðir minn og Helgi voru kollegar í úrsmiðastéttinni og fékk ég það hlutverk í æsku að sendast eins og títt var í þá daga, faðir minn hafði með innflutning á Pierpoint-úrum að gera ásamt úrsmíðinni. Oft fór ég því með varahluti og vörur til Helga sem var þá í Vesturveri og svo á Vesturgötu og síðast á Skólavörðustíg. Síðar tók ég til starfa með föður mínum og tók síðan við rekstrinum og hef því verið í samskiptum við Helga í tæp 60 ár. Fyrir þann tíma er ég þakklátur því vænni mann og traustari er erfitt að finna.

Verslunin hans á Skólavörðustíg var ábyggilega minnsta úrsmiðaverslun á Íslandi og vinnuplássið fyrir viðgerðir rétt rúmur fermetri. Það var alltaf sérstakt að líta inn um litla gluggann innan úr búðinni á vinnuborðið hans þar sem verkfærum og rafhlöðupökkum var haganlega fyrir komið og allt afar snyrtilegt.

Helgi var góður fagmaður, útsjónarsamur og vildi öll vandamál leysa hratt og vel fyrir sína viðskiptavini. Hann var félagslyndur, hláturmildur og fagnaði sínum viðskiptavinum við komu og tók þá jafnan tali, steig stundum fram á gólfið og lagði olnbogana á rekkverkið sem lokaði af gluggann og fylgdist með umferðinni um leið. Oftar en ekki var einhver gangandi á ferð sem veifaði og brosti til hans. Helgi gæddi þessa frábæru götu sínum persónutöfrum og hlýju, var smart í tauinu, djarfur oft í litavali sem var listræna hliðin á honum!

Edda var aldrei langt undan en Helgi og hún voru afar samrýnd og eignuðust fimm vænleg börn.

Þau fengu mikla athygli hvar sem þau sáust á mannamótum fyrir glæsileika sinn. Kollegar Helga, Björn Örvar og Ingvar Benjamínsson, hófu fyrstir innflutning á Citroën-bílum og var Helgi með þeim fyrstu til að panta eðalbílinn DS Pallas. Tókst fjölskyldan á hendur ferð til að sækja bílinn og setja í skip.

Þegar til verksmiðja Citroën í Frakklandi var komið gekk Helgi með syni sína Sigurð og Grétar út á bílaplanið ásamt fulltrúa Citroën, þar sem hundruð bíla voru, og þegar þeir koma að Pallas-bílunum í löngum röðum, þá bendir Helgi úr fjarlægð á einn bílinn og segir við strákana „þarna er hann“, sem gerði strákana forundrandi!

Jú, Helgi þekkti sinn bíl, því hann hafði pantað toppgrind á gripinn og var þetta eini bíllinn með „original“ toppgrind á svæðinu.

Helgi þjónustaði einnig viðgerðir á úrum til margra ára fyrir Píexið, þ.e. verslun Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, og fórst vel úr hendi. Þótti það góð búbót og að fá að sitja einn að þeim viðskiptum.

Á Skólavörðustíg voru löngum fjórar úra- og skartgripaverslanir, þ.e. Sigurður Tómasson sem var gegnt Þjóðviljanum, Kornelíus, Carl A. Bergmann og Helgi Sig. Allir höfðu nóg fyrir sig og samskiptin góð.

Í seinni tíð voru nágrannasamskiptin við Ófeig gullsmið, Óla í G.Þ. og Pétur í Bankastræti. Á föstudögum fékk ég oft símtal frá Helga sem spurði:

„Verður þú innfrá í fyrramálið?“ Honum þótti gott að koma til að versla á laugardagsmorgnum, þiggja kaffisopa, eiga spjall og ég naut ríkulega á móti. Ástvinum votta ég samúð mína.

Þormar Ingimarsson.