Sigursælar Valskonur með bikarinn sem þær tóku við í leikslok í gærkvöld sem sigurvegarar í Dominos-deild kvenna.
Sigursælar Valskonur með bikarinn sem þær tóku við í leikslok í gærkvöld sem sigurvegarar í Dominos-deild kvenna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Kannski er verið að bera í bakkafullan lækinn með skrifum um hvernig Helena Sverrisdóttir breytti Valsliðinu og Dominos-deild kvenna í körfuknattleik þegar hún sneri aftur heim og gekk til liðs við Hlíðarendafélagið seint í nóvember. En úrslitin og staðreyndirnar tala sínu máli á afgerandi hátt.

Körfubolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Kannski er verið að bera í bakkafullan lækinn með skrifum um hvernig Helena Sverrisdóttir breytti Valsliðinu og Dominos-deild kvenna í körfuknattleik þegar hún sneri aftur heim og gekk til liðs við Hlíðarendafélagið seint í nóvember. En úrslitin og staðreyndirnar tala sínu máli á afgerandi hátt.

Með Helenu í fararbroddi luku Valskonur keppni í deildinni í gærkvöld á átjánda sigurleiknum í röð og þær tóku við deildarmeistarabikarnum í leikslok gegn Snæfelli þar sem Hlíðarendaliðið vann yfirburðasigur, 82:56. Þar með hefur Valur unnið tvo fyrstu titla sína í körfubolta kvenna á einum og hálfum mánuði. Liðið varð bikarmeistari í febrúar (er með 21 sigurleik í röð þegar bikarinn er talinn með), og fáir munu væntanlega veðja gegn því að sjálfur Íslandsbikarinn fari á loft á Hlíðarenda í fyrsta skipti í vor.

Valur mun mæta KR í undanúrslitunum en KR tapaði mjög naumlega fyrir Keflavík, 95:97, í Vesturbænum í gærkvöld og hélt fjórða sætinu vegna ósigurs Snæfells. KR hefur gefið talsvert eftir seinni hluta vetrar og þó Benedikt Guðmundsson hafi komið liðinu aftur á kortið sem nýliðum í vetur eru litlar líkur á að Valskonur lendi í vandræðum með Vesturbæinga. Kiana Johnson var einu sinni sem oftar atkvæðamest hjá KR með 29 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar en lokaskot leiksins geigaði hjá henni tveimur sekúndum fyrir leikslok.

Keflavík fær hinsvegar Stjörnuna sem andstæðing í undanúrslitum. Keflavík endaði aðeins tveimur stigum á eftir Val og sex stigum á undan Stjörnunni og þar gæti orðið um hörkurimmu að ræða. Keflavíkurliðið er þó öllu líklegra, ekki síst eftir að Sara Rún Hinriksdóttir kom heim frá Bandaríkjunum. Hún lék sinn þriðja leik í gærkvöld, skoraði 30 stig, tók 7 fráköst og átti 5 stoðsendingar, og er helsta tromp Keflvíkinga þegar kemur að fyrirsjáanlegu úrslitaeinvígi við Val.

Stjarnan vann Breiðablik í Smáranum, 86:82, og það er alls ekki hægt að afskrifa Garðabæjarliðið sem vann átta af síðustu tíu leikjunum og valtaði m.a. yfir Keflavík með 22 stiga mun í febrúar. Danielle Rodríguez hefur spilað mjög vel fyrir Stjörnuna undanfarið og í allan vetur en hún gerði 29 stig í gærkvöld.

Haukar unnu Skallagrím auðveldlega, 104:59, í leik liðanna í sjötta og sjöunda sætinu sem skipti engu máli. Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 22 stig fyrir Hauka en Ines Kerin 20 stig fyrir Borgnesinga.

Valur – Snæfell 82:56

Origo-höllin, Dominos-deild kvenna, þriðjudag 26. mars 2019.

Gangur leiksins : 5:2, 14:4, 20:8, 28:12, 33:12, 37:15, 44:15, 49:20, 55:26, 61:35, 61:37, 63:44 , 65:49, 70:51, 78:54, 82:56.

Valur : Heather Butler 30/8 stoðsendingar, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 10/5 fráköst, Helena Sverrisdóttir 10/11 fráköst, Ásta Júlía Grímsdóttir 10/7 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 9, Kristín María Matthíasdóttir 3/6 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 3, Guðbjörg Sverrisdóttir 3, Bergþóra Holton Tómasdóttir 2, Anita Rún Árnadóttir 2.

Fráköst : 31 í vörn, 7 í sókn.

Snæfell : Helga Hjördís Björgvinsdóttir 14/4 fráköst, Angelika Kowalska 14/4 fráköst, Katarina Matijevic 12/7 fráköst/5 stolnir, Berglind Gunnarsdóttir 4, Gunnhildur Gunnarsdóttir 4/10 fráköst, Thelma Hinriksdóttir 3, Anna Soffía Lárusdóttir 3, Rebekka Rán Karlsdóttir 2/5 fráköst.

Fráköst : 25 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar : Davíð Tómas Tómasson, Ísak Ernir Kristinsson, Sigurbaldur Frímannsson. Áhorfendur : 116.