Hönnuðirnir Veronika Sedlmair og Brynjar Sigurðarson stödd í hönnunarheimi sínum á efri hæð Hafnarborgar.
Hönnuðirnir Veronika Sedlmair og Brynjar Sigurðarson stödd í hönnunarheimi sínum á efri hæð Hafnarborgar. — Morgunblaðið/Hari
Í tilefni HönnunarMars verða tvær sýningar opnaðar í Hafnarborg í Hafnarfirði kl. 20 í kvöld. Í aðalsal safnsins er sýningin Fyrirvari eftir Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair.

Í tilefni HönnunarMars verða tvær sýningar opnaðar í Hafnarborg í Hafnarfirði kl. 20 í kvöld. Í aðalsal safnsins er sýningin Fyrirvari eftir Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair. Sýningin miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu; náttúru-, borgar- og menningarumhverfi, við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum hlutum. Sjálft sköpunarferlið er sýningarefnið. Vinnan er séð sem eins konar röð möguleika og uppspretta fyrir nýja „hluti“. Hljóð verður kveikja að hlut og ljósmynd spinnur jafnvel af sér formæfingar í teikningu, svo dæmi séu tekin. Markmiðið er að nýta og sýna öll þessi stig og miðla eða setja fram eins konar kortlagningu á tengingum milli mismunandi hluta og viðfangsefna, að leggja fram og myndgera ferli, hugmyndir og uppsprettur. Verk Brynjars og Veroniku taka á sig margar myndir og eru unnin í ólíka miðla, en samband mannsins við umhverfi sitt er jafnan sterkur þráður. Þau búa í Frakklandi og standa saman að íslensk-þýsku hönnunarstofunni Studio Brynjar & Veronika. Þau hafa unnið margvísleg verkefni fyrir fyrirtæki og gallerí, m.a. fyrir skóframleiðandann Camper og kristals- og skartgripaframleiðandann Swarovski. Á síðustu árum hafa þau fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir hönnunarstörf sín, t.d. hin virtu Torsten og Wanja Söderberg-hönnunarverðlaun í Svíþjóð.

Óður til upphafsins

Í Sverrissal opnar Kristín Garðarsdóttir á sama tíma sýninguna Teikningar/skissur í leir og textíl í sýningarstjórn Brynhildar Pétursdóttur. Sýningin er óður til skissunnar, upphafsins og tilraunanna þar sem hugmyndirnar eru frjálsar og flæða óhindrað úr einu í annan. Vinnan hefst með skissum og teikningum, sem síðan færast af blaði og yfir í önnur efni. Slíkt ferli er áþreifanlegt í vinnu og verkum Kristínar, segir í tilkynningu og að skissurnar og teikningarnar séu yfirfærðar í leir og textíl með ólíkum aðferðum.