Við Geysi Ríkið á náttúruperluna en landeigendur eiga bílastæðin og mega rukka bílastæðagjöld, samkvæmt breyttum náttúruverndarlögum.
Við Geysi Ríkið á náttúruperluna en landeigendur eiga bílastæðin og mega rukka bílastæðagjöld, samkvæmt breyttum náttúruverndarlögum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Alls bárust 53 umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd sem umhverfisráðherra hyggst leggja fram á vorþingi.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Alls bárust 53 umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd sem umhverfisráðherra hyggst leggja fram á vorþingi.

Í kynningu á frumvarpinu kemur fram að markmið breytinganna sé að styrkja almannarétt einstaklinga sem ferðast um óræktuð eignarlönd í byggð. Segir að ekki verði heimilt að meina einstaklingum að fara um slík svæði nema nauðsynlegt sé að takmarka umferð vega nýtingar eða verndunar svæðisins. Jafnframt er lagt til að ekki sé heimilt að takmarka umferð um slík svæði með gjaldtöku fyrir aðgang. Á móti sé lögð til víkkun á rétti einstaklinga, „að landeigendur hafi meiri rétt til að ákveða hvort land þeirra í byggð sé nýtt undir endurteknar skipulegar hópferðir í atvinnuskyni. Þá er gert ráð fyrir beinu samþykki hlutaðeigandi landeiganda fyrir slíkri nýtingu þriðja aðila á landi hans sé hætta á spjöllum á náttúru eða ónæði,“ eins og það er orðað.

Muni valda skaða

Meðal umsagna sem bárust um frumvarpið var umsögn frá Landssamtökum landeigenda á Íslandi en þar er staðhæft að umræddar breytingar séu runnar undan rifjum hagsmunaðila í ferðaþjónustu.

„Tillagan sé annars tilefnislaus og að hún muni valda landeigendum, verulegum skaða og jafnvel leiða til þess að óviðkomandi einstaklingar eða fyrirtæki geti leynt og ljóst nýtt eða staðið fyrir atvinnurekstri (ferðaþjónustu) á eignarlöndum manna án nokkurs endurgjalds og án þess að landeigandi geti rönd við reist um vernd og umgengni lands síns,“ segir í umsögn Landssambandsins.

Óskar Magnússon, formaður samtakanna, segir í samtali við Morgunblaðið að þau hafi komið athugasemdum sínum á framfæri við umhverfisráðherra á fundi fyrir helgi.

„Okkur sýnist að það eigi að banna að taka aðgangseyri að landi en það megi hins vegar taka bílastæðagjald. Þetta þykir okkur mjög sérkennilegt því inni á svæðunum eru viðamiklir innviðir, til dæmis hellar, stigar, lýsing og stígar sem þarf að passa upp á. Við megum semsagt ekki taka gjald fyrir mölina undir fótum ferðamanna en við megum taka gjald fyrir mölina undir bílum,“ segir Óskar.

Hann segir að einhver kynni þá að benda á að hægt væri að nota féð sem innheimt væri fyrir bílastæði til uppbyggingar á ferðamannastöðunum sjálfum. Málið sé hins vegar ekki endilega svo einfalt. „Það er nefnilega ekki víst að náttúruperlurnar og bílastæðin séu í eigu sama aðila. Ef við tökum Geysi sem dæmi, þá er ríkið nýbúið að kaupa náttúruperluna, þó það sé reyndar enn í mati, en bílastæðin eru í eigu landeigenda. Ríkið þarf í því tilviki þá að borga fúlgur fjár í viðhald en hefur enga möguleika á að ná sér í tekjur.“

Eftirlit verði ómögulegt

Hitt ákvæðið sem félagið gerir athugasemd við er að gjaldtaka verði aðeins heimil af hópferðabílum sem koma á umrædda staði í atvinnuskyni. „Það á bara við ef þeir koma í endurteknum ferðum, ef eitthvert rútufyrirtæki setur einhverja náttúruperluna inn á sína túra og kemur reglulega og endurtekið þar við, þá er heimilt að innheimta gjald af farþegum eða fyrirtækinu,“ segir Óskar, sem telur að ómögulegt verði fyrir staðarhaldara að hafa uppi eftirlit með þessu. „Í dag er þetta þannig að það koma rútur og það er enginn ágreiningur. Nýju lögin bjóða upp á þras og uppákomur. Þarna þarf að ganga á milli og komast að því hvort um hópferðir tíu ára stúdenta er að ræða eða skipulagðar ferðir af ferðaskrifstofum. Norræna kórasambandið gæti komið á fimmtán rútum og fengið frítt inn,“ segir Óskar.

Hann bendir jafnframt á að meira sé um sjálfstæði í ferðamennsku en áður var. Bílaleigur á Íslandi séu yfir hundrað talsins og þær hafi yfir 25 þúsund bílum að ráða. „Fólk kemur á þessa staði í hundruðum þúsunda tali á bílaleigubílum en í þessum nýju lögum er engin tilraun gerð til að heimila mönnum að innheimta gjald af ferðamönnum á bílaleigubílum. Þetta er óframkvæmanlegt nema með gríðarlegri skriffinnsku og eftirliti. Það versta er samt að í þessu felst engin náttúruvernd. Þessi lög eru andstæð náttúrunni.“

Ágangur og náttúruspjöll

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir athugasemd við frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd. Í fundargerð kemur fram að ákvæði um að óheimilt sé að takmarka för um land með gjaldtöku sé of fortakslaust, enda þurfi landeigendur og sveitarfélög víða að leggja í talsverðan kostnað við að vernda náttúru og tryggja öryggi ferðafólks. „Í mörgum tilfellum er útilokað að loka svæðum alfarið og landeigendur eru nauðbeygðir til að ráðast í framkvæmdir til að afstýra varanlegum spjöllum á landi. Telja verður eðlilegt að heimilt sé að innheimta hóflegt gjald til að standa undir kostnaði þeim sem að framan greinir, ella er viðbúið að landeigendur treysti sér ekki til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir,“ segir þar.

Sveitarstjórnin bendir einnig á að talsverðar breytingar hafi orðið á ferðavenjum á síðustu árum og mikill fjöldi ferðamanna notist nú við bílaleigubíla. Því sé ekki rétt að gjaldtaka geti einungis náð til skipulegra hópferða. „Ágangur, átroðningur og náttúruspjöll sem slíkum ferðamönnum fylgir er oft ekki minni,“ segir sveitarstjórnin um ferðamenn á bílaleigubílum.

Þá fer sveitarstjórnin þess á leit að rúmar heimildir til að tjalda við alfaraleið í byggð verði takmarkaðar við skipulögð tjaldsvæði.