U17 Byrjunarlið í fyrsta leik milliriðilsins: Aftari röð frá vinstri: Danijel Dejan Djuric, Andri Lucas Guðjohnsen, Jón Gísli Eyland, Róbert Orri Þorkelsson, Ólafur Kristófer Helgason, Oliver Stefánsson. Fremri röð frá vinstri: Orri Hrafn Kjartansson, Davíð Snær Jóhannsson, Ísak Bergmann Jóhannesson, Valgeir Valgeirsson, Andri Fannar Baldursson.
U17 Byrjunarlið í fyrsta leik milliriðilsins: Aftari röð frá vinstri: Danijel Dejan Djuric, Andri Lucas Guðjohnsen, Jón Gísli Eyland, Róbert Orri Þorkelsson, Ólafur Kristófer Helgason, Oliver Stefánsson. Fremri röð frá vinstri: Orri Hrafn Kjartansson, Davíð Snær Jóhannsson, Ísak Bergmann Jóhannesson, Valgeir Valgeirsson, Andri Fannar Baldursson. — Ljósmynd/KSÍ
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Ísland mun í þriðja sinn á þessari öld eiga lið í úrslitakeppni Evrópumóts drengja 17 ára og yngri en úrslitakeppnin fer fram á Írlandi dagana 3. til 19. maí í vor.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ísland mun í þriðja sinn á þessari öld eiga lið í úrslitakeppni Evrópumóts drengja 17 ára og yngri en úrslitakeppnin fer fram á Írlandi dagana 3. til 19. maí í vor.

Íslensku strákarnir, undir stjórn Davíðs Snorra Jónassonar, tryggðu sér í gær glæsilegan sigur í sínum milliriðli með því að vinna Hvít-Rússa 4:1 í lokaumferðinni í Þýskalandi. Bæði liðin áttu möguleika á að vinna riðilinn, eins og Þjóðverjar, en Ísland var með 4 stig, Þýskaland 2 og Hvíta-Rússland 2 fyrir leikina í gær. Áður hafði íslenska liðið sigrað Slóveníu 2:1 og gert 3:3 jafntefli við Þjóðverja þar sem Andri Lucas Guðjohnsen jafnaði metin þrisvar.

Í gær skoraði Ísak Bergmann Jóhannesson tvö markanna, Andri Lucas og Andri Fannar Baldursson eitt hvor en Andri Fannar skoraði úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Andra Lucasi.

Í lokakeppninni verða Írland (gestgjafi) og Holland (Evrópumeistari) og Ísland, Austurríki, Ítalía, Tékkland, Portúgal og Rússland sem hafa tryggt sér sigra í sínum riðlum. Átta sæti eru enn óútkljáð og m.a. fara Þjóðverjar í umspil en flestir reiknuðu með því að þeir ynnu sinn riðil á heimavelli.

Ísland var síðast í úrslitum EM árið 2012 en þá voru flestir leikmanna fæddir 1995. Af þeim hafa Rúnar Alex Rúnarsson og Hjörtur Hermannsson skilað sér inn í landsliðshópinn en Elías Már Ómarsson, Kristján Flóki Finnbogason, Oliver Sigurjónsson og Adam Örn Arnarson hafa tekið þátt í minni verkefnum.

Ferna Kolbeins gegn Rússum

Ísland var líka í úrslitum EM árið 2007, með flesta leikmenn fædda 1990, og sló þá Portúgal og Rússland út í ævintýralegum milliriðli í Portúgal. Ísland vann þann riðil eftir stórbrotinn sigur á Rússum, 6:5, eftir að hafa komist í 6:0 en Kolbeinn Sigþórsson skoraði þá fjögur mörk í fyrri hálfleik.

Auk Kolbeins hafa úr því liði Viðar Örn Kjartansson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Guðlaugur Victor Pálsson skilað sér inn í A-landslið Íslands, auk þess sem Kristinn Jónsson og Kristinn Steindórsson hafa komið við sögu í minni verkefnum landsliðsins.

Í hvorugt þessara skipta náði Ísland að vinna leik í úrslitakeppni EM en gerði 2:2 jafntefli við Frakkland árið 2012.