Baráttumaður Sævar Helgi í Hvað höfum við gert?
Baráttumaður Sævar Helgi í Hvað höfum við gert?
Síðasta frétta- og ljósvakavika einkenndist, öðru fremur, af bölmóði og dómsdagsspám. Allt er að fara til andskotans á Íslandi, um það var fjallað í öllum fréttatímum.

Síðasta frétta- og ljósvakavika einkenndist, öðru fremur, af bölmóði og dómsdagsspám. Allt er að fara til andskotans á Íslandi, um það var fjallað í öllum fréttatímum. Verkföll, viðbúið hrun í hótel- og ferðamannabransanum, WOW að fara á hausinn, góðærið búið og enn ein efnahagslægðin fram undan. Hvað er eiginlega málið með þetta land? Getum við ekki verið meira eins og Svíþjóð?

Nei, Ísland er ekki Svíþjóð heldur lítið og fámennt land sem enginn kemst til eða frá nema með skipi eða flugvél og miðað við fréttir af hlýnun jarðar og dómsdagsspár um tortímingu alls lífs, haldi hitinn áfram að hækka af völdum okkar mannanna, ættum við að hætta bæði að sigla og fljúga. Nema til og frá Íslandi, auðvitað, svo við sveltum nú ekki í hel.

Um þetta og önnur afglöp mannskyns er fjallað í hinum vel unnu og fræðandi þáttum Hvað höfum við gert? á RÚV. Við þurfum að gjörbreyta lifnaðarháttum okkar og hefðum átt að gera það fyrir löngu. En það er líklega orðið of seint. Hvað er þá til ráða? Eigum við öll að flýja til fjalla? Nei, enn er von en hún er veik. Whitney Houston söng „I believe the children are our future“ en við getum ekki velt ábyrgðinni yfir á börnin og beðið eftir því að þau reddi þessu í framtíðinni. Við verðum að gera eitthvað núna, ekki á morgun.

Helgi Snær Sigurðsson