Stjórnmálamönnum gefst æ oftar illa að líta á almenning sem auðblekkt fífl – það er fagnaðarefni

Vakið hefur verulega athygli að meirihluti Breta telur, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar(sem Mbl. hefur sagt frá), að breska þingið sé staðráðið í því að koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr ESB í andstöðu við vilja meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Daily Telegraph segir á vef sínum að 55% Breta séu þessarar skoðunar. Færri en 19% eru ósammála því að þingið sé að reyna að stöðva útgönguna.

Meirihluti Breta, eða 54%, er einnig þeirrar skoðunar að viðleitni þingmanna, sem vilja að Bretland verði áfram innan ESB, og annarra sem tilheyra stjórnkerfi landsins, til þess að stöðva útgönguna hafi skaðað samningsstöðu Breta, en 24% eru ósammála því.

Rúmlega 40% telja að í stað þess að fresta útgöngunni úr ESB ættu Bretar að yfirgefa sambandið án útgöngusamnings en 28% eru ósammála því. Fimmtungur kjósenda segist aldrei ætla að kjósa aftur ef þingmenn koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr ESB.

Þessar niðurstöður eru ekki síst athyglisverðar vegna þess að mjótt var á munum í þjóðaratkvæðinu, en almenningur sé heilli í afstöðu sinni en atvinnustjórnmálamennirnir, sem vilja eyðileggja málið. Könnunin sýnir einnig að hræðsluáróður elítunnar um ógurlegar afleiðingar þess að fara úr ESB án samnings um hvert smáatriði virkar ekki. Slíkur áróður misheppnaðist einnig í Icesave. Hér eru stjórnmálamenn sem reyndust án tengsla við fólkið í Icesave að undirbúa sama leikinn, nú með útúrsnúningum og áherslum á aukaatriði þess, og haldlausar „túlkanir búrókrata“ en ekki grundvallaratriðin. Vonandi fær sú viðleitni makleg málagjöld.