Gauti segir umræðuna bera þess merki hve stutt rekstrarsaga íbúðaleigufélaga er hér á landi. Æ stærri hópur kýs að búa í leiguhúsnæði.
Gauti segir umræðuna bera þess merki hve stutt rekstrarsaga íbúðaleigufélaga er hér á landi. Æ stærri hópur kýs að búa í leiguhúsnæði. — Morgunblaðið/Eggert
Umsvif Heimavalla hafa aukist hratt og á skömmum tíma fór félagið frá því að reka um 200 leiguíbúðir upp í 1.800. Í byrjun næsta mánaðar sest Arnar Gauti Reynisson í framkvæmdastjórastólinn og tekur við keflinu af Guðbrandi Sigurðssyni.

Umsvif Heimavalla hafa aukist hratt og á skömmum tíma fór félagið frá því að reka um 200 leiguíbúðir upp í 1.800. Í byrjun næsta mánaðar sest Arnar Gauti Reynisson í framkvæmdastjórastólinn og tekur við keflinu af Guðbrandi Sigurðssyni. Framundan er að afskrá félagið úr Kauphöll, að ósk hluthafa, samhliða því að halda áfram að efla starfsemina.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Stærsta áskorunin er að tryggja að reksturinn sé og verði arðbær þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignagjöldum, sem eru einn stærsti einstaki gjaldaliður félagsins.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Haustráðstefna Advania á síðasta ári. Erindi Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur í Marel um stjórnun var sérlega áhugavert.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Bókin Veröld sem var eftir Stefan Zweig var áhrifarík. Þá sér í lagi til að minna mann á það að allt í heiminum er breytingum háð, eins og Zweig segir frá á einstaklega áhugaverðan hátt þegar hann fer í gegnum lífshlaup sitt.

Hver myndi leika þig í

kvikmynd um líf þitt og afrek?

Kevin Bacon á yngri árum tæki þetta hlutverk að sér enda þykir ýmsum sterkur svipur með okkur, nema kannski þegar kemur að danshæfileikum.

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Ég les bækur, tímarit og fylgist með þjóðfélagsumræðunni á Íslandi og í okkar helstu nágrannalöndum.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, ég geri það, hreyfi mig a.m.k. þrisvar í viku og hugsa um mataræðið. Hreyfingin er mér lífsnauðsynleg bæði andlega og líkamlega.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Draumastarfið væri tengt áhugamálunum á sviði íþrótta og útivistar. Það væri ekki slæmt að vera leiðsögumaður á fjallaskíðum á veturna og fjallahjólum á sumrin.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég væri mikið til í að bæta við mig frekari tungumálaþekkingu. Þá yrði sennilega spænska fyrir valinu. Best væri ef námið væri stundað á sólríkum stað.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Kostirnir við núverandi rekstrarumhverfi fyrir íbúðaleigufélög eru þeir að sífellt stærri hluti fólks á íbúðamarkaði kýs að búa í leiguhúsnæði og nýta sér þá kosti sem í því felast frekar en að festa sig niður í eigin fasteign. Helsti gallinn er sá að rekstrarsaga íbúðaleigufélaga á Íslandi er mjög stutt, ólíkt því sem er í nágrannalöndum okkar, og ber umræðan og sú gagnrýni sem þessi félög fá, þess oft merki.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Ég tek mér frí. Hvort sem það er með konunni minni, fjölskyldu eða vinum þá bregst það ekki að maður kemur tvíefldur til starfa eftir gott og skemmtilegt frí. Yfirleitt fæ ég bestu hugmyndirnar og innblástur í starfið á slíkum stundum.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Fyrstu lögin sem ég myndi breyta væru lögin um stimpilgjöld. Þau myndi ég fella úr gildi enda eru þau ekkert annað en ósanngjörn skammtheimta.

Hin hliðin

Nám: Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 2001; B.S. í vélaverkfræði Háskóli Íslands 2005; M.S. í iðnaðarverkfræði University of Minnesota 2008.

Störf: Ýmis störf í markaðsviðskiptum Íslandsbanka 2008 til 2015, m.a. við gjaldeyrisstýringu, gjaldeyrismiðlun, verðbréfamiðlun og eigin viðskipti. Fjármálastjóri Heimavalla 2015 til 2019. Framkvæmdastjóri frá apríl 2019.

Áhugamál: Áhugamál tengjast íþróttum og útivist. Hjólreiðar á sumrin og skíði á veturna. Þykir fátt skemmtilegra en að vera á fjallaskíðum á veturna eða fjallahjólinu á sumrin í góðum hóp vina.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Sigríði Völu Halldórsdóttur verkfræðingi og saman eigum við tvö börn, stelpu sem er 6 ára og strák sem er 4 ára.