Jöfnunarmarkið Ola Kamara, annar frá vinstri, horfir á eftir boltanum í mark Svía þegar hann jafnaði 3:3 á síðustu sekúndunni á Ullevål í Ósló.
Jöfnunarmarkið Ola Kamara, annar frá vinstri, horfir á eftir boltanum í mark Svía þegar hann jafnaði 3:3 á síðustu sekúndunni á Ullevål í Ósló. — AFP
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Lars Lagerbäck gekk brosandi af varamannabekk Norðmanna eftir að Ola Kamara skoraði jöfnunarmark þeirra, 3:3, gegn löndum Lagerbäcks, Svíum, á síðustu sekúndu uppbótartímans á Ullevål í Ósló í gærkvöld.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Lars Lagerbäck gekk brosandi af varamannabekk Norðmanna eftir að Ola Kamara skoraði jöfnunarmark þeirra, 3:3, gegn löndum Lagerbäcks, Svíum, á síðustu sekúndu uppbótartímans á Ullevål í Ósló í gærkvöld. Grannþjóðirnar mættust þarna í gríðarlega mikilvægum leik í undankeppni EM karla í knattspyrnu og dramatíkina vantaði ekki.

Fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands var súr á svip á fyrstu mínútu uppbótartímans en þá virtist Robin Quaison hafa tryggt Svíum 3:2 sigur, fjórum mínútum eftir að þeir jöfnuðu metin. Noregur hafði þar með misst niður vænlega 2:0 forystu í þessum sveiflukennda og dramatíska grannaslag. En Kamara skallaði boltann í mark Svía eftir hornspyrnu og tryggði Norðmönnum sitt fyrsta stig. Þeir töpuðu fyrsta leik sínum á Spáni, 2:1, á laugardaginn, á meðan Svíar unnu Rúmena. Stigið gefur þeim norsku vonir um að vera með í baráttunni um sæti á EM 2020.

*Álvaro Morata skoraði bæði mörk Spánverja sem máttu hafa fyrir því að vinna Möltu, 2:0, í Valletta en þeir eru þar með einir með 6 stig í riðli Norðmanna og Svía.

*Endasprettur Dana gegn Sviss í Basel var enn ótrúlegri en sá í Ósló. Breel Embolo kom Sviss í 3:0 á 76. mínútu og stórtap Dananna virtist innsiglað. En þeir skoruðu þrjú mörk á síðustu sex mínútunum og Henrik Dalsgaard jafnaði metin í 3:3 í uppbótartímanum.

*Helgi Kolviðsson þjálfari Liechtenstein mátti sætta sig við 6:0 tap gegn Ítalíu í Parma. Hans menn voru 4:0 undir í hálfleik og auk þess manni færri allan seinni hálfleik eftir rautt spjald í lok þess fyrri.