Forritið Reglulega má lesa um það í blöðunum hversu vel eða illa fjármálafyrirtækjum hefur gengið að standast álagspróf. Þar er rýnt í bókhaldið og reynt að spá fyrir um hvort fyrirtækin geti lifað af alls kyns skakkaföll í efnahagslífinu.

Forritið

Reglulega má lesa um það í blöðunum hversu vel eða illa fjármálafyrirtækjum hefur gengið að standast álagspróf. Þar er rýnt í bókhaldið og reynt að spá fyrir um hvort fyrirtækin geti lifað af alls kyns skakkaföll í efnahagslífinu.

En hvað um heimilisbókhaldið? Hversu auðvelt ættu lesendur með að standa af sér fjárhagsleg áföll, eða þrauka í gegnum efnahagslægð?

Fintest (www.fintest.co) býður upp á fjárhagslegt álagspróf fyrir einstaklinga, svo betur megi sjá hvar skórinn kreppir miðað við ýmsar forsendur.

Forritið býður notendum að slá inn upplýsingar s.s. um tekjur, föst og breytileg útgjöld, skuldir og eignastöðu, og hvernig tryggingum er háttað t.d. vegna tjóns á innbúi og húsnæði, veikinda, atvinnuleysis og andláts.

Fintest reiknar síðan út hvað gæti gerst s.s. ef notandinn verður alvarleg veikur eða missir vinnuna, ellegar ef hagkerfið tekur dýfu svo að hlutabréfa- og fasteignaverð lækkar og landsframleiðsla dregst saman. Er líka reiknað hvað gerist ef allt fer á versta veg þannig að bæði hagkerfið og heimilisfjármálin lenda í djúpri kreppu.

Fyrir þessa þjónustu rukkar Fintest 10 dali á ári.

ai@mbl.is