Michael Mann
Michael Mann
Eftir Michael Mann: "Í viðræðunum hefur Evrópusambandið staðið þétt við bakið á Írum, enda var tilgangurinn með stofnun ESB ekki síst að vernda minnstu löndin innan þess."

Það hefur verið dapurlegt að lesa greinar í íslenskum fjölmiðlum undanfarna mánuði þar sem því er haldið fram að Evrópusambandið sé ólýðræðislegt bákn þar sem skriffinnar eins og ég, sem enginn hefur kosið til embættis, taka allar ákvarðanir.

Ekkert er fjær lagi. Engin lög Evrópusambandsins eru ákveðin af fólki eins og mér. Evrópusambandið samanstendur af aðildarríkjum þess, ríkjum sem hafa ákveðið að deila fullveldi sínu á sviðum þar sem þau telja að slíkt efli hag þeirra og styrk.

Hvernig verða lögin til?

Vissulega semja embættismenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins drög að lagafrumvörpum, eins og ókjörnir embættismenn í íslenskum ráðuneytum. En það eru lýðræðislega kjörnir forsetar og forsætisráðherrar ESB-landa sem fyrst marka pólitíska stefnu sambandsins með einróma ákvörðunum sínum í leiðtogaráðinu. Auk þess geta stofnanir Evrópusambandsins ekkert gert sem ekki samræmist grunnsáttmálum þess, sem allar ríkisstjórnir aðildarríkja hafa samþykkt einróma.

Frumvörp eru yfirleitt til komin vegna beiðni frá ráðherraráðinu, sem er skipað ráðherrum ESB-landanna, sem fara með málaflokkinn sem til umræðu er hverju sinni (til dæmis landbúnað, sjávarútveg, samgöngumál, dómsmál). Einnig geta frumvörp orðið til vegna ályktunar Evrópuþingsins, sem kosið er með beinni kosningu, eða vegna þess að óháðar ráðgjafarstofnanir leggja til lagaumbætur. Þá getur almenningur í ESB-ríkjum einnig safnað undirskriftum til að fara fram á að framkvæmdastjórnin setji ný lög.

Hvað tekur svo við?

Þegar framkvæmdastjórnin hefur undirbúið frumvarp er það lagt fyrir Evrópuþingið, sem er kosið til fimm ára í senn með beinni kosningu íbúa í aðildarríkjunum 28, og ráðherraráðið, sem er skipað fulltrúum lýðræðislega kjörinna ríkisstjórna í Evrópusambandinu. Þing og ráðherrar ræða og breyta frumvarpstillögunum og sammælast svo um endanlega útgáfu laganna eða hafna þeim alfarið.

Ef eitt af ESB-löndunum innleiðir eða framfylgir ekki lögum má bera málið undir Evrópudómstólinn, sem er skipaður sjálfstæðum dómurum frá öllum löndunum, rétt eins og bera má íslensk lög (eða brot á þeim) undir dómstóla. En yfirleitt kemur ekki til þessa.

Þótt stjórnskipan Evrópusambandsins sé ef til vill flókin get ég ekki tekið undir með þeim sem segja að „enginn í ESB sé lýðræðislega kjörinn“ eða að það sé kerfisbundinn „lýðræðishalli“ innan sambandsins. Í einföldustu myndinni má segja að ESB sé löndin sem hafa sameinast um að vinna saman. Þau ráða, samkvæmt umboði kjósenda sinna.

Brexit var ekki ákvörðun okkar

Það hefur einnig valdið mér vonbrigðum að lesa skrif um að „Brussel“ vilji „refsa“ Bretum fyrir að ganga úr ESB. Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu og við virðum niðurstöðuna þótt hún hryggi okkur. Við höfum tekið skýrt fram frá byrjun að Bretar geti ekki notið réttindanna sem fylgja ESB-aðild án þess að rækja skyldurnar. Það væri eins og að segja upp áskrift að líkamsræktarstöð en ætlast þó til þess að geta áfram notað tækin og sundlaugina eins og ekkert hafi í skorist.

Eftir tæpra tveggja ára erfiðar samningaviðræður hefur ESB náð samkomulagi við gagnaðila sinn, bresku ríkisstjórnina. Nú vonumst við til þess að breska þingið ákveði hvaða stefnu skuli taka svo við getum hafist handa við að semja um náið framtíðarsamstarf við vini okkar í Bretlandi.

Ásakanir um „hefnd“ eru tilhæfulausar og ósanngjarnar. Samningahópur ESB hefur allan tímann starfað samkvæmt skýru umboði lýðræðislega kjörinna ríkisstjórna þeirra 27 ríkja sem eftir eru, sem hafa verið samstiga í gegnum allt ferlið.

Raunar er þessi umfjöllun um Brexit-málið fullkomið tækifæri til að svara einnig ásökunum um að ESB hlunnfari smærri aðildarríki, en því er gjarnan haldið á lofti á Íslandi sem dæmi um meinta ólýðræðislega stjórnarhætti sambandsins. Málefni Írlands, eyju sem telur 4,8 milljónir íbúa af 500 milljónunum í ESB, hafa verið erfiðasti hjallurinn í Brexit-samningaviðræðunum. Í viðræðunum hefur Evrópusambandið staðið þétt við bakið á Írum, enda var tilgangurinn með stofnun Evrópusambandsins ekki síst að vernda minnstu löndin innan þess.

Höfundur er sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi.